Vampírur, kvíði og þráhyggja

Vampírusögur hafa á síðustu árum fjallað frekar um ástarsamband vampíranna við mannfólk, sjáið bara Twilight bókaflokkinn. Reyndar má segja að þessi afskrímslavæðing vampíranna hafi byrjað miklu fyrr, jafnvel þegar Buffy vampírubani ákvað að leggja lag sitt við vampíruna Angel í hinum margrómuðu þáttum Buffy the Vampire Slayer sem ég var trúrækinn áhorfandi að í mörg ár. Vampírur eru mér því ekki ókunnar, en það hefur oftar en ekki verið í formi bíómynda eða þátta. Ég held að ég hafi aldrei lesið vampírubók áður. Síðan eftir að uppvakningar komu til sögunnar með sínum dystópíska bræðingi þá gekk ég í lið með þeim.

Fyrir stuttu kom út bókin Nocturnal Blood  sem er gefin út á ensku, á Íslandi af íslenskum höfundi.  Ástæðan fyrir skrifum á ensku sú að höfundur miðar að stærri markaði erlendis fyrir vampírubókmenntir og betri kunnátta höfundar á ensku fremur en íslensku. Þess má þó geta að Villimey Mist er íslensk að öllu leiti. Villimey Mist segir í viðtali við Skessuhorn að hún vilji færa vampíru sagnaheiminn nær því sem hann áður var, þar sem vampírur eru stórhættulegar, aldraðar verur sem engu eira. Sem sagt burt frá Twilight fantasíunni. Hún ræðir meira að segja þennan tilgang sinn í niðurlagi bókarinnar.

Á flótta með vampíru

Aðalsöguhetjann er Leia Walker, með vísun í Star Wars, og sögusviðið er Anchorage í Alaska. Leia er óframfærin, lögð í svæsið einelti og glímir við gríðarlegan kvíða og þráhyggju. Hún er mikill einfari þar til Sophie kemur til sögunnar. Sophie er jafnaldra hennar, töff og sjálfstæð og hún tekur Leiu upp í sína arma og lyftir henni upp yfir kvalara hennar. Leia hefur í fyrsta sinn á sinni skólagöngu eignast vin, þótt samband þeirra nái aldrei dýpra en almenn orðaskipti. En Sophie er henni vinveitt. Eftir stutt kynni Leiu við Sophie flytur Sophie í burtu. Fjórum árum síðar, þegar Leia er byrjuð í háskóla og enn buguð eftir einelti fyrri ára, er hún á heimleið þegar á vegi hennar verður ræningi. Ræninginn ógnar henni með hnífi en til allrar hamingju er henni komið til bjargar og þar er Sophie komin til sögunnar aftur. Sophie er núna vampíra og sýgur allt blóð úr ræningjanum. Hún segir Leiu hvar hún geti fundið sig, óski hún eftir frekari samskiptum. Forvitnin verður Leiu ofviða og hún hefur uppi á Sophie. Út fá fundi þeirra spinnst svo flóttasaga þar sem Leia og Sophie þurfa að berjast við ólíklegustu kvikindi. Þar koma til sögu uppvakningar (e. ghouls), vampíruveiðimenn, og Sangues (vampírusleikjur) og Renfields (með vísun í þjón Drakúla greifa úr skáldsögur Bram Stoker).

Hinar hörðu vampírur

Stíllinn í bókinni er ýktur, þungur af lýsingarorðum og miklum tilfinningasveiflum. Framan af fannst mér söguþráðurinn stefnulaus. Til dæmis voru tvö atvik í bókinni nokkuð lík, þar sem Leia þarf að leita skjóls með sofandi vampíru. En eftir því sem leið á bókina fór ég að sjá að söguþráðurinn var allt annað en stefnulaus, það var tilgangur með öllum litlu atvikunum og í lokin var flétta sem kom mér algjörlega í opna skjöldu og setti alla bókina í samhengi og fyllti upp í þær spurningar sem ég hafði um söguþráðinn.

Sögupersónurnar sjálfar eru öðruvísi en ég er vön. Leia er að mínu mati örlítið barnaleg, en það gefur kannski höfundinum bara möguleika á að leyfa lesandanum að fylgjast með henni þroskast hratt í næstu bókum. (Því það koma fleiri bækur um ævintýri Leiu og Sophie í vampíruheimum. Villimey sér fram á að serían verði þríleikur auk forsögu um Sophie.) Persónusköpun Sophie miðar að því að gera hana að óvæginni vampíru. Henni er lítið hugleikið um líf manna, þeir eru matur og lítið annað en það. En þó leynist undir hörðu yfirborðinu væntumþykja fyrir Leiu.

Í þessari fyrstu bók fær lesandinn lítið að kynnast öðrum vampírum, þótt aðeins glitti í aðrar sögupersónur. Yfirlýstur tilgangur Villimeyjar með sögunni er að draga í land með afskrímslavæðingu vampíranna sem hefur átt sér stað í öðrum sögum. Að vissu leiti tekst henni það, til dæmis þegar Sophie dregur lífið úr ræningjanum. Stundum fannst mér þó manneskjur í kringum þær vera hryllilegri en vampírurnar. Mér finnst bókin vel geta höfðað til ungmenna frá sextán ára aldri. Sumt efni í bókinni er ansi gróft og ofbeldisfullt, en það fór þó aldrei yfir velsæmismörk. Til dæmis eru ekki beinar lýsingar af verstu atburðunum, heldur er lesanda gefið færi á að ímynda sér hryllinginn.

Þegar yfir allt er litið þá finnst mér Villimey takast þokkalega að búa til vampírusögu og ég hlakka til að sjá Leiu þroskast í næstu bókum. Bókin er fáanleg sem rafbók, til dæmis á Amazon og í Nexus, ef lesendur vilja fremur lesa bókina af pappír.

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...