Hin hliðin – Örsögur í regnbogans litum

Fyrir nokkrum árum síðan hringdi í mig góður vinur minn til margra ára. Hann var sumsé skilinn við konuna sína og kominn út úr skápnum. Þetta þótti okkur tilefni til mikilla fagnaðarláta, ekki að hann væri skilinn heldur að hann væri loksins orðinn hann sjálfur, orðinn frjáls til að lifa því lífi sem honum hafði dreymt um og hann fæddur til að lifa.

Síðan eru liðin 10 ár og þó margt hafi þá þegar áunnist í baráttu samkynhneigðra á þeim tíma þá er það orðið enn betra í dag og baráttan heldur áfram og gerir samfélagið opnara og umburðarlyndara. Það er því kannski fjarri þeirri kynslóð sem heldur út í lífið í nútímanum að þetta hafi ekki alltaf verið svona, að menn og konur hafi ekki alltaf getað hringt í vini og vinkonur og skálað í tilefni þess að vera gay! Ég man þegar ég var krakki seint á áttunda áratugnum og snemma á þeim níunda þá þótti samkynhneigð furðuleg og þeir einstaklingar sem voru haldnir slíkum furðulegheitum ekki húsum hæfir. Í minni sveit voru menn sagðir sódó og þetta var jafnvel talið smitandi. Ég man sérstaklega eftir einum manni í nærliggjandi kaupstað sem klæddi sig alltaf í kjól á sunnudögum og setti á sig varalit. Fólkið hans reyndi eftir öllum mætti að fá hann lagðan inn á Klepp. Sveitungarnir vildu samt meina að þessi maður væri „eðlilegur að öðru leyti“ en samneyti við hann þótti samt ekki æskilegt ungu fólki og sérstaklega ekki börnum. Ég man eftir einum dreng í sveitinni sem átti frekar framúrstefnulega foreldra og þau þurftu að senda drenginn til ömmu sinnar í Reykjavík og fengu far fyrir hann með þessum svokallaða furðufugli.

Ég hafði þá, átta ára gömul, agalegar áhyggjur af því að hann myndi smita vin minn af þessu óeðli og faldi alla kjóla sem ég átti þegar hann kom í heimsókn.

Það er því ekki furða að Guðjón Ragnar Jónasson, sem er fæddur 1974, hafi veigrað sér við að koma út úr skápnum og viðurkenna fyrir guði og mönnum að hann væri gay. Þetta voru nefnilega viðsjárverðir tímar fyrir homma og lesbíur og samfélagið fordæmdi þetta allt fram á þessa öld. Og enn finnast leifar af fordómum þó sem betur fer séu þeir á undanhaldi með aukinni þekkingu og fræðslu. Að vera bóndi þar að auki og koma út úr skápnum hlýtur að hafa verið óhugsandi tilhugsun fyrir Guðjón, það er ekkert íslenskara og rótgrónara en bændamenningin okkar og samkynhneigð hefur eflaust ekki þótt sæma íslenskum bónda og það í umhverfi hinnar einu sönnu Njálu.

Bókin hans Guðjóns, Hin hliðin fjallar einmitt um þessa erfiðu en jafnframt spennandi tíma í sögunni okkar. Saga hinsegin fólks er áhugaverð, elja þeirra hinsegins fólks að skapa sér grundvöll er aðdáunarverð á meðan skömm hinna sem fordæmdu er mikil. Bókin skartar 47 örsögum, hálfgerðum prósum sem tengast allar og segja frá baráttu hinsegins fólksins í Reykjavík, fordómum, sársauka og gleði. Guðjón er angurvær í frásögninni og það tekst á í honum söknuður og fortíðarþrá og svo gleði yfir því að hafa fengið að upplifa þessa tíma og sjá árangurinn sem barátta samkynhneigðra hefur skilað okkur í dag.

Sögurnar eru grátbroslegar, þó viðfangsefnið sé erfitt glittir í kátínuna og gleðina sem ríkti og stemmingin á Laugavegi 22 birtist manni ljóslifandi.Jafnframt því að glugga í söguna sem var sögð á þessum fræga skemmtistað fer Guðjón enn lengra aftur í tímann, skoðar fornsögurnar og kemur með áhugaverðan en jafnframt krassandi vinkil á fornsögurnar og þá kappa Gunnar á Hlíðarenda og Njál á Bergþórshvoli. Og ég get vel ímyndað mér að um einhverja fauskana fari hrollur þegar þeir fornkappar eru bendlaðir við slíkt óeðli sem mörgum þeim eldri þótti samkynhneigð vera. Ég hefði allavega viljað hafa afa minn á lífi til að ræða þessar kenningar en hann trúði á þá kappa Njál og Gunnar, en karlar í kjólum fannst honum alveg út úr öllu korti.

En þetta var nú útúrdúr. Hin hliðin er yndisleg lesning, ég hefði svo viljað hafa bókina lengri og vona að Guðjón komi með aðra bók og enn meiri innsýn inn í þennan heim. Því við þurfum að vita meira. Kaflinn um HIV veiruna, tillöguna sem kom upp á sínum tíma, að hafa homma í einangrun og merkja þá til að forða heilbrigða fólkinu við smiti, kaflinn um gömlu dívurnar og Sódó standa upp úr. Ég vona svo sannarlega að það sé von á meiru. Svo má ég til með að benda á þýðingu Guðjóns á bókinni Mennirnir með bleika þríhyrninginn, hún er eiginlega skyldulesning.

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.