„Með Hnubba Lubba frá Rjómabúi Stubba“

Á mínu heimili hafa barnabækur í bundnu máli alltaf notið mikilla vinsælda. Það er eitthvað við rímið og hrynjandann sem festir athyglina við lesturinn og getur verið bæði róandi og sprenghlæilegt. Eitt af kvæðunum sem við höfum lesið hvað oftast fær okkur einmitt til að skellihlæja; Brunahani á strigaskóm eftir Þórarinn Eldjárn. Það er ljóð sem byggir á endurtekningu og krakkarnir læra fljótt hvenær má hrópa upp „og brunahani á strigaskóm“ og spennan eftir endurtekningunni getur við áþreifanleg.

Endurtekningar í barnabókum eru svo sem ekkert nýjar af nálinni, samanber til dæmis litlu smábarnabókunum um Bláu könnuna og Græna hattinn. Ég held að hvert mannsbarn á Íslandi hafi heyrt þær sögur einhvern tíman í æsku. Það býr visst öryggi í því að vita hvert næsta orð er og eftirvænting, því það er gaman að geta sagt söguna með mömmu, eða pabba eða hverjum sem er að lesa fyrir mann.

Hairy Mcleary = Hnubbi lubbi

Á síðasta ári komu út í íslenskri þýðingu tvær bækur eftir Lynley Dodd, nýsjálenskan barnabókahöfund. Bækurnar heita á íslensku Hnubbi Lubbi frá Rjómabúi Stubba og Hnubbi Lubbi – Fótur og fit hjá dýralækninum. Fyrri bókin sérstaklega er frábær endurtekningabók sem krakkar geta hlustað á aftur og aftur. Hnubbi Lubbi er innilega krúttlegur loðinn hundur sem heldur í göngutúr og á hverri síðu bætist við nýr félagi, eins og „Herkúles mestur, stór eins og hestur“ og „Snitsel frá Haga, með mjög síðan maga“. Allt endar svo heldur snöggt þegar hersingin af hundum gengur fram á Örvar Kló sem mjálmar og hvæsir og sendir alla á flótta beint upp í rúm.

Fyrstu bókina, Hnubbi lubbi frá Rjómabúi Stubba, finnst mér vera kynningarbók á Hnubba Lubba. Lesendur kynnast honum sem krúttlegum forvitnum hundi. En Hnubbi Lubbi lendir í fleiri ævintýrum því það hafa komið út minnst tíu bækur með Hnubba Lubba á frumtungumálinu. Þar af hefur ein önnur bók verið þýdd á íslensku, Hnubbi Lubbi – fótur og fit hjá dýralækninum. Þar verður Hnubbi Lubbi fyrir árás frá páfagauk og viðbrögð Hnubba Lubba verða til þess að allt endar í alsherjar upplausn á biðstofu dýralæknisins, með litríkum lýsingum (í bundnu máli) og lifandi myndum.

Fyrir leikskólabörn

Dodd er þekkt fyrir að skrifa barnabækur þar sem dýr spila aðalhlutverkið, en nöfn dýranna ríma alltaf skemmtilega. Hún hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir barnabókaskrif sín og teikningar. Sérlegur álitsgjafi Lestrarklefans, tæplega tveggja ára hafði mikinn áhuga á myndunum í bókinni, en minni áhuga á lestrinum (hann er enn á harðspjaldabókastiginu). Við gátum þó gelt með nokkrum hundum og mjálmað á ketti. Þó efast ég ekki um að börn sem eru komin ögn lengra í þroska en álitsgjafinn geti vel unað sér við að láta lesa bækurnar um Hnubba Lubba fyrir sig og hrópa með þegar þau vita næstu línu.

Þó verður að viðurkennast að nafnið Hnubbi Lubbi er ögn erfitt í framburði, sérstaklega ef lesari glímir við kvef. Það getur verið flókið að þýða bækur í bundnu máli, ekki síst þar sem eru orðaleikir. Ef til vill hafa einhverjir orðaleiki týnst við þýðinguna. Við vonum samt að fleiri bækur eftir Dodd verði þýddar á íslensku, því það má alltaf bæta fleiri barnabókum í bundnu máli við flóruna.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...