Sögur til næsta bæjar: Með metnaði og dugnaði geta allir orðið kettir

27. janúar 2026

Með metnaði og dugnaði geta allir orðið kettir

Eftir Hrafnkel Goða Halldórsson

Guðmoni Úlfi leiddist líf sitt og vinna sín. Alla daga mætti hann á slaginu 8:50 í dökkum jakkafötum upp á skrifstofu og eyddi deginum í að pikka á lyklaborð af litlum þrótti. Lífið utan vinnunnar var álíka spennandi. Heima mætti honum áhugalaus kona og augnagotur fullar viðurstyggðar og grátandi ungbarn sem hélt honum fyrir vöku. Öryggiskerfið sem hann bjó til fyrir mörgum árum virkaði fullkomlega og þar af leiðandi hafði Guðmon ekkert að gera. Stóllinn, sem hann stóð sjaldan upp úr, hafði mótast að rassi hans með árunum og liturinn á botni kaffibolla hans var líkari súkkulaði en marmara.

            Hann vann í höfuðstöðvum sælgætisfyrirtækis í Grafavoginum. Vinsældir kókómjólkur þess á íslenskum og erlendum markaði höfðu gert það að miklu veldi. Forstjóri fyrirtækisins, Klói, lét aldrei sjá sig og margir furðulegir orðrómar umkringdu hann. Hurðin að skrifstofu hans stóð á afskekktum gangi í byggingunni og Guðmon hafði aldrei séð inn fyrir hana.

            Fyrir nokkrum dögum gerði Guðmon sér loksins grein fyrir því af hverju sælgætisfyrirtæki í Grafavoginum hafði ráðið hann til þess að byggja svo öflugt kerfi. Hann sat við tölvuskjáinn og renndi hugsunarlaust í gegnum grunsamlega tölvupósta sem voru sendir á notendur kerfisins þegar hann kom auga á tortryggilegan póst sendan á forstjórann, Klóa. Í honum voru upplýsingar um greiðslu til kakóbaunaekru í Ghana. Forvitni Guðmons sigraði rökhugsun og hann rannsakaði ekruna. Hann eyddi deginum flakkandi milli alls kyns síða. Ekran sem fyrirtækið stundaði viðskipti við hafði margoft verið dæmd fyrir alvarleg brot á mann- og barnaréttindalögum sökum þrælkunar.

            Guðmon hunsaði þetta til að byrja með en eftir því sem dagarnir liðu byrjaði hann að móta áætlun til að ljóstra þessu upp. Hann myndi laumast óséður eitt kvöldið að skrifstofu Klóa og hala niður fleiri gögnum varðandi samstarfið. Þau gögn myndi hann síðan senda á helstu miðla landsins sem myndu nýtast þeim. Hann yrði hetja. Hann myndi gefa út bækur og sitja gegn Helga Seljan í Kastljósi og hvetja annað fólk áfram í baráttunni gegn spillingu.

            Loks rann sá dagur upp. Guðmon sat í stólnum sínum og beið eftir því að allir færu heim til ástkæru maka sinna. Klukkan sló sex og sjö og átta og Guðmon sat einn eftir með fiðring í maganum. Skrifstofan sem raulaði venjulega lag með stefnulausu spjalli og tónlausum lyklaborðum stóð nú þögul.

            Hurðin opnast og höfuð öryggisvarðarins gægðist inn.

            „Guðmon? Þú ennþá hér?“ sagði hann.

            „Annasamur dagur. Mig langar ekki að þetta hellist yfir mig seinna svo ég ætla bara að klára þetta í kvöld. Ég skal slökkva ljósin hérna þegar ég fer,“ andvarpar Guðmon.

            „Er þér sama þó að ég slökkvi frammi? Og ég skila kveðju til Auðnýjar og litla,“ svarar öryggisvörðurinn.

            „Já, þú mátt það, Beitir. Ég rata,“ sagði Guðmon.

            Hann beið í augnablik eftir að öryggisvörðurinn fór áður en hann slökkti ljósin og rauk fram á gang. Hann liðaðist milli ganganna handviss á hverju horni að Beitir myndi birtast og grípa hann glóðvolgan en það bólaði ekki á honum.

Guðmon stóð fyrir framan þykkar eikardyr skrifstofu forstjórans og andaði hægt. Hann átti í erfiðleikum með að slá inn kóðann að hurðinni vegna myrkursins og skjálfandi handa sinna. Fiðringurinn í maga hans var kominn í fæturna og olli doða.

Það heyrðist lágt klikk þegar lásinn opnaðist. Guðmon tók taugaóstyrkur í handfang hurðarinnar. Nú, þegar hann var við það að ganga inn í herbergið, fékk hann bakþanka. „Hvað ef þetta gengur ekki? Hvað ef ég er gripinn? Hvað gerist þá?“ hugsaði hann. En hann var kominn of langt, of nálægt draumi sínum til þess að hætta. Hann hughreysti sig og gekk inn í herbergið.

            Sterk birta blasti við honum. Svo sterk að Guðmon greip um augun sér til varnar. Í loftinu voru ljós sem vörpuðu hvítblárri birtu á tóma veggi rýmisins. Andrúmsloftið var kalt og sterílt og lyktin minnti Guðmon á skurðstofu. Í miðju herberginu stóð kýr. Hún leit út fyrir að vera nær dauða en lífi. Rifbeinin sáust skýrt í gegnum þunna húðina og feldinn og augun störðu hreyfingarlaus á tóman vegginn. Undir henni sat maður með einn spenann í kjaftinum og horfði á Guðmon.

            Maðurinn var með hvítt skegg og þakinn gulum og fjólubláum feld. Vöðvarnir sáust greinilega þrátt fyrir sitjandi stöðu hans og feldinn sem reyndi sitt besta til að fela þá. Eyrun stóðu þríhyrningslaga ofan á loðnu höfðinu og línuleg sjáöldrin störðu af ákafa á Guðmon. Hann líktist jötni eða… ketti?

            „Hver ert þú?“ spurði maðurinn eintóna.

            „Ó, fyrirgefðu. Ég hlýt að hafa gengið inn í rangt herbergi. Klukkan er orðin svo margt og ég hef verið að vinna svo lengi fram eftir. Afsakaðu þetta. Syfjan hefur ruglað mig í rýminu. Ég skal fara,“ sagði Guðmon. Fiðringurinn sem lék um hann áðan stakk hann nú af miklum ofsa.

            „Nei. Það er óþarfi. Vertu eftir. Ég hef gott af því að tala við starfsmenn mína. Þakka þeim fyrir dugnaðinn og hvaðeina,“ svaraði maðurinn og handlék spenann.

            „Ég þakka boðið en ég þarf virkilega að fara að koma mér heim. Ég var að eignast barn, sjáðu nú til, og konan er nú þegar ekki sátt með að ég hafi verið svo lengi hér í kvöld. Það lofar ekki góðu ef ég verð enn lengur. Verð líklega neyddur til að sofa á sófanum í kvöld.“ Hann þvingar ónáttúrulegan hlátur en maðurinn svarar ekki. Guðmon tekur eitt skref út um galopna hurðina.

            „Ef þú ferð þá þarf ég að reka þig.“ Maðurinn súpar á spenanum. „Óhlýðið starfsfólk á engan sess innan þessa fyrirtækis. Hver veit líka hvað aðrir atvinnurekendur hugsa þegar þeir frétta af óhlýðni þinni? Ég er ekki svo viss um að þeir verði fúsir að bjóða þér vinnu,“ sagði hann og horfði á Guðmon, pollrólegur. Svitinn skildi eftir sig kalda slóð á enni Guðmons. Maðurinn hló. „Hvað er að þér? Má ekki grínast lengur?“ sagði hann.

            Guðmon kreisti út úr sér óþægilegan hlátur. „Nei, afsakaðu dónaskapinn. Það er rétt hjá þér, ég get staldrað við í augnablik.“ Hann ræskti sig. „Afsakaðu aftur heimsku mína en… Ert þú Klói?“

            Maðurinn horfði stíft á hann. „Hver annar gæti ég verið?“ Hann hnykklaði stóra tvíhöfðana í andlitið á Guðmoni. „Þú færð kraft úr… Þú þekkir mig alveg.“ Klói sneri sér við og stakk túttunni upp í sig.

            „Jú auðvitað. Hah! Þreytan hefur gert mig alveg ruglaðan. Hver annar gætir þú verið?“ svarar Guðmon honum. Hann reyndi að fela taugaveiklunina með því að snúa fingri sínum í hringi við höfuðið og gefa til kynna bjánaskap sinn en ýktir andlitssvipir hans sviku hann. Hann hafði aldrei haft snefil af leiklistarhæfileikum.

            Klói svaraði honum ekki og kyrrðin var kæfandi. Ekkert heyrðist nema ör hjartsláttur mannsins og taktfast sog Klóa á spenanum.

            Guðmon reif þögnina. „Ætli það sé ekki best að ég komi mér?“

            „Af hverju ertu hér?“ sagði Klói, einbeittur, að spenanum.

            „Ég var búinn að segja þér. Ég…“

            „Ó guð! Hættu þessu kjaftæði. Ég er köttur, ekki hálfviti,“ greip Klói fram í fyrir honum.

            Guðmon horfði í áttina að opinni hurðinni.

            „Gjörðu svo vel. Farðu. Hve langt heldur þú að þú komist? Kettir eru banvænastu rándýr plánetunnar. Hver vöðvi, hver sin og hver taug hönnuð með einn tilgang í huga. Við erum drottnarar dýraríkisins.“

            Guðmon andaði hægt og meðvitað að sér steríla loftinu í þeirri von að róa sig niður, til þess að bæla niður skömmina og óttann, en það gekk ekki. Volgt hland rann löturhægt niður nárann og kórónaði niðurlægingu hans. Hann spennti hnén, faldi titringinn í þeim og vonaði að dökkar buxurnar feldu niðrunina sem fikraði sig neðar fætur hans. Klói hafði rétt fyrir sér. Hann gæti ekki hlaupið. Jafnvel ef hann kæmist héðan út, hvað biði hans án sönnunargagnanna? Pirruð kona, grátandi barn og atvinnuleysi. Engin bók, engin frægð og ekkert Kastljós. Maðurinn leit upp af gólfinu í áttina að Klóa, gráti næst.

            „Já?“ spurði Klói.

            „Ég kom hingað til þess að stela gögnum. Mér leist ekkert á þetta samstarf við ekruna í Ghana. Mér fannst almenningur eiga rétt á því að vita hvað liggur á bak við kókómjólkina þeirra. Ég ætlaði að fara til miðlanna, opinbera þetta allt,“ svaraði Guðmon.

            Klói horfði á hann. Ekki reiður, heldur forvitinn. „Og hvað svo? Þú ætlaðir til miðlanna og síðan? Þú værir auðvitað rekinn héðan og ég sé ekki fyrir mér að önnur fyrirtæki myndu ráða mann sem væri nýbúinn að stela gögnum af vinnuveitanda sínum. Ætlaðir þú að byrja að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum eða eitthvað? Unicef?“ spurði Klói.

            „Ég hugsaði ekkert út í það. Mig langaði bara gera það sem mér fannst rétt.“ Guðmon herptist saman. Óttinn var áþreifanlegur og hann fann hann iða upp hrygginn.

            „Æi, plís. Hættu með þessa þvælu. Þú veist vel að það er ekki satt. Þú, nýbakaður faðir, hugsaðir ekkert hvað næsta skref væri? Hugsaðir ekkert hvernig þú ættir að styðja við fjölskylduna þína? Segðu mér satt!“ Klói var staðinn upp. Hann þandi út vöðvamikinn brjóstkassann svo hann líktist helst uppblásinni blöðru.

            Guðmon leit frá honum. „Ég… Ég ætlaði að nýta tækifærið og gerast formaður nýrrar hreyfingar gegn spillingu. Mig langaði gefa út bók og fara í Kastljós. Verða frægur…“ Skömmin var bitur á bragðið. Hann langaði að þrýsta sér saman í lítinn bolta. Svo lítinn að hann myndaði svarthol sem drægi hann allan með sér í óendanleikann. Hann átti ekki betra skilið.

            Klói hló. „Ég hef aldrei séð grátandi uppreisnarsegg! Taktu þig til, maður! Að sjá ástandið á þér.“

            Guðmon þurrkaði tárin með skyrtunni sem svitinn hafði gert raka. Klói gekk upp að honum og lagði loppu á öxl hans.

            „Þú ert ekki alslæmur. Það er margt við þig sem minnir mig á sjálfan mig þegar ég var yngri. Þú tekur örlögin í eigin hendur. Ryður frá öllum þeim sem á vegi þínum standa. Þetta fólk þarna í Ghana gerir sér bara ekki grein fyrir því að í þessum heimi þarf dugnað til þess að klífa á toppinn. Er það mér að kenna að þau séu löt? Nei. Og hvort sem er ættu þau að vera þakklát fyrir það að ég sé að veita þeim vinnu. Ef ég gerði það ekki myndi einhver annar stökkva á tækifærið. Betur við heldur einhver annar, ekki satt? Þú, hins vegar, hugsar ekki eins og þau. Þú gætir einn daginn verið í minni stöðu, efst á fæðukeðjunni.“ Það glitti í vígtennur þegar Klói brosti til Guðmons. Hann rétti úr sér og kinkaði kolli.

            Klói tók loppuna af öxl hans og gekk aftur til kýrinnar. „Farðu heim. Konan hefur örugglega áhyggjur af þér, ef ég þekki þær rétt,“ sagði hann.

            „Já… Takk,“ svaraði Guðmon honum hás.

            Þegar hann gekk út úr herberginu gat hann loks andað aftur. Hann lokaði á eftir sér og léttirinn helltist yfir hann. Í augnablik stóð hann grafkyrr og náði tökum á sjálfum sér. Lyktin sem tók á móti honum af skrifstofunni og öllum búnaði hennar, þó ekkert sérstök, líktist angan af nýbökuðu brauði borið saman við steríla andrúmsloft herbergisins. Guðmon brosti, ánægður að þetta hafi ekki farið verr.

            Hann hraðaði sér niður dimma ganga skrifstofunnar og gætti sín að verða ekki á vegi öryggisvarðarins. Hann reyndi að einblína á að koma sér út en hann gat ekki hætt að hugsa um samræðu sína við Klóa. Hafði hann rétt fyrir sér? Af hverju ætti hann að hugsa um einhvern annan en sig og sína? Það fæðast allir í þetta kerfi sem krefst þess að fólk berjist til þess að komast á toppinn. Hugsunin hvarf ekki fyrr en hlandvotar buxur hans komust í snertingu við köldu sætin í bílnum. Hann þyrfti að fara í sturtu þegar hann kæmi heim.

Guðmon mætti í vinnuna á réttum tíma daginn eftir. Það meinaði honum enginn aðgang og stóllinn sem þekkti hann svo vel tók á móti honum óhreyfður. Hann vann af meiri dugnaði þann dag en hann hafði nokkurn tímann áður gert. Guðmon myndi stofna sitt eigið fyrirtæki einn daginn en í augnablikinu þyrfti hann að vera hér. Hann ætlaði á toppinn. Hann ætlaði efst á fæðukeðjuna. Hann ætlaði að verða köttur.

 

Hrafnkell Goði er nemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann er fæddur og uppalinn í Vesturbænum þar sem hversdagsleikinn heldur fólki í heljargreipum. Frá blautu barnsbeini hefur hann því verið heillaður af öllu hinu furðulega í þessum heimi. Sú hrifning berst yfir í bækurnar sem hann les og sögurnar sem hann skrifar, þar sem alls kyns yfirnáttúrulegir og undarlegir hlutir eiga sér stað.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í janúar 2026. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst