Amma Engill
Eftir Sigríði Örnólfsdóttur
Amma var orðin gömul og líkaminn hennar lasinn. Hún gat ekki lengur gert jafn margt og áður. Eins og að fara í göngutúr í góðu veðri af því henni var svo illt í fótunum. Svo einn góðan veðurdag dó hún bara. Áður var hún búin að segja öllum börnunum sem hún þekkti að hún hlakkaði svo mikið til að deyja. Þá gæti hún gert svo margt skemmtilegt. Kannski rennt sér niður litríka regnboga eða farið í sólbað á dúnmjúku hvítu skýji. Hún gæti svifið um og kysst lítil börn á kinnina þegar þau sofa og það er svo gott að þau brosa. Hún yrði með geislasverð og ef hún sæi hrekkjusvín sendi hún geisla beint í rassinn á þeim sem detta og fara að grenja. Bara útaf smá marblett á rassinum. Á augabragði gæti hún ferðast langar leiðir hvert sem er í heiminum og getur gert ýmislegt sniðugt. Það sem gleður ömmu mest eru manneskjur sem elska líf og ljós og sýna það með því sem þau gera. Eins og til dæmis litill strakur sem finnst ormar svo skemmtilegir að hann gefur ömmu nokkra til að gleðja hana. Það er fullt, fullt hægt að gera gott og fallegt. Þannig fólk geislar og eignast fallega sál.
Þeir sem ná því að verða englar líður vel og kunna að gleðjast. Englar elska allt sem er fallegt í alheimi. Englaömmur,afar og englabörn já allt englafólk dansar af gleði. Þau syngja með í alheimssinfoníjunni með fuglunum. Já öllum dýrunum náttúruhljóðunum og lifandi fólki sem elskar tónlist. Meira að segja prump telst með.
Það eru margir sem vilja ekki tala um dauðann. Kannski er fólkið feimið við að segja öðrum hvaða hugmyndir þau hafa og það er bara í fínu lagi. Amma sagði að það væri ekkert mál að deyja. Blúbb, sálin fer úr líkamanum okkar eins og fara úr fötum. Við flest sjáum ekki dána fólkið en dáið fólk er komið í sállíkama sem finnur ekki til og getur sprellað eins og hann vill. En það þýðir ekki að sállíkaminn megi skipta sér af fólkinu sem er lifandi. Það eiga allir sitt líf sjálfir. Engum heilvita engli dytti í hug svoleiðis frekja. En það er allt í lagi að hjálpa fólki sem á bágt. Auðvitað eigum við að passa vel lífið okkar sem er dýrmæt gjöf og gæta þess að setja okkur ekki i lífshættu. Og það er sem betur fer til margt lifandi fólk sem eru englar. Amma trúir þessu og það er bara hennar mál. Allir trúa einhverju það er nærri óteljandi mismunandi. Ömmu finnst skipta mestu máli að hverjum og einum líði vel í sálinni sinni með trúna sína. Eitt er búið að sanna. Við fæðumst öll og eigum misjafnlega langt líf og allir deyja einhverntíma. Best af öllu sagði amma er að elska sjálfan sig af öllu hjarta þá getur maður elskað allt annað. Amma nennti ekki að tala um af hverju hún tryði þessu geispaði og sagði af því bara.
[hr gap=“30″]
Um höfundinn og söguna:
Mér ömmunni og leikskólakennaranum var hugsað til margra þegar þessi saga varð til. Ömmur og afar og reyndar fleiri sálna sem eru dáin. Hugmyndir frá þeim sem rímuðu svo vel við mínar voru oft tilefni skemmtilegra samræðna. Svo eru margir enn á lífi sem gaman er að ræða við um lífið og tilveruna en dauðinn er aðeins hluti af því. Börn byrja mjög ung að velta fyrir sér dauðanum.
Það birtist oft í leik, teikningum og svo kannski segja þau eitthvað. Þegar fullorðnir bregðast við slíku er það mikil ábyrð og þarf umhugsunar við. Ég persónulega varð vitni að því að ungt barn sagðist ekki vilja lifa lengur og langaði til að deyja. Við umönnunaraðilar verðum að mínu viti að hafa það í huga að hugarheimur barnsins og hugmyndir gætu verið gjörólíkar okkar. Hugmyndir eru einstaklingsbundnar og skynjun og upplifanir einnig. Barnið sem vitnað var í varð fyrir að brotið var kynferðislega á því. Enginn vissi af því þegar barnið tjáði sig á þennan hátt. Munum að orð eru álög sem við getum lagt á börnin okkar fyrir lífstíð.