„Örsagan er heillandi form“

Nú er nýtt ár gengið í garð og bókaútgáfa heldur áfram að blómstra og færa okkur nýja og spennandi höfunda. Nú í janúar kemur út bókin Árstíðir eftir Karítas Hrundar Pálsdóttur hjá Unu útgáfuhúsi. Bókin inniheldur hvorki meira né minna en hundrað og eina sögu sem ætlaðar eru þeim sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Bókin er fyrst sinnar tegundar á íslensku og hægt verður að nýta hana við kennslu. Sögurnar hafa mismunandi erfiðleikastig og eru flokkaðar samkvæmt því. Lestrarklefinn vildi endilega heyra meira frá Karítas sjálfri um innblásturinn, sögurnar og ritferlið.

Í stuttum og aðgengilegum frásögnum er brugðið upp allskyns hliðum á íslenskum hversdagsleika. Sögupersónur læra nýja hluti, rækta vináttu, takast á við áskoranir og upplifa bæði gleði og sorg. Sögurnar varpa ljósi á margbreytileika mannlífsins og veita innsýn í gang árstíðanna í landi ljóss og myrkurs.

Var markmiðið þitt alltaf að sögurnar yrðu fyrir lesendur sem tala íslensku sem annað mál?

Sögurnar voru frá upphafi skrifaðar með þessa ákveðnu lesendur í huga. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á tungumálum og búið í lengri og skemmri tíma erlendis. Í mínu tungumálanámi hefur mér reynst gagnlegt að vera dugleg að lesa sögur á réttu getustigi á nýju málunum. Þegar ég svo kom að kennslu íslensku sem annars máls fann ég að það var þörf fyrir að til væru fleiri slíkar sögur á íslensku. Ég ákvað því að skrifa safn stuttra, skáldaðra frásagna fyrir þá sem eru að læra íslensku sem annað mál. 

Hvað heillar þig við örsagnaformið? Eða myndir þú flokka sögurnar á annan hátt? 

Örsagan er heillandi form af því að hún reynir að fanga eitthvað ákveðið augnablik. Ég taldi formið henta verkinu vel þar sem það er gott að lesa stuttar og hnitmiðaðar sögur þegar maður er að læra nýtt tungumál. Ég segi samt ekki að það hafi alltaf verið auðvelt. Það gat stundum verið krefjandi að hafa það að markmiði að skrifa áhugaverðar sögur á stuttu og skýru máli. Þetta var því oft svolítil formtilraun hjá mér við skrifin.

Karítas er með meistaragráðu í ritlist frá Háskóla Íslands.

Hvert sóttirðu innblástur fyrir allar þessar sögur?

Ég skrifaði sögurnar yfir tveggja ára tímabil. Það var gott að hafa þann tíma til að viða að sér hugmyndum fyrir þessar rúmlega hundrað sögur. Ég sótti innblástur víða. Ég hafði meðal annars í huga gildi sem eru almennt viðurkennd á Íslandi. Sögurnar endurspegla til dæmis jafnrétti kynjanna og virðingu fyrir ólíkri kynhneigð fólks. Mig langaði til að sögurnar gætu aukið menningarlæsi og kynnt útlendingum fyrir gildum, viðhorfum og menningu á Íslandi. En sögurnar eru eins mismunandi og þær eru margar. Sumar eru fyndnar og með einskonar „punch line“ en aðrar eru allt frá því að vera sorglegar, spennandi eða bara um daglegt líf.

Hvernig var ritferlið, frá fyrstu hugmynd til útgáfu?

Þegar ég hóf meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands ákvað ég að gera þetta að lokaverkefni mínu og fékk þær Maríu Önnu Garðarsdóttur og Sigríði D. Þorvaldsdóttur, sem sérhæfa sig í annarsmálsfræði og kennslu íslensku sem annars máls, sem leiðbeinendur. Ég byrjaði á að lesa fræðigreinar og kennslubækur til að fá góða tilfinningu fyrir getustiginu en sögurnar eru allar á getustigi A2 til B1 samkvæmt Evrópurammanum. Svo kom að því að ég lagði fræðin til hliðar og fór að skapa. Síðan endurskrifaði ég sögurnar með frekara tilliti til getustigs. Ég reyndi að gæta þess að söguþráðurinn væri hnitmiðaður og orðaforðinn, setningagerðin og málfræðin í samræmi við getustigið. Margir samnemendur og vinir lásu sögurnar yfir fyrir mig áður en kom að útgáfuferlinu sjálfu. Ég naut svo góðrar ritstjórnar hjá Unu útgáfuhúsi.

Nú er þema Lestrarklefans í janúar loftlagsbókmenntir. Kemur þú eitthvað inn á loftlagsvána í sögunum þínum?

Ég hefði viljað gera meira af því en get þó nefnt tvær sögur sem koma inn á loftlagsvandann, sögurnar „Afturhvarf“ og „Innfluttir ávextir“.

 

Útgáfuhóf Árstíða verður haldið fimmtudaginn 9. janúar í Sigtúni 51 og hefst klukkan 20. Meira um það hér.

 

 

Lestu þetta næst

Smáar sögur, stór orð

Smáar sögur, stór orð

Smásagan: skáldverk sem hægt er að lesa í einum rykk, við einn kaffibolla, í einni strætóferð, á...

Nútíma Agatha Christie

Nútíma Agatha Christie

Gestalistinn eftir breska spennusagnahöfundinn Lucy Foley kom út í íslenskri þýðingu í apríl 2022....