Berklar, morð og boð í matarboð

Hvíti dauði Ragnars Jónassonar kom út nú fyrir stuttu og small beint inn í jólabókaflóðið. Ragnar hefur undanfarin ár fest sig í sessi sem einn af krimmakóngum landsins og svíkur hann svo sannarlega ekki með nýjustu bókinni. Ég las Þorpið í fyrra og beið því spennt eftir þessari. Ég missti mig hreinlega af spenningi í hvert skipti sem ég sá bókakápuna birtast í skjáauglýsingunum og dularfullt andlit Ragnars mætti mér.

Hrottaleg morð og dularfullt heimilislíf

Sagan segir frá afbrotafræðingnum og fyrrverandi lögreglumanninum Helga sem tekur að sér að skoða gamalt morðmál frá níunda áratugnum þar sem hjúkrunarfræðingur og yfirlæknir voru myrt á hrottalegan hátt á gamla berklahælinu. Inn í þetta fléttast saga um persónulega erfiðleika Helga heima fyrir á milli þess sem lesandi kynnist persónum og leikendum sem allir tengjast morðunum á dularfullan hátt. Fléttan vindur upp á sig og ég get alveg hreint viðurkennt það að þrátt fyrir afar mikilfenglegar kenningar mínar þá áttu þær ekki séns í endinn sem Ragnar vippar upp svo snilldarlega. Svo skemmdi alls ekki fyrir að saga berkla hefur alltaf heillað mig af einhverri undarlegri ástæðu. Kannski vegna þess að ég lít almennt út fyrir að vera með 19. aldar berkla enda heldur hvít svona almennt séð nema í júlí. En nóg um það.

Skemmtilegt matarboð og alls ekki minimalísk hurð

Í byrjun bókarinnar þakkar Ragnar fyrir sig, eins og mörgum hógværum höfundum er lagið, en sérstaklega þakkar hann vinafólki sínu sem boðið hafði honum í örlagaríkt matarboð þar sem kveikjan að bókinni varð til. Ekki amalegt það! Ég verð að segja að ég væri meira en lítið til í að hafa Ragnar sem matarboðsgest; sér í lagi ef krimmarnir verða hreinlega til yfir gratíneruðu kartöflunum og grilluðu lúðunni með sítrónu, salti og pipar (ímyndaður og girnilegur matseðill). Ég væri allavega til að fá Ragnar í mat til mín um leið og ég flyt úr 47 fermetrunum yfir í almennilegt húsnæði með góðu eldhúsi og a.m.k. þremur auka hurðum eins og þessari:

Tignarleg hurð getur verið lúxus þegar viðkomandi býr í stúdíó með eina tveggja ára. Halló nýtt ár, og halló ný íbúð og halló Ragnar! Velkominn í mat!

Ég gef Hvíta dauða og dularfulla Ragnari fjórar stjörnur.

 

E.S. Ragnar minn, þú hefur svo bara samband þegar þig langar að detta í mat til mín og Sigurþórs. Lofa að bjóða upp á gúmmelaði.

 

Lestu þetta næst

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.

Tifandi rauðar klukkur

Tifandi rauðar klukkur

Sagan Rauðar klukkur (e. Red Clocks) gerist í Norður-Ameríku, í óljósri náframtíð. Þungunarrof eru...