Sofðu ást mín er smásagnasafn eftir Andra Snæ Magnason sem kom út haustið 2016. Bókin vekur upp margvíslegar tilfinningar hjá nútíma Íslendingnum. Í því eru sögur sem lýsa íslenskum samtíma og aðstæðum síðustu 30 árin, fyrir og eftir hrun, frá barnæsku uppfulla af kjarnorkuógn og ástarsögur sem snerta við strengi hjartans.

Fjölbreytilegar sögur

Mismunandi sjónarhorn einkenna sögurnar, höfundurinn beitir sjónarhornum til að draga fram mismunandi áherslur. Í smásögunni „Sofðu ást mín“ er sagan sögð í annari persónu þar sem ungur maður leitar eftir orði til að lýsa ást sinni á kærustunni sem hann ávarpar sem „þú“ alla söguna: „Svefninn er eiginlega það eina sem við eigum sameiginlegt núorðið. Samt er langt síðan mig dreymdi þig.“ (bls. 39) Sagan er virkilega falleg og hjartnæm, lýsir kvíða og þunglyndi ungs manns við að hafa gengisfellt orðið „að elska“ og þráir að setja ást sína í orð sem hann getur verið stoltur af.

Hættulegt og fagurt hálendið

Í sögunni „Randaflugan“ segir frá ungri stelpu og hennar upplifunum í fjallaferð með foreldrum sínum og litla bróður. Hálendi Íslands er fagurt og hættulegt, séð frá sjónarhorni barns, þetta er saga sem margir Íslendingar ættu að tengja við. Randaflugan sem hún finnur, lífið þar sem ekkert líf á að vera mögulegt, heldur lífi í gegnum söguna þar til stúlkan sleppir henni á eyðilegum stað uppá hálendi. Flugan flýgur beint í átt að „sprungnum jökulsporðinum.“ (bls. 20) Það má sjá randafluguna sem Íslendinginn sem sækist alltaf aftur í dáleiðandi fegurð og hættur hálendisins.

Allt er gott sem endar vel

Næst síðasta sagan í safninu er „Hamingjusagan“ sem stendur algjörlega uppúr, og er virkilega vel staðsett í safninu. Þar segir frá manni sem fer til sálfræðings til að létta af sér frásögn um framhjáhald og hvernig hann komst í gegnum kreppuna með því að segja upp öllum starfsmönnunum sínum á arkítektúrstofu. Lesandinn heldur að hér sé enn ein saga um ömurleika kreppunnar og framhjáhalds sem virðist hafa einkennt þessi ár ef mark má taka á sögunum „Rex“ og „Wild Boys“. En svo er ekki, í lok sögunnar kemur í ljós að maðurinn hefur verið að tala um konuna sína allan tímann og er í rauninni að lýsa þeirra leið til að halda sambandinu þeirra spennandi og hvernig þeim tókst að leyfa ástinni að lifa í öll þessi ár. „Og svo finnst mér allar bækur fjalla um óhamingju, svik, vonbrigði og dauða og greddu sem beinist í vitlausa átt svo ég varð bara að fá að segja einhverjum frá þessu,” (bls. 130) það er einmitt þessi tilfinning sem lesandi Sofðu ást mín er farin að finna fyrir við lok bókarinnar. Það er því mjög hressandi og áhrifaríkt að spila út þessari yndislegu sögu svona rétt undir lok safnsins.

Lýsandi fyrir íslenskt samfélag

Í heildina litið er Sofðu ást mín innilegt smásagnasafn sem er einstaklega lýsandi fyrir íslenskt samfélag. Ákveðinn sannleikur liggur í textanum um ástina, dauðann og öngstræti uppsveiflunnar og kreppunnar. Safnið málar upp raunsæislega mynd af veruleika sem auðvelt er að tengja við, sama á hvaða stigi lífsleiðinnar manneskja er.

 

Hits: 122