Að viðhalda eigin lestri með barn

4. apríl 2025

lestur með ungabarni

Þökk sé umdeilda lestrarsamfélagsmiðlinum Goodreads veit ég nákvæmlega hvað ég hef lesið mikið af bókum frá því að dóttir mín fæddist fyrir rétt rúmum þremur árum síðan. Ég verð að viðurkenna að ég er bara nokkuð ánægð með þá staðreynd að ég hef náð að halda fyrri dampi í lestri og lesið að jafnaði um eina bók á viku síðan líf mitt breyttist til frambúðar. Ég er ekki ein í þessu, við sem skrifum fyrir Lestrarklefann eigum börn en höfum forgangsraðað lestri því hann er okkur hjartans mál!

Að leggja grunninn snemma

Ég vissi ekki hverju ég ætti von á þegar ég yrði móðir og frítími minn myndi skerðast talsvert. Nú þegar ég er að sjá fram á annað fæðingarorlof á allra næsta leyti, og í kjölfarið enn skertari frítíma sem hluti af kjarnafjölskyldu, langaði mig því að miðla reynslu minni af því að viðhalda lestri þó man eigi barn (með eitt barn á heimilinu). Vonin með þessum pistli er að peppa sjálfa mig og aðra til að viðhalda þessu mikilvæga áhugamáli sem hluti af sjálfsumhyggju í krefjandi umhverfi barnauppeldistímabilsins.

Í síðasta fæðingarorlofi skrifaði ég pistil með ráðleggingum um tíu leiðir til að lesa í fæðingarorlofi. Ég ætla því ekki að fara í miklar málalengingar hér varðandi lestur í orlofinu sjálfu. Ég ákvað einfaldlega að setja mér það markmið að ef aðstæður myndu leyfa að lesa meira í orlofinu en horfa á sjónvarp, og það tókst að mestu leyti. Ég tek skýrt fram að lestur er ekki enn eitt sem að á að fá samviskubit yfir að hafa ekki sinnt í fæðingarorlofi, það er alveg nóg að passa upp á krílið sitt og sjálfan sig! Jafnframt ef ekki tekst að lesa neitt í fæðingarorlofi er engin ástæða til að halda að það sé of seint að fara að sinna lestrinum þegar orlofinu lýkur.

Bókin fram yfir snjallsímann

Eitt helsta ráð mitt til að auka lestur meðfram barnauppeldi er að venja sig á að grípa í bók frekar en í símann. Ég vandi mig á það í fæðingarorlofinu að vera minna í símanum á meðan ég var að sinna dóttur minni. Þetta er svo sannarlega hægara sagt en gert, símarnir eru bókstaflega hannaðir til að vera ávanabindandi en ég náði að draga eitthvað úr símanotkun. Um helgar höfum við litla fjölskyldan vanið okkur á rólega morgna frá byrjun þar sem við foreldrarnir erum gjarnan bæði með bók við hönd og sú stutta er að leika sér með dótið sitt. Við sinnum henni að sjálfsögðu eins og þarf en mín reynsla er sú að við erum meira til staðar með bækur í höndunum en síma og dóttir okkar hefur orðið mjög dugleg í að dunda sér vegna þess að við höfum gefið henni rými til þess. Ég tek fram að hvert barn er ólíkt og við höfum verið mjög heppin með hvað okkar barn hefur fjörugt ímyndunarafl og hefur verið dugleg að leika sér ein. Líkt og flestir vita hafa börn mikinn áhuga á að apa eftir foreldrum sínum þannig að ákveðinn bónus við þennan fókus á lestur á heimilinu er að hún sjálf hefur mikinn áhuga á bókum og hefur beðið um bækur og að lesið sé fyrir hana frá mjög ungum aldri.

Grípa í bók í biðtíma og á bókasöfnum

Tengt fyrri málsgrein má einnig mæla með að fólk grípi í bók í stað síma meðan beðið er eftir einhverju og næði er fyrir lestur, t.d. meðan beðið er eftir tannlæknatíma, læknatíma, strætó, jafnvel bara í röðinni í matvörubúðinni (má það ekki annars?). Það er fullt af svona „dauðum tíma“ í okkar hversdegi sem mætti nýta betur til lesturs til dæmis. Mörg börn hafa gaman af því að fara á bókasöfn og þar eru gjarnan leikhorn. Þar er um að gera að grípa tækifærið og glugga í bók á meðan barnið eða börnin leika sér.

Sæunn les í suður Ameríku

Fækkið sjónvarpsþáttunum  

Ef vel gengur að koma börnum í rúmið á kvöldin gefst oft smá gluggi til að sinna sjálfum sér. Þessi gluggi fer því miður oft í símaskroll eða sjónvarpsgláp. En þó að það sé allt í góðu að hanga yfir sjónvarpinu á kvöldinu ráðlegg ég foreldrum sem vilja viðhalda lestrinum að skammta sér, taka til dæmis bara einn þátt af seríu í stað tveggja og nýta þessar fjörutíu mínútur sem hefðu farið í gláp til að lesa góða bók uppi í rúmi. Áhrifin eru tvöföld, bæði eykst lestur og oft slakar maður betur á og á auðveldara með að sofna eftir lestur upp í rúmi.

Að fá lestrarfrí 

Þetta er ráð mitt sérstaklega til þeirra sem eiga maka og geta því skipst á að vera með barnið eða börnin. Ekki skemmir fyrir ef makinn er einnig lestrarhestur. En einnig má nýta pössunartíma hjá ömmum og öfum eða öðrum aðstandendum til að sinna lestrinum. Við eiginmaðurinn erum bæði mjög dugleg að biðja hvort annað um lestrarfrí, og fá 30-60 mínútur óáreitt til að lesa um helgar, þetta er hægt að taka út í lokaðri stofu, í baðkarinu eða jafnvel á kaffihúsi yfir góðum bolla. Mér finnst ég oft endurnærð eftir svona lestrarfrí þó ekki lengra sé. Einu sinni fór ég þó alla leið til Suður-Ameríku til að fá lestrarfrí frá barni (vissulega þó með barn númer tvö í maganum)!

Bóka hótel til að lesa

Ef ekkert annað gengur upp þá er eina ráðið að fá barnapössun og skella sér beint á hótel til að lesa, er nokkuð önnur ástæða til að fara á hótel?

 

Lestu þetta næst

Sniðugar árstíðarverur

Sniðugar árstíðarverur

Þessi bók er tileinkuð öllum þeim börnum sem alast upp við íslenskt veðurfar. Ég held að...

Í dótaheimi

Í dótaheimi

Fyrir mörgum árum síðan, í fyrndinni, las ég sjálf ljóð Þórarins Eldjárns. Þegar ég eignaðist mín...

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...