Rithornið: Þrjár örsögur

29. júlí 2021

Þrjár örsögur

Eftir Svan Má Snorrason

Jarðað

Ég tók þátt í því að láta ömmu mína síga niður í jörðina.

Það var erfitt en hafðist og ég hugsa ekki oft um það.

Tárin sem streymdu þá úr augum mínum breyttust í nokkra pínulitla demanta á leiðinni niður í gröfina og skreyttu kistuna með fallegum hætti.

Síðan brauðterturnar.

 

Á rölti

Eftir langa göngu um bæinn minn í ausandi rigningu og logni, þar sem hugsanir mínar breyttust í strangflatarlistaverk eftir sjálfan mig, kom ég við í bakaríi og keypti kleinu, súkkulaðisnúð, sérbakað vínarbrauð og þrjár fernur af sykurskertri kókómjólk. Afgreiðslukonan brosti blítt, horfði með óræðnum svip á mig með sínum fallegu brúnu augum og sagði að það færi mér vel að vera með blautt hár.

 

Markaðstorg Kengúrunnar

„Kengúra til sölu, kostar eina tölu,“ hrópaði unga stúlkan með ónýtu eldspýturnar á markaðstorgi guðanna.

„Farðu heim, unga stúlka,“ hrópaði gamli maðurinn með veðurbarna andlitið, sem alla sína ævi hafði unnið hjá rafveitunni, um leið og hann tók stóran sveig framhjá rithöfundinum sem hafði nýlega bæði sagt skilið við konu sína og bókaforlag sitt.

„Já, farðu heim, ha, ha, ha,“ heyrðist í rithöfundinum en ekkert sást brosið.

„Það vill enginn kaupa kengúruna mína,“ var það síðasta sem unga stúlkan með ónýtu eldspýturnar á markaðstorgi guðanna sagði áður en hún hélt, ásamt kengúrunni, döpur í bragði heim í hreysið sem varla getur kallast heimili, þar sem drykkfelldur og ofbeldisfullur faðir og útslitin móðir tóku á móti henni.

Kengúran grét áströlskum tárum.

 

[hr gap=“30″]

 

Svanur Már Snorrason fæddist 25. maí árið 1971. Hann hefur gaman af skrifum og lengi verið heillaður af smásagna- og örsagnaforminu.

Svanur hefur lengst af haft lifibrauð sitt af blaðamennsku og starfar í dag sem slíkur á Mannlífi; er stúdent frá Flensborgarskóla og með BA-próf í almennri bókmenntafræði frá HÍ.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...