„Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum, þar búa ekki framar neinar sorgir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg, þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“(Heimsljós)
Ég er stödd í ömmuogafahúsi, í sveitinni minni, snemma á níunda áratug síðustu aldar. Ég er átta eða níu ára, orðin læs og skrifandi og byrjuð að sanka að mér bókum, þó mest bókum um Árna í Hraunkoti og Lassie sem var í sérstaklega miklu uppáhaldi enda átti ég ekki hund en þráði ekkert heitar. Eldhúsborðið hjá ömmu er hlaðið kræsingum, kaffi og meððí eins og hún kallaði það, rjómapönnukökur og flatkökur með hangikjöti, rúsínujólakaka og brúnterta og svona gæti ég endalaust haldið áfram. Engu af þessu veiti ég þó athygli því í stólnum hennar ömmu í stofunni situr maður í ljósum jakkafötum með virðulegan hatt á hnénu og talar kunnuglegum rómi, rómi sem ég hef oft heyrt bæði í útvarpi og sjónvarpi. Mest finnst mér samt skrýtið að heyra afa ræða við þennan mann eins og ekkert sé, hann kallar hann Dóra og þeir karpa örlítið um hluti sem ég skil ekki þar til amma skerst í leikinn og býður meira kaffi. Alltaf er hægt að komast að niðurstöðu með bara aðeins meira af kaffi!
Halldór Laxness rís loks á fætur og segist ekki mega tefja lengur við, hann tekur hatt sinn og staf, býr sig undir að kveðja og þakka fyrir sig en rekur þá augun í þessa stelpu sem stendur þarna opinmynnt og stjörf. Hann klappar henni á kollinn og segir, „átt þú þessa hnátu Einar?“ En afi hlær, amma komin fast að sjötugu og barneignir þeirra vitaskuld löngu liðnar. Þeir rölta saman út í góða veðrið, amma býður mér köku á disk og ég borða í leiðslu, stundin er liðin hjá en andi mikilmennis svífur um stofuna í gervi framandi rakspírailms sem loðir við ömmustól. Ég sest í stólinn og finnst stofan hennar ömmu nafli alheimsins, nafli allra skálda. Samt hafði ég, barnið ekki hugmynd um hvað skáld væri. En mér fannst þetta ægilega merkilegt og afi þreyttist aldrei á að segja mér söguna af honum og Dóra í Laxnesi, þegar þeir voru litlir í Mosfellssveitinni. Þá sátu þeir yfir ánum og Dóri kenndi honum stíl eða stafsetningu eins við köllum þetta fyrirbæri núorðið. Á móti hjálpaði afi honum með ærnar því Dóri var myrkfælinn og sá skessur og forynjur í öllum stokkum og steinum. Og Dóri sagði afa sögur sem hann spann upp jafnóðum en eftir því sem þeir urðu eldri urðu sögurnar flóknari og stundum fannst afa eins og hann væri að hlusta á rígfullorðinn mann sem væri sér mikið eldri þó afi væri árinu hærri eins og hann tók til orða.
Svona hófust mín kynni af Halldóri í Laxnesi en þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég sá þetta mikla skáld í eigin persónu. Þrátt fyrir að þessi menn hafi þekkst og verið vinir sem börn voru engar bækur voru til hjá afa eftir þennan mikla mann. Og þó? Jú tvær fann ég seinna, eftir töluverða leit; Í túninu heima og Brekkukotsannál. Brekkukotsannáll var því fyrsta bókin sem ég las eftir Laxness en ég var þá komin á unglingsaldur. Merking bókarinnar fór fyrir ofan garð og neðan, sem og sú stórkostlega persóna Garðar Hólm sem svo í seinni tíð hefur æ ofan í æ minnt á sig í íslensku samfélagi. Ég verð að viðurkenna að bókin sem slík var mér torskilin en orðin og textinn sem slíkur þvílík opinberun að ég hélt áfram að lesa bækurnar hans og næsta bók sem varð fyrir valin var Íslandsklukkan. En þá varð ekki aftur snúið.
„Til eru úngar stúlkur sem gera alt jafn ótrygt í kríngum sig, loft, jörð og vatn.“ (Eydalín lögmaður, Íslandsklukkan).
Bækurnar hans Halldórs hafa fylgt mér frá því á unglingsárum, eins og fyrr sagði þá las ég fyrst Brekkukotsannál og síðan Íslandsklukkuna en svo las fleiri og hló og grét til skiptis. Smám saman öðlaðist ég meiri skilning á viðfangsefninu og las þessar bækur því allar aftur. Ég finn alltaf eitthvað nýtt og nýtt í bókunum hans og er enn að uppgötva þær rúmum þrjátíu árum síðar. Bjartur í Sumarhúsum er t.d alltaf að koma mér á óvart og ég get ekki ákveðið hvort Arnas Arnæus sé sjálfselskupúki eða hreinræktuð rola, já eða bara misskilinn snillingur. Jón Hreggviðsson hinsvegar er og verður alltaf töffari, hvernig sem á hann er litið.
Halldór var fæddur 23. apríl 1902 og í ár eru hundrað ár síðan fyrsta skáldsagan hans Barn náttúrunnar kom út. Af því tilefni verður efnt til alþjóðlegs þings í Veröld, húsi Vigdísar á sumardaginn fyrsta. Þar verða í fyrsta sinn veitt alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxnesss.
Umdeildur og umræddur var hann, allsstaðar. Fólk skiptist í tvær fylkingar, með og á móti, og hafði skoðanir á honum hvort sem það hafði lesið bækurnar hans eður ei. Og hefur enn. En staðreyndin er sú að hann var snillingur með tungumálið, nóbelsskáld og merkur maður. Og að mínu mati hefur ekkert íslenskt skáld komist með tærnar þar sem hann hafði hælana. Það má endalaust deila um boðskap, túlkun og þessháttar fyrirbæri. En er það ekki svo að túlkun endurspeglar oft þann tíma sem verkin eru lesin og þann sem les þau hverju sinni? Það þarf ekki annað en að lesa umfjallanir um verk Halldórs sem skrifuð eru samtíma verkunum til að sjá hvernig landið lá á þeim tíma. Þau voru túlkuð róttæk og glannaleg, hlutverk konunnar var þar oft tekið fyrir og honum hallmælt fyrir að gera konur beinlínis frekar og forhertar. Kvennabaráttan var þá í burðarliðnum, konur fengu ekki almennilega kosningarétt fyrr en 1915 og því hafa skrif Halldórs eflaust þótt glannaleg og ýta undir frekju kvenfólksins sem vildu ota sér framar í jafnréttisbaráttunni. Salka Valka var kjaftfor alþýðustúlka og ekki þótt vera góð fyrirmynd stúlkna á þessum tímum. Nú hinsvegar er allt annar póll tekinn í hæðina, bækur hans hafa verið taldar innihalda kvenfyrirlitningu og beinlínis sagðar tala niður til kvenna og þeirra sem minna mega sín.
Metoo byltingin bætir svo um betur og bendir á vafasaman undirtón t.d í bókum hans um Bjart í Sumarhúsum og svo Sölku Völku. Það sem áður þóttu róttæk skrif þykja núna íhaldsöm og það sem áður þótti ýta undir óráðshjal þeirra kvenna sem vildu meira jafnrétti sér til handa þykir núna bera vott um karlrembu og hroka í garð kvenna. Svona breytist tíðarandin og gagnrýnin með. Halldór skrifaði um veröld sem var á hans tíma og féll aldrei í þá gryfju að mínu mati að upphefja einhverja lágkúrulega hegðun sem eðlilega þó oft væri dæmi um slíka hegðun í bókunum hans. Kynferðisbrot Bjarts gegn Ástu Sóllilju í Sjálfstæðu fólki hefur oft verið tekið sem dæmi og veit ég um fólk sem sniðgengur þá bók vegna einmitt þessa atviks sem Halldór skrifar um en eins mikið og ég hef rýnt í þá bók og þann texta get ég ekki með nokkru móti séð Halldór taka afstöðu með eða réttlæta Bjart í þessu samhengi. En að ætlast til fordæmingar á slíkum voðaverkum á Íslandi fyrir seinna stríð, það finnst mér til of mikils ætlast miðað við þann tíðaranda sem ríkti þá. „Kona sem hrasar í barndómi þroskast ekki,“ segir Bjartur í Sumarhúsum á einum stað og einmitt þessi setning segir svo margt um tíðarandann í garð kvenna á Íslandi fyrir stríð.
„sat hann uppi, stundum alla nóttina, og skrifaði alt hvað af tók, einsog heimsendir gæti dunið yfir þegar minst varði, og alt væri undir því komið að geta skrifað nógu marga bókstafi áðuren sólin, túnglið og stjörnurnar yrðu þurkaðar út.“ (Heimsljós, Ólafur Kárason Ljósvíkingur).
Textinn í bókunum hans Halldórs er það sem alltaf hefur heillað mig mest. Hvernig hann raðar orðum saman, persónulýsingar og náttúrulýsingar, þetta er svo listilega gert að unun er að lesa. Suma kafla hef ég lesið aftur og aftur, upphátt og í hljóði, ein og svo með öðrum. Einnig er Halldór einstakt ljóðskáld og hefur þeim hluta á ferli hans ekki verið hampað nóg af mínu mati. Ekki veit ég til dæmis hvernig verkalýðsbaráttan okkar hefði litið út ef ekki hefðum við haft Maístjörnuna hvern einasta 1. maí. En í bókum Halldórs er uppáhaldskaflinn minn án efa sá kafli í fyrsta hluta Íslandsklukkunnar, þar sem Jón Hreggviðsson, eftir að hafa hrakist um Evrópu þvera og endilanga, nær loksins tali af Arnas Arnæus. Jón er með gullhring Snæfríðar Íslandssólar á litlu tánni og maður getur ímyndað sér svartskeggjaðan og skítugan sakamanninn, rífa af sér skófatnað og sokka til þess að tosa af tánni gullhringinn góða, gullhringinn sem hefur verið geymdur eins og sjáaldur augans. Jón stendur keikur frammi fyrir fræðimanninum mikla, bjargvætti sjálfs Íslands og loksins, loksins fær hann að koma þeim skilaboðum áleiðis sem Íslandssólin sjálf bað hann fyrir og lagði þar með líf sitt og heiður að veði. Því sakamanninn leysti hún í skjóli næturs og kom honum undan, hún sjálf, dóttir lögmannsins Eydalín og fyrirmynd allra kvenna í góðum siðum. Við ímyndum okkur kontór fræðimannsins Arnas Arnæus og skítugan sakamanninn berfættan á öðrum fæti, þar sem hann stendur með gullhringinn frammi fyrir fræðimanninum sem horfir fjarrænum augum á sakamanninn og spyr hvar hann hafi fengið þennan grip. Og þá og einmitt þá stoppa ég andadráttinn og les:
„Það ljósa man, sagði Jón Hreggviðsson, það ljósa man bað mig segja-
Þetta er nóg, sagði Arnas Arnæus og lagði hrínginn á borðið fyrir framan gestinn.
Það ljósa man bað mig segja -, endurtók gesturinn, en herra hússins tók frammí fyrir honum aftur:
Ekki fleira.“
Ég anda frá mér og garga inn í mér „leyfðu mannfjandanum að klára setninguna!“ Nákvæmlega svona er að lesa bækur Halldórs Laxness, eintómur rússibani út í gegn, hlátur og grátur, reiði og gleði. Engu orði er ofaukið og þegar bókin er búin leggur maður hana frá sér til þess eins að byrja upp á nýtt, seinna.
Halldór Kiljan Laxness er og verður alltaf mitt allra mesta uppáhald. Ég hitti hann einu sinni lítil stelpa og hann klappaði mér á kollinn.