4 stjörnur s

 

martianÉg legg það ekki í vana minn að sjá bíómyndina áður en ég les bókina. Hins vegar gerðist það þegar ég sá The Martian  áður en ég las bókina. Sagan er skrifuð af Andy Weir, bandarískum rithöfundi og tölvuforritara með einarðan áhuga á geimnum og geimferðum. Myndin var ágætis afþreying, með svakalegum tilfinningasveiflum þar sem maður fylgdist með aðalhetjunni, Mark Whatney, glíma við að lifa af á Mars. Myndin var uppfull af allskyns útreikningum, vísindalegum staðreyndum og inn á milli gríni. Bara svona alveg eins og bíómyndir eiga að vera.

Fyrir þá sem ekki kannast við söguna þá fjallar hún um Mark Whatney, grasafræðing, vélaverkfræðing og geimfara sem fer ásamt öðrum vísindamönnum til Mars. Ætlunin er að rannsaka Mars í þaula, jarðveg, andrúmsloft og allt sem þarf að rannsaka. Þið vitið, af því mennirnir eru svo forvitnir. Á sjötta degi fer hins vegar allt í rugl. Gríðarlegur stormur setur allar þeirra áætlanir í rúst og þau þurfa að yfirgefa plánetuna. Whatney verður hins vegar fyrir því að blása í burtu frá hópnum, eins og laufblaði í hauststormi. Get kemur á geimbúninginn og sendirinn hans bilar svo öll lífsmerki hans deyja út. Fyrir félögum hans liggur í augum uppi að maðurinn er dauður svo þau skjóta sér af stað frá Mars og heim til Jarðar, alls óvitandi að Whatney er í raun enn lifandi á Mars. Sagan snýst svo um hans líf á Mars. Hvernig er hægt að lifa af á Mars? Hvernig getur hann látið vita að hann sé enn á lífi? Hvernig í ósköpunum kemst hann aftur til Jarðar?

kókópöffs

Þegar mér áskotnaðist bókin bjóst ég við að hún hefði eitthvað meira fram að færa en bíómyndin; að lesandi myndi komast nær persónunni Mark Whatney. Það sem ég las var alveg nákvæmlega eins og myndin. Samt var ég föst með nefið í henni í tvo daga, því svona bók er lesin hratt, eða eins hratt og fjölskyldulífið leyfði. Þrátt fyrir að mér liði eins og ég væri að lesa bíómyndahandritið þá var bókin mjög spennandi. Hins vegar skyldi hún lítið eftir að lestri loknum. Þetta var svolítið eins og að borða kókópöffs með nýmjólk á laugardagsmorgni. Loftkennt, ógeðslega gott og fljót melt.

Bæði í bókinni og myndinni er gríðarlegt magn af vísindalegum upplýsingum og staðreyndum. Tilraunir Whatney og útlistanir hans á þeim öllum saman eru settar fram á mjög sannfærandi hátt. Mér fannst gaman, þótt ótrúlegt sé að lesa um þetta allt saman. Hins vegar var ég alltaf með það á bak við eyrað að ég hafði í raun ekki hugmynd hvort þetta allt væri satt og rétt, en það skipti mig svo sem ekki máli. Þetta er afþreyingarbók og skal vera lesin með því hugarfari. Ég hef síðar lesið að Weir las sér ítarlega til um allar rannsóknirnar í bókinni svo þær eru víst bara nokkuð nákvæmar. Hann er líka einlægur marsnörd í öllu sem viðkemur vísindum og geimferðum.

Ég mæli hiklaust með því að lesa bókina fyrst, áður en horft er á myndina. Einfaldlega vegna þess að það er svo miklu skemmtilegra að vita ekki hvernig fer fyrir Whatney þegar maður byrjar að lesa og geta þannig treinað sér spennuna. Það er alltaf svo gaman að lesa bók sem maður getur ekki hætt að lesa, og lesa fram á nótt. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með söguþráðinn, hann var nákvæmlega eins og myndin, og var mjög spennandi. Ég vissi hvernig bókin endaði og fann því ekki eins mikið af þessari spennu og ég hefði viljað, en náði samt að festa mig kyrfilega yfir henni. Það hlýtur að segja eitthvað um bókina. Ég varð hins vegar fyrir smá vonbrigðum yfir því að sagan skyldi vera nákvæmlega eins og myndin, meira að segja öll samtöl voru hér um bil nákvæmlega eins. Ég bjóst ekki við því. The Martian fær því eina eimreið og þrjá vagna frá mér. Auðlesin afþreyingar bók, en vel hægt að horfa bara á bíómyndina í staðinn.

Hits: 100