Hægt er að lesa söguna inn á tímarit.is en með því að ýta á nafn sögunnar hér í þessari grein þá færist lesandi beint inn á smásöguna sjálfa. Tæknin er hér svo sannarlega af hinu góða, eins og svo oft reyndar.

Það þóttu tíðindi þegar tímaritið Líf og list birti árið 1951 smásögu eftir kvenrithöfund. Sú var Ásta Sigurðardóttir sem átti seinna meir eftir að setja sitt mark á bókmenntasögu þjóðarinnar með ljóðum sínum og smásögum. Smásaga sú sem birtist í tímaritinu var hennar frægasta verk og það verk sem kom henni á framfæri: Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns. Einfaldur titill sem lýsir nákvæmlega sögusviðinu.

Sagan byrjar í partýi þar sem unga söguhetjan, nefnd Ásta, finnur sig í aðstæðum sem hún ræður ekki við. Ölvuð og hömlulaus lítur hún í kringum sig og upplifir sig sem illa gerðan hlut; konu sem dómarar heims og helju nefna skækju og druslu. Hún passar ekki í hið hefðbundna kvenform og rýmið rúmar ekki anda hennar, hún ögrar og hún veit það. Skrítinn fugl gæti einhver sagt; listamaður segir annar.

Á undan sínum tíma

Sagan tekur þó á málefni sem verður að teljast mjög sjaldgæft umfjöllunarefni á þessum tíma; kynferðislegu ofbeldi sem söguhetjan verður fyrir á einhverjum tímapunkti frá sunnudagskvöldi fram á mánudagsmorgunn. Gerandinn, maður sem hún treystir, föðurlegur og vænn, kemur henni til bjargar eftir að hún hefur lent upp á kant við gesti boðsins og er hent út. Hún er einmana og hrakin, köld og sorgmædd. Þarna kom hann; ljós í myrkrinu. Ljós sem reyndist ekki vera neitt annað en smá týra sem slökknaði um leið og færi gafst.

Gerandinn og fórnarlambið. Við þekkjum þessa sögu, sérstaklega nú á 21. öldinni þegar Metoo byltinginn hefur kennt fórnarlömbum að hafa hátt. Loksins er tími fórnarlambanna kominn. Á þeim tíma sem Ásta ritar þessa smásögu var enn langt í land. Fórnarlömb áttu sér nánast engan málsvara innan samfélagsins. Aðalpersónan tekur á sig skömmina líkt og svo margar aðrar hafa gert og gera enn.

Með hennar orðum:

Þarna kom ég eins og djöfullinn holdi klæddur og freistaði þessa manns sem leit út eins og postuli og var ábyggilega grandvar hversdagslega.

Þessi saga er klassík og hún sýnir hversu ótrúlega góður rithöfundur Ásta heitin var. Hún var á undan sinni samtíð að mörgu leyti, að minnsta kosti finnst mér það miðað við hvernig hún skrifar. Hún er hispurslaus í lýsingum sínum og beinskeytt. Ekkert er falið. Hún opinberar sig og aðstæðurnar inn að beini. Þetta er ekki bara saga af konu í partýi; þetta er sönn saga af veruleika sem allt of margar konur þekkja en hafa ekki fengið rými til að ræða fyrr en núna. Ásta tók skrefið árið 1951. Í rauninni er ótrúlegt að hún hafi fengið þessa sögu birta á þessum tíma en sem betur fer þá birtist hún og lagði þannig enn einn steininn í þann grunn sem síðar átti eftir að verða að byltingu.

Hits: 2303