Krummi Króm er bók sem rataði í hendur okkar mæðgina fyrir ekki svo löngu. Bókin kom út nýlega og er skrifuð af Ingibjörgu Kr. Ferdinandsdóttur, menntunarfræðingi og kennara, og myndskreytt af Hildi Björk Þorsteinsdóttur. Ingibjörg gefur bókina sjálf út en áður hefur hún gefið út barnabækurnar Keli minn sem hvarf og Leyndarmál Kela.
Krummi Króm er aðalsöguhetja bókarinnar. Hann sér Vilmu villisvín þar sem hún hegðar sér vægast sagt illa gagnvart litla apanum Gormi. Krummi vill hjálpa Gormi vini sínum að losna úr klóm hinnar gráðugu Vilmu sem heimtar alltaf meira og meira. Með góðum ráðleggingum frá Krumma Króm kemst allt í betra horf. Á hverri blaðsíðu er hægt að finna spurningar neðst á síðunni, eins konar vangaveltur.
Söguþráðurinn er einfaldur og textinn er flæðandi og þægilegur og myndirnar eru skemmtilega litríkar og ævintýralegar. Þegar við mæðginin lásum bókina saman vöknuðu alls konar spurningar sem var ótrúlega gaman að velta fyrir sér og pæla í. Það voru ekki bara spurningarnar á síðunum sem við veltum fyrir okkur, heldur spunnust út frá þeim dýpri spurningar og vangaveltur sem var ótrúlega gaman og fróðlegt fyrir bæði börn og fullorðna að velta fyrir sér. Lærdómurinn með bókinni er líklega sá að maður má ekki eingöngu þjóna öðrum, það er ekki að vera góður. Maður þarf líka að hugsa um sjálfan sig og vera góður við sjálfan sig. Þetta eru síður en svo óþarfar vangaveltur nú þegar skólarnir byrja og sum börn standa veikari fótum gagnvart öðrum og kunna kannski ekki að segja nei. Það er mikilvægt að kunna að segja “nei, ég vil ekki núna”, hvort sem maður er barn að byrja í skóla eða löngu orðinn fullorðinn.
Við mæðginin mælum með bókinni, sérstaklega fyrir krakka á aldrinum 5-8 ára sem hafa kannski lent í klónum á einhverri Vilmu villisvíni.