Tilfinningaþrungin rússíbanareið frá Nígeríu

alltsundrasMér finnst ég næstum óverðug að fjalla um Allt sundrast eftir Chinua Achebe. Bókin er talin eitt af höfuðritum afrískra bókmennta og skrifuð af Nígeríumanninum Chinua Achebe og kom fyrst út árið 1958. Við fylgjumst með sögu Igbo þjóðflokksins á þeim tíma er hvíti maðurinn tekur yfir Afríku með heimsvaldastefnu, yfirgengilegri frekju og menningaráhrifum. Ég ætla ekki að ræða um merkingu titilsins eða mikilvægi bókarinnar í bókmenntafræðilegu tilliti, enda algjörlega óhæf til þess. Þeir sem vilja glöggva sig frekar á áhrifum bókarinnar í bókmenntaheiminum geta kíkt á viðtal Magnúsar Guðmundssonar, blaðamanns Fréttablaðsins, við Elísu Björgu Þorsteinsdóttur þýðanda bókarinnar. Einnig er ágætis bókadómur um bókina á RÚV.is.

Að sökkva í bók

Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara að lesa þegar ég opnaði bókina fyrst. Það fyrsta sem mér datt í hug var að ég væri að lesa Íslendingasögu, nema frá Afríku. Andinn í bókinni var einhvern veginn þannig. Ég var ekkert of jákvæð fyrir bókinni fyrstu blaðsíðurnar, bjóst við þungri lesningu sem ég var ekki stemmd fyrir á þessum tímapunkti. Maður þarf stundum að vera í startholunum til þess að geta lesið eitthvað flókið. Fyrstu blaðsíðurnar voru því þungur róður, en svo allt í einu var ég komin á skrið og átti erfitt með að slíta mig frá Afríku.

Hvað ef?

Chinua Achebe 1930-2013 Nigerian Author

Okonkwo er stórmenni í ættflokki Igbo þjóðarinnar. Hann er harðduglegur, karlmannlegur og fylgir hefðum og siðum ötullega, sama hvað það kostar. Ég hafði yndi af því að lesa um hefðir og siði Igbo þjóðarinnar. Ég gat ekki komist hjá því að hugsa hvernig Afríka væri í dag ef hvíti maðurinn hefði ekki komið öllu í uppnám í álfunni. Mér fannst ég skynja togstreitu í bókinni. Achebe er sjálfur kristinn og alinn upp af kristniboðum. Hann gefur í skyn að eitthvað hefði þurft að breytast. Sum lögin voru einfaldlega of grimm. Sumir siðir nær ómannúðlegir. Hefðu þjóðflokkarnir breyst eitthvað ef hvíti maðurinn hefði ekki komið? Eða hefðu þeir fylgt þrjóskuhausum eins og Okonkwo sem fylgdu siðum og reglum út í hið óendanlega, jafnvel þótt það skaðaði þá sjálfa? Sem sagnfræðingur finnst mér þetta ótrúlega áhugaverðar spurningar. Ég hef alltaf verið svolítið heilluð af “Hvað ef?” pælingum, þótt það sé hálf tilgangslaust.

Allt sundrast

Bókin er þrískipt. Í fyrsta hluta hennar fylgjumst við með lífinu í þorpinu. Kynnumst lítillega þremur eiginkonum Okonkwo, lærum nokkra siði, fylgjumst með matarvenjum og uppskerum. Í öðrum hluta bókarinnar verður Okonkwo fyrir því óláni að brjóta af sér og þarf að fara í sjö ára útlegð með fjölskyldu sína. Í þriðja hluta snýr Okonkwo aftur í þorpið sitt og þá er allt breytt.

Tilfinningarót

Allt sundrast náði að vekja upp alls konar tilfinningar hjá mér á meðan ég las hana. Ég var forvitin, enda aldrei lesið neitt sem er skrifað af Afríkumanni og ég finn berlega að það er eitthvað sem ég þarf að rétta. Ég var forvitin um siði og venjur, um þjóðhætti og þjóðsögur. Ég varð örvæntingarfull þegar ég sá hvernig samfélagið var að breytast, ég var niðurlægð með Okonkwo og ég varð reið yfir óréttlætinu og frekjunni. Svo reið að ég hugsa að ég verði að bíða í nokkrar vikur með að lesa áfram sögu Igbo þjóðarinnar, en Allt sundrast er fyrsta bókin í þríleik.

Ég mæli hiklaust með Allt sundrast sem er þriðja útgefna bókin í áskriftarröð bókaútgáfunnar Angústúru. Ég hef áður dásamað Einu sinni var í austri og Veisla í greninu sem eru einmitt gefnar út af þeim. Mér finnst æðislegt að geta fengið vel þýddar heimsbókmenntir í gegnum póstlúguna og hlæ og tralla þegar nýjasta bókin dettur inn. Ég get flakkað á milli heimsálfa með bókunum frá Angústúru.

Lestu þetta næst

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....

Fangelsi hugans

Fangelsi hugans

Hvað ef þú værir geimvera? Og geimskipið þitt hefði skilið þig eftir á jörðinni, í venjulegri,...

Anniemenni

Anniemenni

Anniemenni (e. Annie bot) eftir Sierra Greer  Annie er vélmenni. Hún er með hleðslustöð í hælnum,...

Með iðrun úti

Með iðrun úti

Þrjár stúlkur á sautjánda ári pyntuðu skólasystur sína og kveiktu í henni í rólega breska...