Fallega skrifuð en dálítið flöt

Penni: Erna Agnes

Enn einn dagurinn og ég er ennþá að glíma við afleiðingar inflúensunnar. Þessi inflúensa var algjör hryllingur en hún gaf mér þó tíma til að lesa í rólegheitum á daginn þegar ég gat bókstaflega ekkert annað gert. Ljósið í myrkrinu ef svo má segja. Fyrir stuttu skrifaði ég færslu um Sakramentið hans Ólafs Jóhanns og líkaði mér hún afskaplega vel. Ég byrjaði samstundis að lesa aðra bók Ólafs enda var ég að uppgötva þennan ritsnilling nú í fyrsta sinn, ótrúlegt en satt. Við tók Endurkoman.

Sagan fjallar um taugalæknin Magnús Colin sem er hálfur Íslendingur og hálfur Breti. Margrét móðir hans er píanóleikari og hyggur á mikilfenglega endurkomu í tónlistarheiminum en hún ásamt föður Magnúsar, Vincent, hafa eytt mörgum árum í að taka upp hvert meistaraverkið á fætur öðru. Nú væri tími hennar kominn og þvílíkar móttökur sem hún fékk! Í gegnum lestur bókarinnar kemur hins vegar ýmislegt í ljós; meðal annars sú skoðun Vincent að Margrét hafi aldrei fengið tækifæri á að láta ljós sitt skína og hafi beinlínis verið haldið utan við tónlistarheiminn af öfundsjúkum óvildarmönnum.

Fjölskylduerjur og efasemdir

Undir niðri þessari atburðarrás kraumar einnig óleyst fjölskyldudeila en Magnús hefur aldrei verið í miklu sambandi við foreldra sína og neitar meðal annars að kalla þau mömmu og pabba. Hann lítur á föður sinn sem svikara og líður eins og móðir hans hafi ekki viljað hann.

Eftir því sem sögunni vindur áfram vakna spurningar um hvort hann hafi alltaf séð þau í réttu ljósi og hvort hann hafi dæmt þau of harkalega. Á meðan á endurkominni stendur er Magnús einnig að rannsaka unga konu sem lent hefur í slysi, læst inn í eigin líkama, en koma hennar á spítalann stráir salti í ógróin sár eftir að Magnús missir ástina í lífi sínu.

einfaldleiki og nákvæm innsýn

Sagan er skrifuð í einskonar minningarstíl. Hugsanir sögupersónunnar flakka fram og til baka, allt aftur til barnæsku. Þannig kynnist maður þessum manni sem virðist hafa náð mjög langt á sínu sviði en þó ekki tilfinningalega, ekki fyrr en í seinni tíð. Bókin er mjög vel skrifuð og í ljóðrænum anda Ólafs. Skrifin eru einföld og ekki of flúruð. Undirtónn sögunnar var alvarlegur og alltaf bjóst ég við miklu uppgjöri. Ég get þó ekki sagt að það hafi verið mikill uppgangur í sögunni. Hún var dálítið flöt allan tímann og ekki mikið gerðist. Endurkoma móður Magnúsar og niðurstaða hennar kom mér ekki á óvart og bjóst ég hálfpartinn alltaf við þeim endi sem koma skyldi. Að því sögðu var þetta notaleg lesning sem krafðist ekki mikils af lesandanum. Ólafur veitir hér einfaldlega innsýn inn í líf ungs manns á krossgötum og þá erfiðleika sem fjölskyldan getur skapað manni.

 

 

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...