Sjálfsmorð í stríðshrjáðu landi?

Penni: Katrín Lilja

ÖrBókin Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur kom út árið 2016 og hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin það árið. Þetta er fyrsta bókin sem ég les eftir Auði Övu en verður  ekki sú síðasta. Auður Ava hefur ótrúlega gott tak á því að halda lesandanum föstum og ég varð í raun fyrir vonbrigðum þegar bókinni lauk. Mig langaði í meira!

Lesandi fylgist með Jónasi Ebeneser, miðaldra, fráskyldum manni og föður. Honum er lýst sem valdalausum. Mér fannst það skipta máli, því að einhverju leiti finnst mér karlmennskan vera til umræðu í bókinni. Karlmennskan í öllu sínu veldi. Það kemur svo á daginn að kona hans rangfeðraði dóttur þeirra og dóttirin er í raun ekki hans. Skilnaðurinn og áfallið við að heyra að dóttirin er ekki hans, sökkvir honum í djúpt þunglyndi.

Jónas er þögull maður. Hann talar lítið og deilir litlu sem engu með samferðafólki sínu. Samskipti hans við fyrrverandi eiginkonu hans voru orðin svo lítil að hún vildi skilja við hann af því að það eina sem hann gerði væri að endurtaka allt sem hún sagði. Þarna finnst mér maður sjá karlmennskuna. Það er óþarfi að tala um hlutina, þótt lesandinn viti að Jónas vilji segja frá svo mörgu en eitthvað stoppar hann. Hann á í samskiptum við Svan nágranna sinn. Svanur talar mikið um konur í stríði og konuna sína. Lesandi er þeirra gæfu aðnjótandi að heyra hugsanir Jónasar. Jónas klárar oft heilu samtölin í huganum, á svo ljóðrænan hátt.

Jónas hefur þrjár Guðrúnar í lífi sínu. Guðrúnu móður sína sem þjáist af elliglöpum en var áður orgelleikari og stærðfræðikennari. Fyrrverandi eiginkona hans heitir Guðrún og svo er það dóttir hans, Guðrún Vatnalilja. Móðir hans er heilluð af stríðum.  Áhugi Svans á konum í stríði og kvennréttindum og áhugi móður Jónasar á stríði koma til sögu síðar í bókinni.

Jónas er þunglyndur og hefur ákveðið að taka líf sitt. Hann getur samt ekki hugsað sér að leggja það á vini eða fjölskyldu að koma að honum látnum. Á meðan hann veltir fyrir sér leiðum til að enda líf sitt herjar Svanur á hann, leitar eftir tengingu við hann. Eins og hann hafi áhyggjur af Jónasi. Jónas Ebeneser ákveður að fara til lands sem hefur verið plagað af áralöngu stríði. Hann gæti þá allt eins stigið á jarðsprengju og dáið þannig, hugsar hann. Hann tekur lítið með sér, en tekur þó verkfærakassa og borvél til að geta sett upp krók til að hengja sig.

Við komuna í landið fara hlutirnir þó að breytast. Jónas er enn hljóður og enn viss um að hann ætli að enda líf sitt, en þunglyndi hans er lúxusvandamál í landi þar sem fólk hefur barist fyrir lífi sínu og tilveru í hræðilegu stríði í mörg ár. Við kynnumst ungum systkinum og syni systurinnar sem reka hótelið sem hann dvelur á. Í gegnum þau heyrum við sögur af eymd og óhroða stríðsins. Og skyndilega er Jónas orðinn starfsmaður hótelsins og sinnir ýmsu viðhaldi, enda handlaginn maður sem var vanur að dytta að ýmsum hlutum. Handlagni hans fréttist um allan bæinn og áður en langt um líður er Jónas farinn að dytta að pípulögnum og rafmagni um allann bæinn. Þó fer að bera á gagnrýni að hann aðstoði eingöngu konur.

Það kemur ekki fram í bókinni hvort Jónast yfirgefi áætlanir sínar um sjálfsmorð. Hins vegar ílengist hann í stríðshrjáða landinu og er orðinn ansi umsvifamikill í lokin. Hann gerir til dæmis upp hús fyrir hóp kvenna. Í mínum huga hættir hann við sjálfsmorðið þar sem hann hefur fengið nýjan tilgang með hjálpsemi sinni og endalausum verkefnum í samfélagi þar sem allt er í ólagi.

Í lok sögunnar heyrum við slæmar fréttir sem ég vil lítið tíunda hér svo ég spilli ekki sögunni fyrir öðrum lesendum. En þær fréttir finnst mér vera í samhljómi við gagnrýnina sem hann fékk í stríðshrjáða landinu, að hann hjálpi bara konum, og fjalla um karlmennskuna.

Allt í allt var Ör góð lesning. Jónas Ebeneser er rólegur maður og það smitaði út frá sér, út fyrir bókina. Ósjálfrátt fór ég að hugsa eins og hann. Klára samtöl í huganum, þótt ég hafi ekki sokkið í þunglyndi eins og hann. Á einum tímapunkti mundi ég eftir bókinni Maður sem heitir Ove eftir Fredrik Backman. Ove er í svipuðum sporum og Jónas, íhugar sjálfsmorð en fær skyndilega nýtt hlutverk og tilgang. Bækurnar eru þó ekki líkar að neinu öðru leiti. Forréttindi okkar hér á norðurhjara voru áberandi í samanburði við ástandið í stríðshrjáða landinu. Einnig fannst mér bókin benda á þann augljósa vankant á heilbrigðiskerfinu okkar þegar kemur að geðheilbrigðismálum og spéhræðsluna sem sumir hafa gagnvart þunglyndi og geðsjúkdómum. Ég hlakka til að lesa eldri bækur eftir Auði Övu í einum rykk!