Hljóðbók, pappír eða rafbók?

Hvort er betra að hlusta á hljóðbók eða lesa bókina á pappír? Nú eða lesa hana sem rafbók? Það er í raun ekkert eitt svar sem segir manni hvað sé best, eins og allt í þessum heimi er það háð aðstæðum hvað hentar að hverju sinni. Það er háð því hverju maður vill ná fram með lestrinum eða hlustuninni. En ég er búin að vera mjög hugsandi yfir þessu öllu saman. Þegar ég hef spjallað við fólk um lestur, hvað það sé að lesa, þá segir það oft í afsakandi tón: “Ja, ég var að lesa… eða sko ég var að hlusta á [einhver áhugaverð bók], en það kannski telst ekki með”. Alltaf er varnaglinn settur fyrir að það teljist kannski ekki með að hlusta á bókina, það sé ekki alvöru lestur.

Hljóðbókin og eftirtektin

Er það alvöru lestur að hlusta á bókina? Í grein sem birtist hjá tímaritinu Time síðasta haust er talað um muninn á milli þessa að hlusta á efni og lesa það. Höfum í huga að rannsóknirnar könnuðu hlustun eða lestur á efni til náms. Munurinn var nokkur í tilraununum sem vísað er til í greininni. Svo virðist sem nemendur hafi lært meira af því að lesa efnið, af því að það gefur auganu tækifæri til að stökkva fram og til baka í textanum, öll athygli er bundinn við lærdóminn og það er skýr stefna og endapunktur í efninu, það er að segja; nemandinn veit hve margar blaðsíður eru eftir af efninu. Þeir sem hlustuðu á efnið stóðu sig nær alltaf verr í prófunum. Í greininni er talað um hvernig augun hvarfla til og frá um textann til að skilja merkingu táknanna og þýðingu orðanna og túlka þau, en einnig um það hvernig hugurinn getur dottið út á einhverju tímapunkti og þá þarf nemandinn að finna aftur staðinn þar sem hugur hvarflaði frá og byrja aftur. Það er óneitanlega auðveldara að finna aftur réttan stað í textanum, en erfiðara ef um upptöku er að ræða. En aftur: Höfum í huga að hér er rætt um fræðibækur, efni sem á að læra af.

Að “múltí-taska”

Oftar en ekki hef ég spurt fólk sem hlustar á bækur af hverju það velur að hlusta. Það verður að segjast eins og er að konur eru í meirihluta þeirra sem ég hef rætt við um þetta, og þær nefna nær alltaf að það sé svo notalegt að geta hlustað á góða bók og prjónað/heklað/föndrað/sinnt matseld á sama tíma. Aðrir hafa nefnt að það sé gott að getta nýtt tímann þegar keyrt sé til vinnu til að njóta góðrar bókar. Sumir keyra í klukkutíma til að komast til vinnu. Og skyndilega gerði ég mér grein fyrir að ég geri nákvæmlega þetta, nema ég hlusta á hlaðvarp. Sumir velja að sitja við sjónvarpið og horfa á ameríska þætti og sinna hannyrðum. Án þess að gera lítið úr sjónvarpsglápi þá væri líka hægt að velja að hlusta á hljóðbók. David Willingham, prófessor í sálfræði við Háskólann í Virginíu framkvæmdi rannsókn á því hver munurinn sé á því að hlusta á hljóðbók og lesa bók. Hans niðurstaða er sú að hljóðbókin er ekki verri, sérstaklega ef um yndislestur er að ræða. Hlustandinn nær söguþræðinum, nær orðaforðanum og skemmtir sér í leiðinni.

Í skemmtilegum pistli á Wired.com eru góð rök færð fyrir því að líta ætti á tilkomu hljóðbókarinnar sem jákvæða breytingu. Hljóðbækurnar séu góð samkeppni við endalausan klið annarra miðla og henti vel inn í samfélag þar sem vaxandi þörf er á því að “múltí-taska”. Svo má deila um það hvort að manneskjur ættu yfirleitt að “múlti-taska”, eða bara reyna að hægja á og sinna einu í einu. Það er samt útópísk hugmynd í því samfélagi sem við búum við.

Hljóðbækurnar og krakkarnir

Ég verð að viðurkenna að reynsla mín af hljóðbókum er ekki mikil, en ég styð þær heilshugar. Við fjölskyldan fengum okkur aðgang að Storytel fyrir stuttu og nutum þess að hlusta á hljóðbækur yfir kvöldmatnum. Skemmtilegast þótti okkur þegar höfundarnir sjálfir lásu bækurnar. Það er líka eitthvað sem ætti að hafa í huga þegar einhver segist hafa “bara hlustað” á bókina, krakkar eru alltaf að hlusta á það sem sagt er í kringum þau. Sumir eiga, af einhverjum ástæðum, erfitt að lesa bækur og kjósa fremur að hlusta á bókina. Um leið og við segjumst “bara hlusta á bókina”, erum við þá ekki á sama tíma að gera lítið úr þeim sem eiga erfitt með lestur af blaði? Tölum ekki niður hljóðbækurnar.

Túlkun og leikræn tilbrigði

En hver er þá munurinn á því að hlusta á bókina og lesa hana? Í greininni úr Time sem vísað er í hér að ofan er talað um það hvernig lesarinn túlkar textann fyrir hlustandann. Blæbrigði raddarinnar geta komið til skila kaldhæðni, kímni, sorg og öðrum tilfinningum sem lesandi hefði þurft að túlka sjálfur í gegnum lesinn texta. Svo má færa rök fyrir því að það séu blæbrigði sem innri rödd lesanda hefði hvort eð er komið með, svo því ekki að sleppa því millistigi? Já, því ekki? Orðaforðinn kemst til skila, manneskja sem annars hefði ekki komist yfir að lesa bókina nær að hlusta á hana og skilja söguþráðinn og er þá ekki takmarkinu náð? Bókmenntunum komið til skila?

Hljóðbókasafnið

Miðlar sem bjóða upp á hljóðbækur eru kannski ekki margir á Íslandi en ég vil trúa að það sé vaxandi markaður fyrir þær. Ef það ætti að nefna eitthvað þá er það til dæmis hljóðbókasafnið. Galli á þeirri síðu er þó sá að hún er eingöngu aðgengileg þeim sem geta sýnt fram á vottorð þess efnis að geta ekki lesið bækur. Storytel hefur verið sýnilegra síðasta árið, með ótal góðar hjóðbækur í safninu, en mánaðarlegt gjald þar er 2.790 krónur, miðað við 2.000 króna árgjald hljóðbókasafnsins. En svo er hægt að kaupa stakar hljóðbækur, til dæmis á heimasíðu Forlagsins, á hljodbok.is, og á hlusta.is.

Rafbækur og lesbretti

Svo eru það rafbækurnar! Sjálfri finnst mér æðislegt að lesa bók af lesbretti. Það er létt, meðfærilegt, með stækkanlegum og minnkanlegum texta, lesbrettið kemst auðveldlega fyrir í veski og auðvelt að hoppa inn og út úr bókinni. Ég las allar Game of Thrones bækurnar á lesbretti og tók varla eftir því að bækurnar eru hver yfir 700 blaðsíður. Hver blaðsíða á lesbrettinu er eins, og skammt er í næstu flettingu.

Bókasöfnin láta ekki sitt eftir liggja í þessum málum. Flest íslensk bókasöfn bjóða lánþegum sínum aðgang að íslenska rafbókasafninu, það eina sem þarf er bókasafnskort og lykilorðið að kortinu. Gallinn er þó að ekki er hægt að fá lánaðar bækur í Kindle-lesbretti (sem er kannski fremur vandamál hjá Amazon). En þá kemur Forlagið til bjargar því það býður upp á rafbækur á íslensku hjá Amazon. Þar fyrir utan er líka hægt að kaupa rafbækur á heimasíðu Forlagsins.

Það er sama hvaða leið þú velur til að njóta bókar, farðu og njóttu hennar! Segðu frá því sem þú last, talaðu um það.  Ég trúi því að minnsta kosti að ávinningur í gegnum bókalestur (í víðri merkingu) sé ómetanlegur. Hvað sem þú lest! Fræðibækur, glæpasögur, fagurbókmenntir, ljóð. Njóttu bókmenntanna og segðu frá þeim!

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...