„Æ æ! Afsakaðu! Ég skal þá trúa á fljúgandi diska og svífandi hnífapör!“

Glæpasögur eru vinsælar með eindæmum. Það er hægt að finna glæpasögur í hverjum einasta bókaflokki og nánast hver einasti rithöfundur hefur skrifað einhverja slíka sögu, jafnvel meira að segja óvart. Stundum er glæpurinn augljós og í byrjun er hann framinn, atburðarás bókarinnar fer þá að stað og snýst um að upplýsa glæpamanninn. Stundum er glæpurinn óljós og ekki alveg vitað hver sé í raun og veru glæpamaðurinn þegar uppi er staðið. Gott dæmi um slíkt er Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, Jón Hreggviðsson stelur snæri og myrðir kóngsins böðul. Eða hvað?  Hvenær drepur maður mann og hvenær ekki og allt það.  Ég ætla ekki að fjalla um þá bók hér. Þó ég iði. Þið skiljið. Íslandsklukkan er bara fyrirbæri  sem slík.

Ég ætla að fjalla um Tinna og bókina Flugrás 714 til Sidney.  Bókaflokkurinn um Tinna og hans félaga er einn af þeim sem tikka í öll möguleg box. Þetta eru glæpasögur, framtíðarsögur, sorglegar sögur, fyndnar sögur, furðusögur, fordómafullar sögur, fordómalausar sögur.. ég gæti lengi talið upp.

Hergé var belgískur, fæddur í bænum, Etterbeek nálægt Brussel og hét réttu nafni Georges Prosper Remi. Hann byrjaði snemma að teikna og um tólf ára teiknaði hann myndir í fréttabréf og tímarit skátahreyfingarinnar í Belgíu. Það hefur margt verið skrafað um Hergé í gegnum tíðina, þó meira síðustu ár þegar bækurnar hans hafa verið teknar og skoðaðar með tilliti til breyttra  samfélagslegrar sýnar fólks og umræðu um hugtök eins og kynþáttafordóma, femínisma og staðalímyndir. En sitt sýnist að sjálfsögðu hverjum og einum.

Flugrás 714 til Sidney er 23. bók Hergés og sú næstsíðasta í röðinni. Hún byrjaði að koma út í Belgíu 1966, sem myndasaga í tímariti og svo í íslenskri þýðingu um tíu árum seinna. Bókin er eins og áður sagði margslungin, hún er vísindaskáldsaga, framtíðarskáldsaga, glæpasaga og svo er hún dulræn. Og eflaust væri hægt að finna fleiri vinkla. Í byrjun bókarinnar er Tinna og félögum, þeim Vandráði prófessor og Kolbeini skipstjóra, boðið af fluggreifanum Lasló Carreidas af fljúga með nýju þotu fluggreifans til Sidney með viðkomu í Djakarta. En fljótlega kemur í ljós að maðkur er í mysunni, herra Spælir sem er aðstoðarmaður fluggreifans reynist ekki allur þar sem hann er séður og flugvélinni ásamt meðlimum er rænt. Og þegar flugvélinni er lent af ræningjunum á Indónesísku eldfjallaeyjunni Pulau-pulau Bompa, kemur í ljós að höfuðpaurinn er enginn annar en sjálfur Rassópúlos, sá eitilharði og stórhættulegi glæpamaður sem Tinni hafði í öðrum sögum þurft að glíma við.

Rassópúlos hefur á sínum snærum skottulækninn og gúrúinn Krulla sem hefur það hlutverk að véla útúr Carreidas bankareikningsnúmer þess síðastnefnda en til þess að ná fram markmiði sínu hefur Krulli í fórum sér sannleikslyf sem hann sprautar í Carreidas í von um að Carreidas leysi frá skjóðunni. En algjörlega óvart sprautar hann þá báða, Carreidas og Rassópúlos og við tekur óborganleg atburðarrás þar sem skilin milli þess vonda og góða verða óljós og lesandinn veit í raun hvorki upp né niður.

Tinni og félagar sleppa úr prísundinni en þurfa að komast lífs af á þessari eyju, þeir rekast á Sigmiðil Transvald sem er á eyjunni til að rannsaka líf á öðrum hnöttum en hann er kominn í samband við guði innfæddra á eyjunni. Guðirnir hafa verið tilbeðnir öldum saman en reynast nú vera geimverur sem með hugarflutningi eru komnir í sambandi við vísindamenn á jörðu niðri.

Til að gera langa sögu stutta þá endar þetta allt með ágætum og þrautin leysist með þeim Tinna, Vandráði og Kolbeini í fararbroddi. Og auðvitað honum Tobba, hvíta hundinum hans Tinna sem reynist honum lífsbjörg í þessari bók sem og öðrum.

Þessi bók er stórmerkileg. Hún impraði á hlutum sem voru ekki mikið uppi á yfirborðinu á þessum tíma. Hún læðir að þeirri spurningu hvort verið gæti að það væri vitsmunalegt líf á öðrum hnöttum. Og ef svo væri hvort hægt væri með einhverjum hætti að eiga í samskiptum við þessar verur. Hergé fer framúr sér í tæknipælingum. Flugvél Carreidas er listilega framúrstefnulega teiknuð og að heyra raddir utan úr geimnum, inn í hausnum á sér, slíkar pælingar hefðu eflaust verið merktar sem geðveikislegt raus og viðkomandi lokaður inni. Bókin er dulræn og yfirnáttuleg og á þann hátt endurspeglar hún tíðaranda þess tíma sem hún er skrifuð á. Þetta er tími hippanna og ofskynjunarlyfja, Hare Krishna var allsráðandi afl hippanna og dáleiðsla og hið yfirskilvitlega var í tísku ef svo má segja.  Svo er þessi spurning gegnumgangandi í bókinni, hver er sá vondi þegar uppi er staðið.

Umræða samtímans um Tinna einkennist af pælingum um kynþáttamismunun í teikningum höfundarins, Hergé teiknar frumbyggja og aðra kynþætti svona en evrópubúa á annan hátt o.s.frv. Eg ætla ekki að fara út í þær kenningar. Að mínu mati endurspeglar Hergé þann tíðaranda sem var í Evrópu á þeim tíma er bækurnar voru skrifaðar og þá var fólk uppfullt af fordómum og vanþekkingu á þeim menningaheimum sem voru þeim framandi. Þannig var það og þannig er það enn. Við sem lásum Tinna, ég þar á meðal, tel mig ekki hafa hlotið skaða af lestri þessara bóka, eg tel mig fullfæra um að sjá í gegnum þann áróður ef áróður skal kalla sem sumir vilja meina að séu í þessum bókaflokki. Og svona til að nefna bókina Tinni í Kongó sem hefur verið bönnuð hingað og þangað, þessi bók seldist mest einmitt í Kongó á sínum tíma. Pólitískur rétttrúnaður er alltumlykjandi þessa dagana, megi hann ekki skemma Tinna. Nóg er nú samt!

Lestu þetta næst

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...

Næturbrölt

Næturbrölt

Í fyrra lásum ég og drengurinn minn bókina Tannburstunardagurinn mikli og vorum hæstánægð. Næsta...

Að ánetjast eldri konum

Að ánetjast eldri konum

Ég hef verið áðdáandi Evu Rúnar núna í þónokkur ár. Ljóðabækurnar hennar og örsagnasöfn hafa verið...