Rauða gríman snýr aftur!

Það gladdi okkur mæðgin mikið þegar við rákum augun í að fjórða og nýjasta bókin um Rauðu grímuna var komin búðir, Handbók fyrir ofurhetjur – Vargarnir koma. Bækurnar um Lísu, ósköp venjulega stelpu sem kemst yfir handbók fyrir ofurhetjur, eru grípandi lesning fyrir alla krakka. Elias og Agnes Våhlund, höfundar bókanna, nýta sér myndasagnaformið til að koma til skila sögunni um Lísu og gera það vel.

Þriðja bókin endaði á því að bæjarstýru Rósahæða var rænt af Wolfgang, erkióvini Rauðu grímunnar og stórhættulegum hrotta. Wolfgang krefst lausnargjalds fyrir bæjarstýruna; ómetanlegs myntasafns og hann vill fá Rauðu grímuna sjálfa. Þetta veldur Lísu að sjálfsögðu nokkru hugarangri og þegar Max, einn af kvölurum hennar úr skólanum, kemst að því að hún er Rauða gríman verður allt örlítið erfiðara. Eða kannski auðveldara?

Bækurnar um Lísu slógu í gegn hjá krökkum á aldrinum 6-12 ára. Boðskapurinn í bókunum er svo ekki af verri tagi. Lísa hefur þurft að glíma við einelti í skólanum. Nokkuð sem nýfengnir ofurkraftar hennar hafa hjálpað henni að takast á við. Í fjórðu bókinni kemur þó babb í bátinn, þar sem Lísa þarf að fyrirgefa og vinna með kvölurum sínum. Þá þarf hún líka að takast á við óttann og gera hluti sem hana hefði aldrei órað fyrir að gera sjálfri. Skilaboðin eru þau að krakkar eigi að treysta sjálfum sér og hafa trú á eigin getu.

Sjö ára álitsgjafi Lestrarklefans kunni mjög vel við bókina, vildi alltaf lesa einn kafla í viðbót og gat ekki sofnað fyrr en síðasta blaðsíðan var lesin. Söguþráðurinn í hverri bók er knappur og einfaldur og hentar mjög vel þeim krökkum sem kannski eru hæglæs, en langar að lesa skemmtilega bók. Höfundum bókanna tekst að byggja upp spennu hægt en örugglega í hverri bók, þar til hápunktinum er náð í nokkrum köflum (sem gerir það mjög erfitt að hætta að lesa).

Þar sem bókin er ekki í myndasögubroti fær lesandinn það á tilfinninguna að hann hafi lesið þykka bók, þótt textinn í bókinni sé ekki endilega mikill. Myndirnar eru mikilvægur þáttur í þessum bókum. En stundum þarf nýr lesandi bara að upplifa það að hafa lesið heila bók, því sigurtilfinningin við að klára þykka bók getur verið mjög hvetjandi til frekari lesturs.

Við mæðginin mælum með bókunum um Lísu með ofurkraftana. Þær eru spennandi, hraðar og auðlesnar með fallegum teikningum.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...