Lítill gluggi inn í margslungin líf

Friðrik Snær Friðriksson hannaði þessa smekklegu kápu

Ekki oft eru gefnar út bækur hér á landi sem innihalda örsögur, hvað þá þýddar örsögur. Í janúar kom þó út örsagnasafnið Árstíðir eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur og nýlega gaf Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur út safn örsagna suður-amerískra höfunda sem ber heitið, við kvikuna. Skemmtilegt er að sjá örsögurnar taka sér svolítið pláss á borðum bókabúðanna.

Bókaútgáfan Dimma gaf nýverið út tvö þýdd örsagnasöfn en ég mun fjalla um annað þeirra, bókina 43 smámunir eftir Katrinu Ottarsdóttur. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson sem stendur á bakvið Dimmu, þýddi. Safnið er töluvert einstakt þar sem það inniheldur 43 örsögur sem eru allar nákvæmlega 301 orð.

Katrin Ottarsdóttir er færeyskur kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur sem vann meðal annars Færeysku bókmenntaverðlaunin fyrir fyrstu ljóðabókina sína, Eru koparror í himmiríki (2012). Dimma hefur nýlega komið sér fyrir við Óðinsgötu 7 í miðbæ Reykjavíkur. Þar geta áhugasamir keypt bækur útgáfunnar í snoturri verslun.

Fjölbreyttar sögur

Það er svolítið erfitt að gera örsagnasafni góð skil en sögurnar eiga það sameiginlegt að vera fjölbreyttar og fjalla um hugarheim einnar persónu í hvert sinn. Oft er sögumaðurinn barn en barnæskan er oft sveipuð dulúð, og undarlegum upplifunum, og er því athyglisverður efniviður. Þrjár sögur fjalla um stelpur sem brjóta af sér smávægilega, ein stelur brjóstsykri úr búð, önnur eyðir afgangi í nammi og sú þriðja stelur tveimur brjóstsykurspokum sem hún borðar aldrei. Í öllum sögunum skammast þær sín svo svakalega að þær geta ekki notið góssins. Þessa sögu hef ég lesið oft áður en þetta er greinilega sammannleg tilfinning, að eldskírast við að brjóta traust foreldra sinna í fyrsta skipti. Ég set þó spurningarmerki við að þrjár sögur fjalli í grunninn um það sama í svo stuttu örsagnasafni.

Að lesa á milli línanna

Það er flott hvernig Katrinu tekst að segja svo margt án þess að segja neitt hreint út, eins og í sögunni „Hálstöflur“: „Þegar þau fara í feluleik er auðvelt að hlaupa inn eftir fleiri hálstöflum. Mamma hennar lætur hana alltaf fá heilt apótek í töskuna svo hún gæti læknað sig sjálf.“ (bls. 37) Hér komumst við að svo mörgu um samband móður og dóttur, móðirin er fjarlæg og sinnir dótturinni ekki, hún á að sjá um sig sjálf. Stúlkan finnur svipaðar töflur heima hjá frænku sinni og tekur nokkrar, líklega verkjatöflur. Í lok sögunnar er hún í vímu og leitar eftir nánd hjá dreng sem hún er hrifin af. „Allt er gott. Lyktin af honum er svo góð. Mamma hefur rétt fyrir sér, töflurnar slá á allt það slæma. Hún getur gefið eftir, látið til leiðast, því nú er hann hjá henni.“ (bls. 38) Þarna er líka hægt að draga þá ályktun að móðirin þjáist af andlegum veikindum og hefur talað við dóttur sína um virkni róandi lyfja. Í sögunum þarf lesandinn að lesa oft á milli línanna til að ná merkingu sagnanna.

Samfélagsmiðlar og -ádeila

Margar sögurnar vekja óhugnað og eru jafnvel gróteskar. Í þeim felst oft ákveðin samfélagsádeila en nokkrar sögur fjalla um læk- og samfélagsmiðlaþráhyggju nútímafólks. Í einni er það kona sem gerir allt til að safna lækum: „Þegar lækunum fækkaði varð hún ennþá hreinskilnari, sýndi sig með timburmenn og blóðugar skrámur eftir mislukkuð stefnumót, deildi blóðkekkjunum í klósettskálinni þegar hún byrjaði loksins á túr.“ (bls. 53)

Í annarri er það móðir sem sem tekur stöðugt myndir af barninu sínu til að fá læk á samfélagsmiðlum, faðirinn er jafn fjarlægur bakvið tölvuskjá. Barnið þekkir ekki andlit foreldra sinna þar sem þau eru ávallt falin á bakvið skjá. Litli drengurinn endar með því að taka málin í sínar hendur og klekkir svo sannarlega á móður sinni með því að deila mynd af foreldrum sínum í miðjum ástarlotum.

Sú þriðja sem ég vil nefna heitir „Takeaway“ og er frekar hrottaleg. Í henni er móðir að ákveða hvað hún eigi að panta í matinn og labbar yfir götu með syni sínum. „Hún hvæsir á takeaway-konuna í símanum að hún geti ekki flýtt sér meira. Hún gengur út á götuna. Bíll flautar. Hún glápir á símann sinn á meðan fleiri bílar keyra yfir hann. Hvað eiga þau nú að borða í kvöld?“ (bls. 84) Katrin beitir kaldhæðni og óhugnaði til að deila á nútíma tæknisamfélagið.

Metnaðarfullt örsagnasafn

43 smámunir er einstaklega fjölbreyttur og hressandi lestur. Sögurnar eru sumar ljóðrænar, aðrar raunsæjar og allflestar eru með sitt einstaka andrúmsloft. Það er í raun ótrúlegt hvað Katrinu tekst vel til að skapa heilan söguheim og þrívíðar persónur í svo fáum orðum. Það voru nokkrar sögur inni á milli sem ég tengdi ekki jafn mikið við og fannst ekki nógu vel heppnaðar en þær voru undantekningin. Það voru einnig þessi endurteknu þemu sem ég hefði viljað sjá unnin örlítið betur, eins og með nammiþjófnaðinn í þremur heilum sögum. Yfir heildina litið er þetta mjög metnaðarfullt og vel skrifað örsagnasafn. Oft eru lesendur hræddir við að kaupa örsagnasöfn en ég mæli svo sannarlega með því að dýfa sér ofan í eitt. Hver saga er nefnilega lítill gluggi inn í margslungin líf allskyns persóna. Þegar best tekst til vekja örsögur upp miklar tilfinningar og lestrargleði.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...