Geimveran
Eftir Katrínu Lilju Jónsdóttur
„Hvað í…“ tautaði Elías við sjálfan sig á meðan hann prófaði að stinga símanum aftur í samband. Hann vildi ekki hlaða sig og batteríið var næstum alveg tómt. Af einhverri ástæðu hafði síminn ekkert hlaðið sig um nóttina svo Elías hafði tekið hann með sér í skólann næstum tóman, jafnvel þótt það mætti ekki. Í sannleika sagt tók Elías alltaf símann með sér og laumaðist til að horfa á YouTube í frímínútum með vinum sínum.
Elías juggaði hleðslusnúrunni í tækinu. Neibb, ekkert að frétta, síminn gaf ekki til kynna að hann væri í hleðslu.
„Whaaaaaat…?“ sagði Elías upp úr hálfu hljóði. Síminn var pottþétt bilaður sem var mjög óheppilegt. Á venjulegum degi væri Elías kominn langt inn í fyrsta YouTube myndbandið á þessum tíma. Flestir vinir hans æfðu íþróttir eftir skóla eða fóru í tónlistarskólann. Ekki Elías. Hann hafði náð að sannfæra foreldra sína um að honum liði of illa til að geta stundað íþróttir. Í staðinn fékk hann að vera aleinn heima til fimm á daginn, þegar foreldrar hans komu heim. Íþróttir væru bara ekki hans sterka hlið, hafði hann sagt þeim. Hann streyttist nógu mikið á móti þannig að þau gáfust upp á að koma honum á æfingar. Annars var hann búinn að æfa fótbolta, badminton, handbolta, fimleika og golf. Honum fannst þetta allt fáránlega leiðinlegt. Það eina sem veitti honum ró og gleði var síminn og tölvuleikirnir. Sem minnti hann á það!
Hann fór niður í stofu og kveikti á sjónvarpinu. Eða réttara sagt, hann ætlaði að kveikja á sjónvarpinu en það eina sem gerðist er að það blikkaði snöggt og svo ekkert meira.
„Oooohh nei!“ Elías féll á kné fyrir framan sjónvarpið og fórnaði höndum eins og hann væri að ákalla guð sinn í örvæntingu. Sjónvarpið hafði verið á síðustu metrunum í mjög langan tíma. Það hafði bara verið tímaspursmál hvenær það myndi gefa upp öndina. Auðvitað þurfti sá dagur að vera í dag! Hann fleygði fjarstýringunni í sófann og hún skoppaði upp aftur og datt á gólfið. Batteríin duttu úr henni og rúlluðu undir sófann.
„Demitt…“ tautaði Elías við sjálfan sig og fór niður á fjórar fætur, með hnút í maganum yfir því að þurfa núna að finna upp á einhverju öðru að gera en að leika sér í tölvunni eða horfa á YouTube.
Undir sófanum var fullt af rykhnoðrum. Hann var eiginlega alveg viss um að mamma hans hafði ekki ryksugað þarna undir í marga mánuði. Hann blés létt á rykhnoðrana í þeirri von að sjá glitta í batteríin. Og jú, þarna glampaði á eitthvað sem leit út eins og… hvað? Hann pírði augun á móti myrkrinu. Voru þetta batteríin? Nei, klárlega ekki. Þetta hreyfði sig og það sem hann hafði haldið að væru rykhnoðrar var eitthvað loðið og lifandi. Eitthvað sem var að reyna að skríða í burtu frá forvitnum augum hans.
Elías hafði horft á slatta af myndböndum um geimverur á YouTube. Það voru sko alls konar jútúberar sem voru að tala um hinar rosalegustu ráðgátur og þar á meðal um geimverur sem höfðu komið til jarðarinnar en ríkisstjórnir allra landa höfðu gert samninga um að láta almenning aldrei komast að neinu um þær. Elías hörfaði í burtu frá sófanum með þungan hjartslátt. Hann leit á klukkuna og sá að hún var ekki nema þrjú. Tveir klukkutímar í að foreldrar hans kæmu heim. Hann langaði alls ekki að vera fastur í húsinu með óþekkta geimveru undir sófanum, aleinn. Í tvo klukkutíma.
Hann fór í huganum yfir allar geimverur sem höfðu komið til jarðarinnar – samkvæmt jútúberunum. Það var geimvera sem spýtti sýru í andlitið á fólki, það var geimveran sem skreið inn um eyrað á manni (hann var nokkuð viss um að þessi væri ekki þannig, hún var of stór), það var sú sem gat stjórnað huga manns … reyndar voru þær nokkuð margar sem gátu það. Hann veiddi næstum batteríaslausan símann upp úr vasanum, bara 3% eftir. Hann hörfaði lengra frá sófanum og settist upp í eldhússtól og dró fæturna undir sig. Hann opnaði YouTube og fletti upp uppáhalds jútúbernum sínum. Hann fann myndbandið sem hann ætlaði að horfa á til að fræðast betur um geimverur. Myndbandið byrjaði.
„Aliens are on earth. Beware!“ byrjaði ungur amerískur gaur að hálföskra út úr símanum, mjög æstur. En hann komst ekkert lengra því síminn dó og Elías stundi. Gaurinn sagði honum að passa sig. En þetta var nú samt svolítið spennandi, hugsaði Elías með sér. Það var geimvera undir sófanum hans! Hann fann kraumandi spennu í maganum sem magnaðist eftir því sem hann hugsaði meira út í það hvað hann ætti að gera núna. Hann ætlaði að fanga geimveruna! Það læddist bros fram á varnirnar á Elíasi og eftir nokkrar sekúndur var hann skælbrosandi. Hann var kominn með plan.
Hann fór fram í anddyri, þar inn af var geymsla þar sem foreldrar hans geymdu alls konar yfirhafnir og skó sem ekki voru í notkun dagsdaglega. Hann fann stór stígvél og skóhorn. Svo kippti hann með sér nokkrum úlpum.
Sófinn var lágur og hann tróð úlpunum með fram honum öllum. Honum fannst með ólíkindum hvað þau þrjú í fjölskyldunni áttu margar yfirhafnir. Þau notuðu ekki helminginn af þessu og mest af þessu voru rándýrar úlpur. Hann heyrði þrusk í geimverunni undir sófanum og flýtti sér meira. Hann hafði þegar stillt stígvélinu upp við annann enda sófans. Hann opnaði smá gat í úlpuvirkið í kringum sófann og stjakaði við rykinu með skóhorninu þangaði til hann fann smá viðnám. Viðnámið kipptist við og hrökk af stað, beint inn í stígvélið sem var þess eina útgönguleið undan sófanum eins og var. „JESS!“ hrópaði Elías en áttaði sig strax á að það væri jafn auðvelt fyrir geimveruna að fara inn í stígvélið og út. Hann hentist yfir að stígvélinu og lokaði opinu og hristi svo stígvélið lítillega. Það var augljóst að það var eitthvað þarna inni sem hentist til.
Elías fann tilfinningu sigurs líða yfir hann. „Ég fangaði geimveru,“ hvíslaði hann að sjálfum sér. „Ég fangaði geimveru,“ endurtók hann hærra og hoppaði smá sigurhopp upp í loftið. Hann heyrði svolítið krafs innan úr stígvélinu. Geimveran var greinilega með klær sem gátu örugglega rifið hann á hol. Það var eins gott að hann hafði notað gúmmístígvel. Gúmmí var mun sterkara en mannshúð. Hún gæti ekki komist í gegnum gúmmíið, hugsaði hann sigri hrósandi. Hann mundi eftir sögum af geimverum sem höfðu borað sig innundir húðina, inn í líkamann og tekið sér bólfestu í manneskju. Það voru meira að segja uppi sögur um að forseta Bandaríkjanna væri stjórnað af þannig geimverum. Geimverurnar hugðu á heimsyfirráð og byrjuðu á einni valdamestu manneskju hnattarins. Dæmigert! Af hverju í ósköpunum var þessi geimvera þá kominn hingað? Elías var ekkert valdamikill.
Hugur hans fór á flug. Kannski var hver einasti krakki í skólanum hans, öll börn á Íslandi með geimveru undir sófanum sem beið bara nætur til að skríða innundir húðina á þeim og taka sér bólfestu í heilanum á þeim. „Díses kræst,“ hvíslaði hann lágt að sjálfum sér. „Við erum öll í stórhættu!“
Hann tók ákvörðun um að hann þyrfti að koma í veg fyrir heimsyfirráð geimvera frá annarri plánetu. Ef til vill gæti hann talað um fyrir kynstofni þessarar veru með því að ræða við hana. En hvernig? Hvernig átti hann að koma henni fyrir þannig að hann gæti talað við hana án þess að eiga í hættu á að falla undir stjórn hennar? Hann hugsaði sig lengi um og svo rann upp fyrir honum ljós. Fiskabúrið!
Uppi á annari hæð var risastórt fiskabúr sem hafði staðið ónotaði í þrjár vikur. Pabbi hans hafði ætlað að setja nýja fiska í búrið en var að bíða eftir sendingu af einhverju sérstökum steinum sem höfðu fests í tollinum. Hann fór upp, hélt enn á stígvélinu vel lokuðu í annarri hendi, og grandskoðaði fiskabúrið. Klærnar gætu ekki krafsað sig í gegnum glerið og örugglega ekki plastlokið sem lokaði búrinu heldur. Elíast tók ákvörðun. Þetta var öruggt.
Þegar Elías var við það að fara að hella geimverunni ofan í fiskibúrið gekk Grettir inn. Grettir var risastór appelsínugulur fressköttur, alveg eins og Grettir í teiknimyndasögunum. Hann mjálmaði ámátlega og nuddaði sér upp við lappirnar á Elíasi.
„Ekki núna Grettir, farðu.“ Grettir var mjög latur köttur sem vildi helst liggja sofandi á maganum á Elíasi þegar hann var að horfa á YouTube alla eftirmiðdaga. Elíasi fannst eins og Grettir væri að minna hann á að hann væri að svíkjast undan kúrinu. Hann ætti að koma eins og skot inn í rúm og liggja með honum. „Grettir ég get ekki komið núna, ég er að stunda alvarlegar rannsóknir. Farðu bara inn í rúm sjálfur.“ Grettir fór samt ekkert heldur horfði eftirvæntingarfullur á stígvélið eins og hann fyndi á sér að þar leyndist eitthvað stórfenglegt. Elías teygði sig aftur upp í fiskabúrið og opnaði stígvélið gætilega og hallaði því varlega yfir brúnina. Hann sturtaði úr stígvélinu. Ekkert datt út. Ekkert gerðist. Hann hristi stígvélið, hann sló því við brúnina á fiskibúrinu og þá loksins datt eitthvað lítið brúnt úr stígvélinu.
Elías sló sjálfan sig í ennið.
Lítil hrædd mús hjúfraði sig saman í einu horni fiskabúrsins og skalf. Eiginlega kenndi hann smá í brjóst um hana.
Grettir stóð við fiskabúrið og starði á músina í gegnum glerið, alveg eins og hann hafði starað á fiskana þegar það voru fiskar í því, með græðgisaugum.
„Grettir, asninn þinn. Varst það þú sem dróst þessa mús inn?“ Grettir horfði hreykinn á Elías til baka.
Elíasi fannst viðeigandi að músin fengi nafnið Geimvera. Músin fékk að eiga fiskabúrið til frambúðar. Hún bjó þar allt til æviloka tveimur árum síðar.
[hr gap=“30″]
Katrín Lilja er ritstjóri Lestrarklefans, menntaður sagnfræðingur og blaðamaður frá Háskóla Íslands. Hún hefur lengi haft áhuga á að skrifa, en hingað til hefur það eingöngu verið fyrir skúffuna. Barnabækur eru hennar ástríða.
Myndlýsing eftir Sjöfn Hauksdóttur.