Ég er með játningu (anda inn, anda út)
Ég þoli ekki að versla á netinu!
Í nútímasamfélagi er þetta náttúrulega til háborinnar skammar, eða svo er mér sagt. Ég vil samt meina að það hafi verið mér og eiginmanni mínum fjárhagslega til happs að ég eigi svona erfitt með að versla á netinu enda á ég ekki í erfiðleikum með að finna hluti sem mig langar í svona almennt. Ég er yngst þriggja systkina sem skilja hvorki upp né niður í því hvernig örverpið í hópnum getur verið svona gamaldags. Vinirnir gera líka oft grín að því hversu fráhverf ég er tækninni og eiginmaðurinn hlær sig máttlausan þegar ég í sakleysi mínu trúi pop up glugganum sem býðst til þess að vernda tölvuna mína fyrir óboðnum vírusum (viðvörun: aldrei treysta pop up gluggum!). En hingað til hefur þetta ekki haft mikil áhrif á mitt daglega líf…
Síðan kom heimsfaraldur.
Error
Netverslun hefur lengi vafist fyrir mér. Gleymd lykilorð eru minn helsti förunautur á tæknibrautinni ásamt Villa hefur komið upp gluggum sem hleypa engum fram hjá sér. En lífið stoppar ekki þó að heimsfaraldur geysi og ég þurfti að laga mig að nýjum leiðum til að versla í matinn, kaupa gjafir og leggja út fyrir afþreyingu. Það má því segja að COVID-ástandið í samfélaginu hafi neytt mig út fyrir þægindarammann hvað þetta varðar enda ekkert annað í boði þegar maður ætlar að hlýða Víði og reyna að halda sig heima. Við verðum jú öll að leggjast á eitt.
Hin hliðin á netverslun er sú að þetta er bæði skilvirk og þægileg leið til að versla, hvort sem það er matur, föt eða bækur. Maður getur einfaldlega gert þetta allt heima í stofunni eða í símanum og oftar en ekki fengið pakkann sendan heim að dyrum. Ég viðurkenni því, reyndar með allmiklum trega, að vefverslun er ekki jafn flókin og ég hafði talið mér trú um. Aðalmálið er að mikla þetta ekki fyrir sér.
Kostir við netverslun
Ég spurði nokkrar vinkonur, sem hafa fullkomnað þá list að versla á netinu, um hverjir helstu kostirnir væru. Í fyrsta lagi var það sú staðreynd að maður þarf ekki að fara út úr húsi. Það er voða notalegt að sitja upp í sófa með góða tónlist og skoða vörur á heimasíðunni. Það gefst góður tími til að hugsa sig vel um áður en varan er keypt og enginn rekst utan í þig eða hóstar ofan í hálsmálið á þér í röðinni. Annað sem þær nefndu var að heildarverðið í körfunni er alltaf sýnilegt, sem auðveldar manni að fylgjast með fjárútlátunum. Þá heldur maður ekki á bunka af vörum og fær svo sjokk á kassanum af því samlagningin klikkaði. Svo er enginn lokunartími í vefverslunum, þú getur verslað allan sólarhringinn og oftast þarf ekki að bíða lengi eftir heimsendingu.
Hvar er hægt að versla bækur á netinu?
Þar sem við erum vefsíða sem sérhæfir sig í að fjalla um bækur datt mér í hug að væri sniðugt að vekja athygli á því hvar er hægt að kaupa bækur á netinu! Margt af þessu vissi ég hreinlega ekki og þótti mjög áhugavert. Ég skellti meira að segja í smá lista en hann er alveg örugglega ekki tæmandi.
Vefsíða Pennans Eymundssonar
Hægt að setja inn bæði vildarklúbbs afsláttarkóðann og láta pakka inn smámunum fyrir sig. Fyrir þá sem vilja þá er hægt að fá jólagjafirnar innpakkaðar og sendar heim! Ef keypt er fyrir fimm þúsund krónur eða meira er frí heimsending með póstinum.
Vefsíða bókabúðar Forlagsins
Þar er bæði hægt að fá sendingar í pósti og svo eru þeir með aðila sem keyrir út vörur innan höfuðborgarsvæðisins fyrir smá viðbótargjald.
Vefsíða Nexus
Nexus er ein af mínum uppáhalds búðum! Þeir selja mikið af erlendum bókum en eru líka með íslenskar bækur, mest af þeim flokkast þó sem fantasíur eða vísindaskáldsögur. Í mörg ár hefur vefverslun ekki verið aðgengileg hjá þeim og því er um að gera að nýta sér þennan nýfengna lúxus.
Aha.is
Ég er nýbúin að komast að því að hægt sé að kaupa bækur á aha.is. Þetta er náttúrulega tær snilld! Það er hægt að fá heilu bókakassana senda heim með hamborgurunum sem voru pantaðir í kvöldmatinn! Einnig er hægt að kaupa bækur hjá Heimkaup.
Nú á tímum bjóða sumir höfundar upp á að bækur séu pantaðir beint frá þeim, sumir bjóða upp á afsláttarkóða og áritaðar bækur sem myndu vera æðislegar í jólapakkann. Bókaútgefendur selja einnig velflestir bækur á vefsíðum sínum. Þá er millimanninum eytt út, sem væri bókabúðin sjálf, og bækurnar eru þá jafnvel örlítið ódýrari. En hafa skal í huga að það bjóða ekki öll bókaforlög upp á þetta.
Flestar af þessum vefsíðum, bæði hjá búðunum og hjá forlögunum sjálfum, eru vel uppsettar og þægilegar í notkun. Hægt er að leita eftir flokkum bóka og stundum er hægt að skoða vinsældarlista. Svo er í boði að fá sendinguna í pósti fyrir smá auka kostnað. Einnig er gott að hafa augun opin fyrir allskonar afsláttarkóðum og tilboðum sem gilda stundum aðeins í netverslun.
Tvær jólagjafir komnar í hús!
Þrátt fyrir að netverslun sé þægilegri en ég hélt upprunalega finnst mér samt skemmtilegast að fara í bókabúðirnar sjálfar. En COVID-ástandið verður því miður eitthvað áfram við lýði og mögulegt að ýmsar fjöldatakmarkanir og tengdar ráðstafanir verði í gildi fram að jólum. Þess vegna finnst mér alveg tilvalið að byrja snemma á jólagjafainnkaupunum í ár! Reyndar segi ég þetta við mig hvert einasta ár en í þetta sinn ætla ég að láta verða af því. Ég er allavega búin að kaupa tvær jólagjafir á netinu. Innkaupin á annarri þeirra heppnuðust reyndar ekki í fyrstu tilraun en þetta kemur allt með kalda vatninu!