Smásögur í febrúar

Annar mánuður ársins er runninn upp, með sínum tuttugu og átta dögum. Febrúar er stysti mánuður ársins og því finnst okkur í Lestrarklefanum tilvalið að beina kastljósi okkar að smásögum. Smásögur eða smásagnasöfn hafa fengið aukna athygli síðustu ár, bæði frá forlögum, við verðlaunaafhendingar og hjá höfundum sjálfum. Skemmst er að minnast þess að Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut Fjörðverðlaunin fyrir bók sína Ástin Texas núna í janúar.

Smásaga er, eins og nafnið gefur berlega til kynna, stutt saga. Miðað er við að smásaga geti verið lesin í einni setu. Sjálf hef ég ekki lesið margar smásögur, en kolféll fyrir forminu fyrir nokkrum mánuðum síðan eftir að ég las Raddir úr húsi loftskeytamannsins eftir Steinunni G. Helgadóttur. Í smásögu finnst mér ekki eins mikil þörf á því að hafa of niðurnjörvaðan söguþráð, þær eru einhvers konar gægjugat inn í líf sögupersónu. Það er kannski dulin þýðing í sögunni en það er undir hverjum og einum komið að finna þýðinguna. Ég efast satt að segja um að allir höfundar setji dulda meiningu í smásögurnar sínar. Sumar sögur ættu bara að fá að standa stakar og stuttar og vera eingöngu til þess fallnar að veita lesandanum ánægjuna við að gægjast stutt inn í líf sögupersónu sem stendur kannski frammi fyrir stórri ákvörðun eða við fáum bara að fylgjast með persónu sem á líf sem er svo frábrugðið okkar. Höfundar gefa stundum út smásagnasöfn þar sem einhverjar sögurnar tengjast kannski lítillega innbyrðis. Ef manni líkaði við persónuna þá er það svolítið eins og að fá ljúfan koss. Smásagan er skemmtilegt sagnaform.

Við hvetjum ykkur, kæru lesendur, til að lesa með okkur. Hvaða smásögur eða smásagnasöfn hafið þið lesið? Hverju mælið þið með að aðrir gefi gaum? Þið getið skilið eftir ummæli hér að neðan og sagt okkur frá því sem þið hafið lesið, eða taggað bók á Instagram, Twitter eða Facebook með #lestrarklefinn. Okkur hlakkar til að heyra frá ykkur.

Hér eru nokkrar smásögur sem hægt er að lesa ókeypis í gegnum internetið. Þarna er meðal annars að finna smásgöu eftir Isabel Allende og Stephen King.

Í lok mánaðarins sendum við út hlaðvarp í samstarfi við Kjarnann tengt smásagnaforminu með góðum viðmælendum.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?

Er þetta gaman?  Félagsskapur með sjálfum mér í Tjarnarbíó Á sviðinu er legubekkur, örfáar bækur,...