Bækurnar sem kveiktu lestraráhugann

Fyrstu skólaárin hafði ég lítinn áhuga á að lesa og gekk oft illa í lestrarprófum. Kannski var það út af stressinu sem fylgdi því að vita að kennarinn tók tímann og strikaði undir orðin sem ég las vitlaust af blaðinu. Þetta gerði það allavega að verkum að ég taldi mig vera lélega í lestri og ég fór að forðast það að lesa bækur.

En einn daginn settist ég niður á bókasafninu í skólanum og las bók sem var ekki hluti af heimanáminu. Nú man ég reyndar ekki hvaða bók þetta var en hún fjallaði um álfa og galdra. Ég gleymdi mér algerlega í ævintýraheiminum og áður en ég vissi af hafði ég klárað bókina. Eftir sat sú tilfinning að ég hefði verið hluti af einhverju dýrmætu. Þessi upplifun er einmitt ein af ástæðunum fyrir því að ævintýra- og furðusögur (eða fantasíur) eru uppáhalds bækurnar mínar.

 

Æsispennandi bókmenntir

Uppgangur furðusagnabókmennta hefur verið talsverður á undanförnum árum og vinsældir þeirra hafa farið vaxandi. Sífellt fleiri þáttaseríur og bíómyndir eru gerðar eftir þekktum furðusagnabókum og má til dæmis nefna Game of Thrones, Witcher, His Dark Marterials og Lord of the Rings. Þá er það spurningin, hvað er það sem gerir furðusögur svona vinsælar? Það er eflaust hægt að telja upp margar ástæður en ein er sú að þær veita smá pásu frá hversdagsleikanum. Ég á auðveldara með að koma mér að því að þrífa íbúðina ef ég er að hlusta á góða hljóðbók og ég brýt þvottinn helmingi hraðar saman þegar eitthvað æsispennandi er að gerast.

 

Ímyndunaraflið tekur völdin

Furðusögur og ævintýri kveiktu lestraráhugann hjá mér og gerðu það að verkum að mig dreymdi um að verða rithöfundur. Bækurnar um Harry Potter, Eragon, Stravaganza bókaflokkurinn, Ávítarabækurnar og Narníubækurnar voru í miklu uppáhaldi hjá mér enda gerast þær í fjarlægum heimum og kynjaverur eða töfrar koma við sögu. Það þarf mikið ímyndunarafl og sköpunarkraft til að skrifa um hluti sem eru ekki hluti af okkar raunveruleika. Það að skapa töfrandi heima þar sem önnur lögmál gilda krefst þess að höfundur hugsi út fyrir kassann og þori að skrifa um hið ómögulega. Svo er það undir lesandanum komið að búa til sína eigin útgáfu af því sem höfundurinn hefur skapað með orðum. Mér finnst alveg frábært þegar við vinkonurnar spjöllum saman um bíómyndir eða þáttaseríur sem hafa verið gerðar eftir bókum sem við höfum lesið og í ljós kemur að við ímynduðum okkur hlutina á allt öðruvísi hátt!

Stravaganza bækurnar verðskulda meiri athygli.

Yndisleg pása frá daglegu amstri

Um jólin gaf ég litlu frændsystkinum mínum bækur í jólagjöf og horfði á þau knúsa bækurnar skælbrosandi þegar þær komu upp úr pökkunum. Eftirvæntingin leyndi sér ekki og ég mundi sjálf eftir tilhlökkuninni sem ég fann á þeirra aldri. Sú tilhlökkun gangvart bókum hefur fylgt mér inn í fullorðinsárin og ég verð alltaf jafn spennt í hvert skipti sem ég fæ ævintýrabók í hendurnar. Stundum er svo freistandi að ýta á undan sér skyldum eða verkefnum. Þegar ég var í menntaskóla stalst ég oftar en ekki til að lesa í staðinn fyrir að læra fyrir stærðfræðipróf og las langt fram eftir þótt ég þyrfti að vakna snemma. Mér finnst samt ekki sanngjarnt að tala um hversdagsleikann einungis í neikvæðu ljósi. Ef hversdagsleiki okkar væri að berjast við dreka eða flýja frá illum öflum hugsa ég að raunveruleiki þar sem maður þyrfti að versla í matinn og gera skattaskýrslu væri kærkomin tilbreyting. En furðusögur geta svo sannarlega verið yndisleg pása frá daglegu amstri og þegar lífið reynist mér flókið eða erfitt leita ég á vit ævintýranna, annað hvort með því að lesa eða skrifa um þau. Bækur gera lífið einfaldlega betra.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...