Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson kom út árið 2009 hjá Sögum útgáfu. 

Það sem greip í mig og færði mig að því að lesa þessa tilteknu bók var ekki sú staðreynd að höfundurinn hefur nýlega fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir nýjustu bók sína, Selta (2019), heldur var það fremur titillinn sem lét mig staldra við. Síðustu dagar móður minnar. Bókin hlyti að hafa eitthvað virkilega fallegt að geyma. 

Tilgangsleysi alls

Sagan fjallar um Dáta, fremur lufsulegan og klisjukenndan 37 ára einhleypan karl sem á erfitt uppdráttar í ástarlífinu. Hann ákveður að ferðast með móður sinni til Hollands á einhvers konar meðferðar- eða sjúkraheimili í þeirri veiku von að reyna að lækna hana af ólæknandi krabbameini. Móðir hans, þrátt fyrir að vita af tilætlun ferðarinnar og af öllum peningunum sem búið er að spandera í meðferðina, virðist þó telja að tilgangur ferðarinnar sé frekar einhvers konar djammreisa. Eða mögulega veit hún að örlögum sínum verður ekki haggað og ætlar sér að njóta síðustu dagana rækilega. Sagan ferðast einhvern veginn frá einum drykk til annars, frá misheppnuðum samskiptum Dáta og hvatvísum ákvörðunum móður hans. Öll atburðarrás er sveipuð góðum og sterkum kokteil eða “spesdrykk” eins og þau mæðgin vilja kalla þá. Þannig fara þau milli bara og veitingastaða og drekka spesdrykk eða ‘’lævseiver’’ á víxl og hitta alls kyns ólíkar og litríkar persónur. Mér persónulega líkar vel við sögur sem ferðast um djammið í ákveðnu tilgangsleysi eins og þessi saga gerir. Tilgangsleysið virðist vera þema í þessari sögu, kannski á ferð mæðginanna að vera eins og lífið. Sveipað algjöru tilgangsleysi og firru í bland við spesdrykki og misskilinn samtöl. Og alltaf er sama endastöðin. Ferðalaginu verður að ljúka einhvern tímann.

Ó, þú dásamlega klisja

Sagan er kannski smá, eða jafnvel mjög, klisjukennd með eldri móður sem er einum of hreinskilin og stjórnar syni sínum ákveðinni hendi og sonurinn svona týpa sem virðist nánast vonlaus með öllu. Mér líkar samt við klisjur. Þær virka og þær eru skemmtilegar. Ég ætla mér að standa við þessa skoðun, svona að mestu leyti. Auðvitað verður klisjan að vera annað hvort vel gerð eða hafa annan tilgang. Annars virkar hún ekki. Sagan er allavega lifandi og hver persóna hefur mjög einstaka rödd. Ég hafði í raun búist við því að gráta meira en hlæja við lesturinn. 

Litríkar persónur

Þegar líður á verður hún þó eilítið langdregin. Ekkert virðist vera í þróun. Allt er við það sama. Jú, vesalings Dáti sér  eitthvað að sér og léttist um nokkur kíló, hættir að drekka í smá tíma. Fer síðan aftur að drekka. Reynir að finna maka fyrir sig og móður sína og misheppnast hrapalega. Í raun… því meira sem ég hugsa um það þá hlýtur Sölvi að hafa ætlað þessari sögu að endurspegla lífshlaupið sjálft. Ferðalagið sem við öll erum stödd í núna. Sorglega fullt af engu. Brostnum væntingum og vonum. Meðvirkni og tilætlunarsemi. Endanleikinn eða dauðinn sífellt nálægur. Lævseiverinn, óræður drykkur sem móðirin Eva Briem ferðast með virðist einmitt þjóna nákvæmlega þeim tilgangi, að bjarga lífi. Eða réttara sagt, hann afvegaleiðir og dregur áhyggjurnar í burtu frá endalokunum. Ég veit ekki með þann boðskap, en ætla halda í þá vissu mína að þessi drykkjartitill hljóti að hafa sérstaka merkingu í sögunni. Þetta er kannski einum of svartsýnt hjá mér, enda sýnir sagan okkur ekki bara almennan leiða lífsins heldur líka hversu skemmtilegt það getur verið. Fullt af óvæntum uppákomum og skemmtilega skrítnu fólki.

Húmor og galsi

Sagan hefur einnig að geyma vangaveltur um dauðann og þá sérstaklega um frelsið til að deyja, eða réttara sagt frelsið til að velja sinn eigin dauðdaga. Vangaveltur sem eru oft og tíðum áhugaverðar, en samt sem áður sveipaðar einhvers konar léttleika. Það er húmor og galsi í textanum og hann hefur að geyma margar mjög vel mótaðar setningar. Á stundum eru þær samt svo margar fullkomnar í röð að það verður þreytt að lesa svona vandlega ortan texta. Ferðalagið og djammið fer síðan að verða hversdagslegt enda dvelja  þau þarna lengur en þau áætluðu í upphafi. Lífið getur víst ekki bara verið eintóm veisluhöld. En það er þó hægt að stýra því í þá átt sem maður vill.

 

Í heildina er Síðustu dagar móður minnar mjög skemmtileg lesning, fyndin á köflum, grátbrosleg jafnvel. Tímabilið sem sagan var skrifuð á er mjög greinileg út frá bankakörlunum sem poppa reglulega upp í huga og í lífi Dáta. Þeir, eins og margt annað sem kemur við sögu, þjóna þó engu sérstöku hlutverki í sögunni nema til að krydda hana með fleiri ólíkum persónum. Lita upp líf.  Á sama tíma verður sagan hálf langdregin þegar á líður og heimspeki vangaveltur hennar mættu vera sterkari. Persónusköpunin og samtölin halda uppi sögunni.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...