itwPaula Hawkins skrifaði bókina Konan í lestinni (e. The Girl on the Train) sem síðar var kvikmynduð með Emily Blunt í aðahlutverki. Sú bók seldist í bílförmum og varð gríðarlega vinsæl. Sjálf hef ég ekki lesið hana, en ætla ekki að andmæla fjölda manns sem hrósa henni í hástert. Ég á einn daginn eftir að grípa hana upp á einhverjum flugvellinum og lesa hana í einum rykk á leiðinni heim frá einhverju framandi landi. Ég er viss um það.

Það er einmitt þannig sem Into the Water rataði í hendurnar á mér. Reyndar var það ekki ég sem var á flugvellinum, en það skiptir ekki öllu máli. Bókin var á tilboði og endaði í mínum fórum. Into the Water var þýdd yfir á íslensku fyrir jólin 2017. Í íslenskri þýðingu heitir hún Drekkingarhylur. 

Sjálfsmorð eða morð?

Bókin byrjar á lýsingu á konu sem er drekkt í drekkingarhyl, bundin á höndum og fótum og í strigapoka (ef ég man rétt). Um leið var ég gripin forvitni um bókina, enda alltaf haft “leynilegan” áhuga á nornum og öllu dularfullu. Síðan fylgjumst við með Jules, hverrar systir er nýlega látin. Nel, systir hennar, lést í drekkingarhylnum við bæinn Beckford og talið er að hún hafi framið sjálfsmorð. Drekkingarhylurinn er frægur í bænum og þar var fjölda af konum drekkt á árum áður fyrir galdra og fjölmargar konur nýttu hylinn til sjálfsmorðs eftir það. Drekkingarhylurinn er, eins og Nel orðar í bókinni, staður til að losa sig við erfiðar konur. Nel var að skrifa sögu kvennanna sem höfðu misst lífið í drekkingarhylnum, hvort sem þær voru myrtar þar eða þær frömdu sjálfsmorð. Þegar Katie, ung stúlka úr Beckford, fremur sjálfsmorð í drekkingarhylnum kemur það illa við bæjarbúa að Nel skrifi um hana. Katie var líka besta vinkona dóttur Nel, Lenu.

Jules þarf að snúa aftur til Beckford til að hugsa um Lenu eftir lát Nel. Jules var löngu búin að ákveða að fara aldrei aftur til Beckford, enda með ógrynni af slæmum minningum af staðnum og samdi þar að auki illa við systur sína.  Jules er sannfærð um að systir hennar hafi ekki framið sjálfsmorð af mörgum ástæðum. Hægt og rólega í gegnum bókina koma svo í ljós myrk leyndarmál. En Jules og táningurinn eru ekki einu sögupersónurnar. Sögupersónurnar eru ellefu og allar hafa þær sína sögu að segja.

Flókin og tætingsleg

Ég hafði litlar væntingar til bókarinnar, enda ekki búin að lesa metsölubókina hennar Paulu. Ég hélt að ég væri að fara að lesa dularfulla bók þar sem nornir og galdrar spiluðu einhverja rullu á jarðbundinn hátt. Vissulega koma nornir við sögu í bókinni en bara látnar nornir. Í byrjun fannst mér ég vera að lesa eitthvað örlítið ævintýralegt, en þegar leið á bókina missti ég hægt og rólega áhugann. Mér þótti stundum erfitt að þekkja persónurnar ellefu í sundur og allt varð frekar flókið og tætingslegt. Ráðgátan sem lesandinn leysir í bókinni er leyst hægt og rólega og mér fannst höfundurinn ekki gefa manni nóg í hvert sinn sem eitthvað nýtt kom í ljós. Það var aldrei talað hreint út um hlutina, sem var svolítið pirrandi. Í staðinn fyrir að uppgötva ráðgátuna á einu bretti þá mjatlaðist svarið í mann hægt og rólega. Eftir lesturinn fannst mér ég hafa horft á miðlungsgóða, breska sakamálaþáttaröð.

Hits: 82