Líkfundur á Akranesi

 

Vann fyrsta Svartfuglinn2-Marrið í stiganumÍ síðustu viku kom út bókin Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur. Bókin vann fyrsta Svartfuglinn, verðlaun sem eru afhent höfundum sem eru að gefa út sína fyrstu glæpasögu. Svartfuglinn eru verðlaun sem spennusagnahöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson komu á fót í samvinnu við útgáfufyrirtæki sitt, Veröld, og verða afhent árlega.

Rannsóknarlögregla í togstreytu

Marrið í stiganum er grípandi bók. Fylgst er með Elmu, rannsóknarlögreglukonu sem er nýlega flutt aftur á Akranes þar sem hún ólst upp. Lík finnst við vitann á Akranesi og þar með hefst viðamikil rannsókn sem leiðir ýmislegt í ljós. Elma þarf að líka að kljást við atburði úr eigin lífi, sem hröktu hana aftur á Akranes. Það er í raun allt sem hægt er að segja um söguþráð bókarinnar án þess að skemma fyrir lesendum.

Persónur í bókinni eru margar og í byrjun eru þær kynntar mjög ört til sögunnar. Við hver skil í bókinni kynnist maður óljóst nýrri persónu. Það var örlítið ruglandi til að byrja með þar sem maður vissi lítið hver var hvað, eða hvaða hlutverk hver hafði. Þegar leið á bókina kynnist maður persónunum mjög vel og fer að geta getið sér til um tengsl þeirra á milli. Persónusköpunin í bókinni er djúp, að mínu mati. Maður fær að kynnst hverri persónu nokkuð vel og lesandinn fær tíma til að bindast persónum, að annað hvort elska eða hata persónuna. Sjálf fann ég til óbeitar á sumum persónum. Söguþráðurinn í bókinni var spennandi og mér fannst mjög erfitt að leggja hana niður.

Persónur úr nærsamfélaginu?

Sagan gerist á Akranesi, smábæjarsamfélagi þar sem allir þekkja alla og ef þú þekkir ekki einhvern þá hlýturðu að vera aðfluttur. Persónur í bókinni eiga nokkrar mjög erfitt samband við bæinn, það er togstreyta og ástar/hatur samband. Það sem ég tók með mér úr bókinni er að það er erfitt að búa í smásamfélagi, ef þú passar ekki fullkomlega inn í mótið. Nokkrar persónur voru staðalímyndir úr smábæjarlífinu; kallinn með of mikil völd, barnið sem lenti í einelti, sá sem reyndi að komast úr bænum eins fljótt og hægt var, sá sem var vinsæll í grunnskóla og lifir á fornri frægð. Mér fannst svo áhugavert að sjá þessar persónur ljóslifandi í bókinni.

Marrið í stiganum er góð glæpasaga. Fléttan er spunninn þétt, það var gaman að finna út leyndarmálin eftir því sem leið á bókina; sjá hverjir tengdust og hvers vegna. Sögulokin komu svo mjög á óvart. Eina gagnrýnin sem ég hef er að hún byrjaði hægt. Marrið í stiganum fær eina eimreið og fjóra lestarvagna, þar sem söguþráðurinn er skotheldur, persónusköpun fagmannleg að mínu mati og það var erfitt að leggja hana frá sér.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...