Handan fyrirgefningar
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger
Forlagið
Reykjavík, 2017

Bókin Handan fyrirgefningar kom út í mars árið 2017. Ég var ekki að lengi að hugsa mig um áður en ég var búin að reiða fram debetkortið og hún varð mín. Það tók mig aftur á móti langan tíma að klára loksins að lesa hana. Umfjöllunarefni hennar er heldur ekkert léttmeti; nauðgun og kynferðislegt ofbeldi. Þórdís og Tom mæla sér mót í Höfðaborg í Suður-Afríku til þess að takast á við fortíðina, gera hana upp og ræða erfið mál sem aldrei hafa verið rædd.

Bókin er það vel skrifuð að oft á tíðum þurfti ég að henda henni frá mér þar sem mér var orðið flökurt af lýsingunum eða svo reið yfir því hvað þessi maður leyfði sér að gera við 16 ára kærustu sína. Bókin hafði djúpstæð áhrif á mig, bæði líkamlega sem og andlega. Þórdís er alveg hreint frábær rithöfundur og staðarlýsingar hennar á Höfðaborg voru svo góðar að mér fannst ég oft ganga með þeim á götum borgarinnar og horfa á þau eiga þessi erfiðu samskipti. Samskipti sem höfðu það að markmiði að finna ástæðu, fyrirgefningu og skilning.

Undir lok bókarinnar dugði ekkert annað til en að hafa stóran og góðan vasaklút við höndina. Tárin bara hættu ekki að flæða. Það var ekki hversu erfið lesningin var heldur vegna þess að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var sem að Guð eða einhver æðri máttarvöld hafi séð þessa ferð þeirra fyrir og skilið eftir hvatningarorð og ábendingar út um alla borg.

Ég verð þó að viðurkenna, þegar að brot úr dagbók Tom kom fyrir í bókinni þá sleppti ég þeim síðum. Mér fannst ég sjá alveg nóg af honum á hinum síðum bókarinnar. Þessi bók er að mörgu leyti einstök, þarna fær maður að fylgjast með samskiptum tveggja aðila, brotaþola hins vegar og geranda annars vegar. Þórdís og Tom létu ekki þar við sitja að skrifa bók heldur hafa þau farið með fyrirlestur tengdan þessu efni víða.

Hits: 3873