Það er erfitt að skrifa barnabækur. Börn vilja ekki hvað sem er og svo eru börn eins mismunandi og þau eru mörg. Það er erfitt að velja bók fyrir börn og það sem hentar einu hentar kannski ekki því næsta. Á okkar heimili hafa hvers kyns vísur í barnabókum alltaf verið vinsælar. Það er ekki verra ef vísurnar eru fyndnar og barnvænar. Þórarinn Eldjárn hlýtur að teljast eitt afkastamesta ljóðskáld okkar Íslendinga, án þess að ég hafi neinar opinberar tölur yfir það eða vilji hallmæla öðrum ljóðskáldum. Við þekkjum hann bara svo óskaplega vel á þessu heimili!

Í fjöldamörg ár var ekki lesin önnur bók fyrir háttinn en Óðhalaringla sem er stórskemmtileg vísna og ljóðabók. Óðhalaringla er samansafn af vísum og ljóðum úr þremur bókum Þórarins, ÓðflugaHalastjarna og Heimskringla. Bókin er uppfull af skemmtilegum vísum og ljóðum sem börn skilja upp að vissu marki. Þau þurfa kannski ekki að skilja allt alveg frá A-Ö því takturinn og bundna málið er dáleiðandi og skemmtilegt. Inn á milli leynast orðaleikir sem bara fullorðnir skilja og það gerir lesninguna ekki síður skemmtilega fyrir foreldrana sem sitja uppi með að lesa sömu bókina aftur og aftur og aftur, kvöld eftir kvöld. Við erum ekki enn orðin leið á Óðrihalaringlu (eða hvernig sem maður fallbeygir þetta).

Bókin er líka skemmtilega myndskreytt af Sigrúnu Eldjárn, systur Þórarins, sem hefur líka gefið út fjölda barnabóka. Það eru orðin ófá kvöldin þar sem við sitjum og hlæjum okkur máttlaus yfir einhverri vísunni eða einhverri skemmtilegri myndinni. Læt fylgja eina uppáhaldsvísu úr bókinni:

 

Brunahani á strigaskóm

Í haga vaxa blönduð blóm

og brunahani á strigaskóm.

Börnin elska glöð og fróm

brunahana á strigaskóm.

 

Bitinn var af billjón flóm

Brunahani á strigaskóm.

Beitti á flærnar bitrum klóm

brunahani á strigaskóm.

– Þórarinn Eldjárn

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....