Eitt af heitustu áramótaheitum síðustu ára er að lesa meira. „Í ár ætla ég að lesa 40 bækur.“ Og svo er það stimplað inn í Goodreads og allir læka fagrar fyrirætlanir þínar og hvetja þig áfram. Uppfullur af atorku og krafti lestu tvær bækur en dettur svo ekki inn í þriðju og svo í febrúar ertu aftur farinn að laumast í símann uppi í rúmi og leyfir bláum skjánum að róa þér í svefn. Lestrarátakið skríður yfir tíu bækur yfir árið, einni fleiri en í fyrra sem er ágætis framför, sannfærir þú þig um.
Ef þú hefur sett þér háleit markmið fyrir árið þá er ég með nokkra punkta sem er gott að hafa við bakhöndina og hafa reynst mér vel.
Næsta bók er alltaf tilbúin
Fyrir nokkrum, árum þegar ég setti mér það markmið að lesa meira, setti ég mér ekki tölulegan fjölda á hve margar bækur ég ætlaði mér að lesa yfir árið. Ég setti mér það markmið að taka strax upp nýja bók, þegar fyrri væri lokið. Ekki vera með bókalaust náttborð! Það hefur gengið ágætlega og ég held að ég hafi náð að lesa yfir hundrað bækur á síðasta ári (núna tel ég nefnilega).
Lestu eitthvað stutt
Ef þú hefur sett þér það takmark að lesa tiltekinn fjölda af bókum á þessu ári þá mæli ég með því að þú veljir þér stuttar bækur inn á milli. Bók er bók, sama hve margar blaðsíður eru í henni. Og ef þú ert að lesa barnabækur með barninu þínu – skráðu þær líka! Sjálfri finnst mér gott að grípa í ljóðabók inn á milli langra skáldsagna. Eða í smásagnasafn. Vittu til, þú átt eftir að hala inn bókatitlunum á Goodreads og bæta einverju alveg nýju í lestrarflóruna þína.
Lestu við hvert tækifæri
Þegar maður er útivinnandi, rekur heimili og á nokkur börn getur það verið áskorun að finna tíma til að lesa. Þarftu að með barnið til tannlæknis? Takið með ykkur bók! Það styttir tímann á biðstofunni og setur gott fordæmi fyrir barnið. Ætlarðu út á róló með börnin? Taktu með bók! Þótt þú getir ekki lesið allan tíma, því það þarf að byggja sandkastala og ýta í rólum, þá er bókað að þú nærð inn nokkrum mínútum af lestri einhversstaðar. Tala nú ekki um ef barnið þitt hittir vin í sandkassanum! Ertu að elda? Taka til? Keyra í vinnuna? Hlustaðu á hljóðbók. Það er alltaf hægt að koma einhverjum lestri að, þótt það sé ekki lestur af blaði.
Baráttan við símann
Síminn er mesti tímaþjófurinn. Það er auðvelt að detta í að skrolla í símanum þegar maður vill eiginlega miklu frekar vera að lesa. Ég hef ekki fundið endanlega lausn á þessu vandamáli sjálf, en það hefur reynst mér ágætlega að leggja svartan símann á svarta hillu og týna honum í smá stund. Það er kannski líka ágætur vani að leggja bara símann frá sér þegar heim er komið. Hann þarf ekki alltaf að vera við höndina. Sé það gert get ég lofað að alls kyns höft losna og þú finnur skyndilega meiri tíma.
Lestu barna- og unglingabækur
Þegar maður er með börn á heimilinu les maður mikið af barnabókum. Það er óhjákvæmilegt ef maður vill stuðla að bókmenntalegu uppeldi barnanna sinna. Eftir að mín eigin börn fóru að lesa sjálf hef ég stundum lesið bækurnar þeirra, eða frumlesið bók sem ég trúi að gæti hentað þeim svo auðveldara sé að sannfæra þau um ágæti bókarinnar. Barnabækur eru fljótlesnar og bráðskemmtilegar. Þær koma margar hverjar afskaplega mikið á óvart. Það besta við að lesa barnabækur er að börnin sjá að þeirra bækur eru ekki síðri og það er hægt að ræða við mömmu eða pabba um bókina eftir að báðir aðilar hafa lesið hana. Setjum gott fordæmi og deilum áhuganum.
Lestu auðveldar bækur inn á milli
Það er ekki allra að lesa þunga doðranta eða heimsbókmenntir og það er enginn skylda. Það má alveg lesa lauflétta ástarsögu eða hörkuspennandi krimma. Það er eiginlega mikið betra að lesa þannig bækur þegar athyglin þarf að vera á mörgum stöðum í einu, til dæmis á róló. Það er líka betra að lesa þannig bækur þegar maður vill slaka almennilega á. Ragnhildur talaði einmitt um þetta í pistli fyrir nokkru.
Lestu uppi í rúmi
Ég hef reyndar ekki mjög góða reynslu af því að lesa uppi í rúmi. Annað hvort sofna ég eftir tvær blaðsíður eða ég les fram á nótt. Hvorugt er góður kostur. En margir lesa helst uppi í rúmi. Farðu fyrr í rúmið og gefðu þér meiri tíma í lesturinn. Það eina slæma sem gæti komið út úr því er að þú sofnar fyrr yfir bókinni, sem er eiginlega bara fínt. Þú sefur of lítið hvort eð er.
Slepptu sjónvarpinu eitt kvöld í viku
Kvöldin eru tími foreldranna. Þegar börnin eru farin að sofa er hægt að gera eitthvað fyrir sjálfan sig, til dæmis slaka á yfir uppáhalds bókinni þinni. Eigirðu maka sem einnig er bókhneigður er huggulegt að kveikja á kerti og lesa saman eitt kvöld í viku í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið. Og að sjálfsögðu þurfið þið að hafa almennilegt lesljós með kertinu, þið sjáið svo illa í rökkrinu nú orðið. Eða bara lesa bók sjálfur. Það er allt í lagi að helga eitt kvöld í viku lestri og það krefst ekki mikið meira af þér en að horfa á sjónvarpið.
Lestu í baði
Erna Agnes játaði eitt sinn ást sína á því að lesa í baði. Sjálf hef ég ekki náð að tileinka mér þessa baðbókastund, en hvet þó aðra til að gefa henni tækifæri. Tilhugsunin er nefnilega guðdómleg. Mig vantar bara baðkoddann og betra bað.
Það er alltaf leið til að koma lestri að í amstri dagsins. Þú þarft bara að beita smá tímastjórnun og vera tilbúinn að sleppa einu og einu kvöldi af sjónvarpsglápi, taka bók með þér þegar þú ferð að heiman og muna að lesa fjölbreytt. Þá verður allt svo mikið skemmtilegra. Gangi þér vel!