Ég játa mig fáfróða þegar kemur að bókaútgáfu síðustu ára. Á meðan á háskólanámi og barnaeignum stóð var sjaldan tími fyrir þann lúxus að glugga í bók. Vegna þess hve hrikalega ég var dottin úr hringiðu bókútgáfu hélt ég að Rotturnar eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur væri “fullorðins”-bók. Ragnheiður vann íslensku barnabókaverðlaunin árið 2015 fyrir bókina sína Skuggasaga: Arftakinn sem hún hefur svo skrifað framhald af (Skuggasaga: Undirheimar) og svo hefur hún haldið áfram að skrifa unglingabækur. Rotturnar er þriðja bók hennar og er frábær unglingabók. Ef ég á að segja alveg eins og er þá hafði ég hrikalega gaman af henni líka þrátt fyrir að vera komin á fertugsaldurinn, enda hörkuspennandi bók.

Í Rottunum segir Ragnheiður sögu nokkurra unglinga, þar sem hin sextán ára Hildisif er aðalpersónan. Hildisif er nýlega flutt aftur til Íslands eftir að hafa búið í nokkur ár í Finnlandi og Svíþjóð. Mamma hennar fékk frábært atvinnutilboð frá stóru íslensku fyrirtæki sem nýtur mikillar velgengni. Hildisif fær sumarvinnu hjá fyrirtækinu í vinnubúðum úti á landi þar sem hún kynnist Flexa, Garra og Garúnu. Hildisif og vinir hennar eru valin ásamt fjórum öðrum til að sinna sérverkefni í afskekktu sæluhúsi þar sem allt breytist skyndilega og Hildisif og hinir krakkarnir þurfa að berjast upp á líf og dauða.

Það sem heillar mig allra mest við bókina er hve vel Ragnheiði tekst til við persónusköpunina. Þótt persónurnar séu svolítið klisjukenndar og maður þekki nokkrar þeirra úr amersískum unglingaþáttum, þá finnst mér Ragnheiður hafa náð að setja íslenskan vinkil á þær og náð að gera þær örlítið dýpri en gengur og gerist í amerískum unglingaþáttum af Netflix. Flexi er íþróttamannslegur  myndarlegur en samt hálf misheppnaður, Garri er vandræðagripur en samt ekki bara það, Garún er rebellinn með öll prinsippin en er þó tilbúin að beygja þau fyrir vini sína og Hildisif virðist við fyrstu sýn vera hin hreina og góða.

Þótt atburðirnir í bókinni séu nokkuð langsóttir, þá eru viðbrögð persónanna alltaf mjög sannfærandi. Ég get vel séð fyrir mér að það sé auðvelt að skapa virkilega góða sjónvarpsseríu upp úr bókinni, án þess að vita neitt um sjónvarpsþáttagerð. Mér fannst allt bara svo myndrænt í bókinni og samtölin góð. Söguþráðurinn er dularfullur og fyrir sagnfræðinörd með blæti fyrir farsóttum þá var svartidauðinn algjört gull. Mér fannst ég stundum vera að lesa um tilraunir hjá fyrirtæki eins og DeCode, nema með illar fyrirætlanir og kvenkyns forstjóra. Ekki það að ég viti neitt um fyrirætlanir DeCode eða siðferðisstefnu þeirra. Nafnið á bókinni hafði fyrir mér tvöfalda merkingu og það hefur ef til vill verið ætlun Ragnheiðar. Flær af rottum voru smitberar svartadauða, en í bókinni er átt við annars konar rottur.

Bókin hefur allt sem góð unglingabók þarf að bera, vináttu, spennu, ást og baráttu gegn yfirvaldinu. Ef ég rifja upp unglingsárin þá rámar mig í að ég hafi haft gaman af svona bókum þá. Og hef það enn. Bókin er hörkuspennandi og grípandi og persónusköpunin er sannfærandi. Ég mæli klárlega með Rottunum fyrir alla unglinga og líka fyrir fullorðna, sem vilja lesa hreina, auðlesna afþreyingu og hafa, eins og ég, lúmskt gaman af því að lesa unglingabækur.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...