Að borða börn

Penni: Katrín Lilja

Mig-langar-svo-i-krakkakjotFyrir nokkru síðan áttum við mæðginin ferð í bókabúðina á Akranesi, sem er svo sem ekki frásögur færandi. Við erum þar næstum annann hvern dag. Í þessari ferð otaði amman (og starfsmaður bókabúðarinnar) að okkur barnabókinni Mig langar svo í krakkakjöt. Bókin er skrifuð af Sylviane Donnio, myndskreytt af Dorothée de Monfreid  og í frábærri þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur. Innti amman okkur eftir dómi á bókinni og tókum við mæðgin því við lesturinn.

Í bókinni fylgjumst við með Gretti, litlum krókódílaunga sem er alinn upp á banönum. Þarna fór ég strax að setja spurningamerki við efni bókarinnar. Krókódílar borða ekki banana! En alla vega, ég setti rökhugsunina í salt í smá stund. Grettir litli bítur það í sig einn daginn að hann vilji alls ekki borða banana. Hann vill bara borða krakkakjöt. Foreldrar hans reyna í örvæntingu að fá Gretti til að borða eitthvað annað. Þau kaupa handa honum risastóra pylsu, sem er ekki étin af krílinu þar sem hún er ekki úr krakkakjöti. Þau baka handa honum köku því honum finnst ekkert betra en sætindi. En Grettir lætur ekki gabbast og stendur fastur á meiningu sinni og vill bara krakkakjöt.

Að lokum gefst Grettir upp á foreldrum sínum og fer niður að ánni til að baða sig. Þar gerist hann svo lánsamur að hitta krakka! Grettir ætlar því að éta krakkann og svala þannig löngun sinni í krakkakjöt. Það fer þó ekki betur en svo að Grettir er niðurlægður. Krakkinn sveiflar honum á halanum, enda mikið stærri en litli krókódíllinn. Grettir ákveður því að snúa aftur til foreldra sinna og hefja bananaát að nýju svo hann geti orðið stór og sterkur, með það takmark að geta að lokum étið krakkakjöt.

Sá fimm ára sagði um bókina að hún væri fín. Það var hans dómur. Honum fannst gaman að láta lesa hana fyrir sig. Hvort hann samsamaði sig við þrá Grettis, að mega éta það sem hann vill, veit ég ekkert um. Mér varð að minnsta kosti hugsað til kvöldmatartímanna okkar þar sem samningaviðræður eru oft harðar og enda oftar en ekki á orðunum “þrjá bita í viðbót, svo máttu fara”. Bókin endar á að Grettir borðar matinn sinn svo hann geti öðlast sjálfstæði í matarvali. Mér finnst það ágætis boðskapur.

Bókin náði að minnsta kosti að heilla unga manninn og varð hún fyrir valinu þegar hann mátti velja bók til eignar nokkrum vikum síðar. Bókin er fallega myndskreytt, litrík og skemmtileg. Foreldrum ætti að þykja skemmtilegt að lesa þessa bók aftur og aftur, hún er einföld og þægileg til lestrar og eiginlega bara svolítið fyndin. Fyndin, þótt efnið sé grafalvarlegt.

 

Lestu meira

Í ástarsorg í Víetnam

Í ástarsorg í Víetnam

Það má með sanni segja að heimurinn hafi minnkað töluvert í pestarástandinu sem ríkir í heiminum. Ferðalög á milli landa liggja niðri að mestu og sjálf hef ég ekki ferðast út fyrir Íslandsstrendur síðan 2019, eins og eflaust flestir landsmenn. Það því dýrmætt að geta...