„Önnur bók um krókódíl,“ hugsaði ég þegar ég sá bókina um Krókódílinn sem þoldi ekki vatn eftir Gemmu Merino í íslenskri þýðingu Birgittu Elínar Hassell í hillum bókabúðainnar. Önnur bók, af því áður hafði ég notið þess að lesa bókina um krókódílsungann sem vildi bara borða krakkakjöt fyrir ekki svo löngu síðan. Svo virðist sem það sé að myndast hefð fyrir því að gefa út að minnsta kosti eina krókódíla barnabók á ári.

Ég var ekki svo viss um að ég  hefði pláss í hjarta mínu fyrir annan krúttlegan krókódíl. En litli krókódíllinn sem stendur með kútinn sinn, kvíðinn á svip á kápunni hvíslaði til mín að ég ætti að fletta bókinni.

Litli krókódíllinn með kútinn er ekki eins og bræður hans og systur. Hann er nefnilega ekkert hrifinn af vatni. Þau njóta þess öll að busla um í vatninu og að læra að synda. Að vera frábrugðinn er ekkert skemmtilegt, eða svo finnst litla krókódílnum. Þannig að hann ætlar að reyna sitt besta til að skora á sjálfan sig, kaupir sér kút og buslar í vatninu. En sullið á ekki við hann. Svo klæjar hann í nefið og hann hnerrar duglega og kemst að því að það býr eitthvað í honum sem ekki býr í bræðrum hans og systrum.

Þótt að krókódíllinn sé ekki góður í að synda þá kemur í ljós að hann er góður í einhverju allt öðru. Og það er lærdómur sem hægt er að ræða við börnin eftir lestur bókarinnar. Það er nauðsynlegt að muna að þótt maður sé ekki góður í einu, þá hefur maður alltaf sínu sterku hliðar. Litli krókódíllinn fann sína sterku hlið þegar hann hnerraði og uppgötvaði að þótt hann gæti ekki synt, þá gæti hann flogið og spúð eldi!

Það er eitthvað við bókina sem er svo innilega einlægt. Myndirnar eftir Gemmu Merino fylla bókina af einhverri hlýju og fallegu andrúmslofti. Samþætting texta og mynda er skemmtileg og nokkuð vel gerð, þótt ef til vill hefði mátt flétta textann betur inn í myndirnar. Þótt krókódílar séu eiginlega ein af ógeðfelldustu (en jafnframt stórkostlegustu) dýrum sem ég veit um, þá heillaði litli krókódíllinn mig algjörlega upp úr skónum.

Sérlegir álitsgjafar Lestrarklefans á barnsaldri kunnu líka vel að meta bókina. Þeir lásu hana saman, flissuðu að myndunum og mæla með bókinni. Þeir voru líka yfir sig spenntir yfir því að  mögulega kæmi önnur bók um dreka sem þyldi ekki eld.

Hits: 199