Úti er nýjasta glæpasaga Ragnars Jónssonar. Ragnar gaf út sína fyrstu glæpasögu árið 2009 og hefur sent frá sér bók árlega síðan þá. Ragnar hefur stimplað sig inn sem einn af vinsælustu glæpasagnahöfundum landsins og vakið mikla athygli út fyrir landsteina, meðal annars í Frakklandi en sér í lagi í Þýskalandi þar sem hann átti þrjár af mest seldu bókum landsins í sömu vikunni árið 2020.

Undir áhrifum Christie

Ég hef áður lesið nokkrar bækur eftir Ragnar og almennt þótt auðvelt að sökkva mér í þær. Ragnar hóf bókmenntaferilinn á því að þýða bækur Agöthu Christie þegar hann var á unglingsaldri og oft finnst mér ég sjá áhrif frá henni í sögum hans.

Ekki munu allir lifa af

Að þessu sinni sendir Ragnar frá sér sálfræðitrylli en höfundur fer með lesendur lengst upp í óbyggðir um óveðursnótt í nóvember. Fjórir æskuvinir, Ármann, Helena, Gunnlaugur og Daníel ætla saman á rjúpu. Þegar óveður skellur á leita þau skjóls í litlum veiðikofa uppi á heiði. Eftir að hafa brotið sér leið inn rekur Gunnlaugur upp óp en skelfileg, óvænt og óhugnanleg sýn blasir þá við hópnum. Þegar á líður kemur í ljós hvað þetta var. Á kápunni bókarinnar er strax ljóst að ekki munu allir komast lífs af.

Ólíkt því sem áður hefur verið náði þessi bók Ragnars ekki að grípa mig, hún byrjar spennandi en mér finnst hann ekki ná að halda dampi og viðhalda spennunni. Það var í raun ekki fyrr en í síðustu köflunum, þegar fléttan er leyst, að ég varð spennt og fannst ég þurfa að klára bókina í einum rykk. Sögulokin komu mér skemmtilega á óvart.

Í bókinni er sniðinn ansi þröngur rammi; tíminn er stuttur og persónur fáar í sögunni. Kaflarnir eru stuttir og sjónarhornið breytist milli kafla, þar sem hver persóna fær að njóta sín í hverjum kafla. Kaflarnir bera enn fremur nafn hverrar persónu. Þessi uppbygging getur virkað til að skapa andrúmsloft, en mér fannst það ekki ganga nógu vel upp í þessari bók. Sú hugmynd, að setja saman æskuvini sem hafa fjarlægst hver annan og þekkja kannski hvert annað ekki nógu vel lengur, er góð og knúði að ákveðnu leyti spennuna áfram en það dugði þó ekki til til að halda bókinni gangandi.

Ég hef hrifist af bókum Ragnars áður, til dæmis Hvíta dauða, þar sem skemmtilega var blandað saman spennu og sagnfræði. Það var ýmsilegt gott í Úti en spennunni hefði þurft að viðhalda betur.

 

Lestu þetta næst

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...

Að syrgja er að elska

Að syrgja er að elska

Daníel Daníelsson er menntaður í sagnfræði og ritlist og hefur nú gefið út sitt annað skáldverk,...