Fortíðarþrá til níunda áratugarins

Penni: Katrín Lilja

5 stjörnur s

readyReady player one eftir Ernest Cline er bók sem hefur náð að safna að sér stórum fylgjendahópi og fengið költ status meðal lesenda sinna. Væntanleg í bíóhús á Íslandi er kvikmynd byggð á sögunni og hennar hefur verið beðið af mikilli eftirvæntingu. Cline notar dægurmenningu níunda áratugarins ríkulega í bókinni og það gæti vel verið hluti af velgengni hennar. Síðan bókin kom út árið 2011 og sannaði ágæti sitt hafa fleiri nýtt sér níunda áratuginn sem sögusvið til að heilla bæði lesendur og áhorfendur. Skemmst er þar að nefna vinsældir sjónvarpsþáttanna Stranger Things. Það kom mér mjög á óvart að sjá að það er ekki búið að þýða bókina yfir á íslensku. Það gæti þó verið vandkvæðum bundið að þýða bókina, þar sem mjög grimmt er vísað í ameríska dægurmenningu níunda áratugarins. Það hlýtur þó að vera einhver hæfileikaríkur þýðandi á Íslandi sem er tilbúinn að taka að sér verkefnið.

Ratleikurinn

Bókin gerist  í framtíðar dystópíu árið 2044. Íbúum jarðar hefur fjölgað gríðarlega, náttúruhamfarir hafa gert lífsskilyrði erfiðari og flestir íbúar velja að flýja inn í sýndarheiminn The Oasis. Þar á meðal er söguhetjan Wade Watts, unglingur í yfirvigt og með þráhyggju fyrir öllu sem viðkemur The Oasis. Í sýndarveruleikanum sækja börn og unglingar skóla, hægt er að fara á félagsviðburði og í raun lifa lífinu öllu algerlega í gegnum sýndarveruleika. Hægt er að lifa hinu fullkomna lífi, í fullkomnum líkama í sýndarveruleikanum.

Skapari The Oasis, James Donovan Halliday,  er sérvitur karl sem er mjög upptekin af dægurmenningu, sjónvarpsþáttum, bíómyndum og tölvuleikjum níunda áratugarins. Í The Oasis eru alls kyns vísanir í níunda áratuginn og allir þeir sem hafa alvöru áhuga á The Oasis vita allt um þann áratug og dægurmenningu hans. Halliday deyr og skilur eftir skilaboð til notenda The Oasis. Sá sem finnur „Páskaegg“ (e. Easter-egg) sem hann hefur skilið eftir einhvers staðar í leiknum eða sýndarveruleikanum fær að eignast allt stórveldi hans og fá fullt forræði yfir The Oasis. Páskaeggið eða ratleikurinn (e. Easter-egg hunt) verður keppnisbein á meðal notenda The Oasis, enda mikið í húfi. Wade Watts, eða Parzival eins og hann heitir í The Oasis, ákveður strax að reyna að sigra ratleikinn og finna páskaeggið en til þess þarf hann að leysa alls kyns gátur og þrautir sem sterklega tengjast níunda áratugnum. Hann þarf að berjast við risafyrirtækið IOI sem sækist eftir völdum yfir The Oasis til að geta nýtt það sem auglýsingavettvang. En það er ekki hægt að berjast við ofurefli einn. Wade, sem er mikill einfari, þvingast til að fara í lið með öðrum leikmönnum og leysa gátur og þrautir og freista þess að komast að endalokum ratleiksins.

Einföld og skemmtileg bók

Allir sem ólust upp á níunda áratug þekkja flestar ef ekki allar tilvísanirnar sem Cline notar í bókinni og fyllast jafnvel fortíðarþrá. Sjálf þekki ég lítið til þessarar dægurmenningar en bókin höfðaði samt til mín. Dystópíur, ráðgátur og það að leysa þrautir og gátur hittir alltaf á veikan blett hjá mér. Þekking á tölvuleikjum og annarri dægurmenningu þessa áratugar er því ekki nauðsynleg til að njóta bókarinnar, þótt ég gæti vel trúað að það gefi lesandanum meira að skilja allar tilvísanirnar. Sem dæmi, þá er þetta bókin sem and-lesari heimilisins las á mjög stuttum tíma. Hann hefur ekki lesið heila bók síðan þá.

Bókin er skrifuð á þægilegan, einfaldan og flæðandi hátt þannig að maður á mjög auðvelt með að sökkva sér niður í bókina og gleyma bæði stað og stund. Í raun og veru er maður mataður af upplýsingum og þarf ósköp lítið að hugsa, sem getur verið ágætt af og til. Ég bíð spennt eftir myndinni.

Bókin fær eimreið og fjóra vagna í einkunn fyrir að vera góð skemmtun.