Memento Vivere
Eftir Fanneyju Björk Guðmundsdóttur
Fyrsti snjórinn er fallinn og það með látum. Lögreglan sendi fólk heim úr vinnu og skólum, flestir komust á leiðarenda en þó ekki allir. Nú er stormurinn liðinn hjá og María keyrir snævi þaktar göturnar. Það er stillt og sólin er hátt á lofti. Ótrúlegt hvað veðrið verður alltaf fallegt eftir storminn, eins og náttúruöflin sem iðrast einskis þurfi líka að hvíla sig. Hún undrar sig á því hve margir bílar eru fastir út í kanti.
Hvernig má það vera að það eru alltaf þeir sem eiga Hyundai i10 sem koma sér í þessa stöðu? hugsar hún með sér og tekur hægri beygju inn á Háaleitisbrautina. Bíllinn rennur aðeins til í beygjunni en hún réttir hann af og heldur áfram heim á leið.
Það má ekki falla smá snjór á höfuðborgarsvæðinu og þá fer allt á hliðina, göturnar eru nánast ófærar, þykkt lag af klaka hylur malbikið og það má helst líkja keyrslunni við þá á holóttum malarvegi en ekki þeirri á malbikuðum götum borgarinnar. Hún keyrir hægt en örugglega og fylgist með jepparunkurunum sem þykjast vera betri en allir aðrir. Þarna er einn Land Rover á skautasvelli, afturendinn þeytist til beggja hliða á meðan bílstjórinn reynir að ná stjórn. Hálfviti. Snjórinn brýtur upp annars vélrænt lífið, gerir það spennandi. Hún gæti gefið í, tekið sénsinn, farið yfir þolmörk bílsins. Kannski fer hún út af, kannski ekki. Kannski rennur hún fyrir þennan trukk sem kemur þarna á móti henni. Það væri svo auðvelt að enda þetta bara hér og nú, ég gæti svo auðveldlega … henni verður hugsað til Lubba, hundsins sem bíður hennar og beinir huganum annað.
Þegar hún rennir bílnum í hlaðið heima hjá sér horfir hún inn um gluggann þar sem hundurinn situr og bíður eftir henni. Hann hristir sig glaðlega og stekkur niður úr rúminu. Þegar hún opnar dyrnar tekur hann á móti henni í anddyrinu, skottið sveiflast til beggja hliða, rétt eins og flestir bílarnir á götunum.
„Hæ elskan mín,“ segir María og krýpur niður í hæð Lubba, klappar honum á bak við eyrun og þefar létt af feldinum. Hún reisir sig upp og sækir hálsólina sem hangir á sínum stað á lyklahúsinu. Hundurinn spangólar, snýr sér í hring og hoppar með framlappirnar upp á kvið Maríu. Hún smellir ólinni utan um háls hundsins og saman fara þau út í bíl. Lubbi getur ekki leynt spenningi sínum í bílferðinni, hleypur um í aftursætinu eins og bílbeltið leyfir og spangólar alla leiðina. María keyrir upp í kirkjugarð og leggur bílnum. Á bak við kirkjuna er lítill stígur þar sem hún og Lubbi labba oft saman. Sem betur fer er hún ekki fyrsti göngugarpur dagsins og því eru fótspor í snjónum sem leiða hana áfram. Hún andar að sér fersku vetrarloftinu, finnur hvernig frostið frystir nefhárin í hverjum andardrætti. Hún andar frá sér heitri gufunni, horfir á hana leysast upp.
Það brakar í snjónum undir fótum hennar í hverju skrefi. Snjórinn glitrar í sólarljósinu og María fær væga ofbirtu í augun. Lubbi stekkur áfram í djúpum snjónum til að komast áfram, hann nær honum langt upp fyrir bringu og þar sem hann stendur og bíður eftir henni sést einungis í svart höfuðið, rauða tunguna og skýið sem hann blæs frá sér. María horfir á hundinn sinn, skepnuna sem gefur lífi hennar tilgang. Hún hreinlega veit ekki hvað verður um hana þegar hundurinn fer. Þau ganga saman í klukkutíma áður en þau koma aftur að bílnum, hæstánægður hundurinn stekkur í aftursætið og leyfir Maríu að setja á hann bílbeltið. Hann leggst örmagna í sætið og dæsir, gefur frá sér krúttlega stunu. Hann horfir á Maríu með augnaráði sem einungis er hægt að túlka sem ást. Aðeins hundur getur elskað þig.
Í búðinni setur hún First Price hrísgrjón í körfu og tvö kíló af frosnum kjúklingi. Matur sem ætti að duga henni út mánuðinn. Í gæludýradeildinni sækir hún stóran poka af hágæða hundafóðri og tvær tegundir af blautmat. Hún borgar með Visakortinu sem fór í mínustölu á degi þrjú og fer út í bíl. Þegar hún kemur heim blandar hún samviskusamlega blautmat við tvær dollur af þurrmat, passar að það sé blautmatur á hverju einasta þurra korni í dallinum. Hún setur vatn í ketilinn og á meðan vatnið sýður setur hún eina frosna bringu úr kjúklingapokanum á disk til afþýðingar. Með smelli lætur ketillinn hana vita að vatnið er tilbúið. Hún hellir sjóðheitu vatninu yfir hundamatinn og stybban af matnum fyllir vit hennar.
„Hundar vilja helst matinn sinn smá blautan og helst örlítið heitan,“ hafði hundaþjálfarinn sagt á námskeiðinu í vor. Hún hefur fylgt því síðan. Lyktin af matnum magnast svoleiðis upp að hundurinn slefar þar sem hann stendur við hlið hennar.
„Við verðum að leyfa honum að kólna smá fyrst, svo færðu að borða,“ segir hún við Lubba sem starir skilningslaus og örvæntingarfullur í augu hennar. Hún horfir á hundinn, sér gráu hárin í andliti hans, ummerki ellinnar sem læðist ekki, heldur hleypur aftan að dýrunum svo allt of snemma. Það er eins og hann hafi verið lítill hvolpur í gær. Blikk og hann varð unglingur, fór á gelgjuna. Blikk og hann varð fullorðinn. Blikk og hann er nú orðinn gamall. Eitt blikk enn og hann verður farinn. Hún reynir að róta í tilfinningunum innra með sér, reynir að kreista fram tár en ekkert kemur. Hún grætur ekki, hefur ekki grátið síðan tilfinningarnar yfirgáfu hana. Mig langar svo að gráta, plís leyfðu mér bara að gráta. Ef ég græt þá hef ég tilfinningar og ef ég hef tilfinningar þá get ég kannski orðið hamingjusöm aftur. Ef ég græt þá er von. Ekkert gerist.
Eftir stutta stund setur hún dallinn á gólfið og hundurinn sparar ekki eina sekúndu heldur stekkur á hann og borðar eins og enginn sé morgundagurinn. María sækir hátalarann og tölvuna sína, hún tengir Bluetooth og setur á shuffle á Spotify. Post Malone spilast í hátalaranum og hún opnar Canvas. Það er búið að birta einkunnir úr síðasta verkefni, loksins. Hún var stolt af verkefninu sem hún skilaði, fannst hún loks hafa gert eitthvað gott. Hún loggar sig inn og Post Malone heldur áfram að syngja til hennar í hátalaranum.
Give me something I can feel
Hún opnar einkunnagjöfina og tekur andköf. Henni bregður við töluna sem starir á hana, hæðist að henni. Hélstu í alvöru að þú gætir gert eitthvað gott, að þú hefðir einhvern rétt á því að vera stolt af einhverju sem þú gerir?
Give me something, something real
Það brestur eitthvað innra með henni og hugurinn fer á flakk. Hún getur hætt að ljúga að sjálfri sér. Henni gengur illa í skólanum, hún er örmagna og horfir á draumana sína verða að engu, eins og að slökkva á kerti og horfa á reykinn hverfa út í tómið. Eitthvað er fast í hálsinum á henni, hún heldur að hún sé að kafna. Fínt, hugsar hún. Taktu mig með þér í tómið. Hún finnur heitt tár renna niður á kinn, og svo annað. Hún strýkur tárin með handarbakinu og brosir. Hundurinn kemur sleikjandi út um, leggur höfuðið á lærið hennar og ýlfrar, skynjar tilfinningarnar sem streyma frá henni eins og flóðbylgja. Hún grætur og grætur, hefur ekki hemil á tárunum. Á milli ekkasoganna hlær hún.
Það er von.
Fanney Björk Guðmundsdóttir er 24 ára bókmenntafræðinemi á BA stigi við háskóla Íslands með ritlist sem aukagrein. Hún er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hefur alla tíð haft gaman að lestri og skrifum. Með sögunni vill hún vekja athygli á að sama hversu lágt niður maður getur komist þá er alltaf leið upp aftur. Það er von.


