Spæjarastofa Lalla og Maju

Múmíuráðgátan er fimmta bókin í glæpasöguseríu sem nefnd er Spæjarastofa Lalla og Maju. Höfundarnir eru Martin Widmark og Helena Willis og alls hafa þau skrifað 27 bækur í þessum bókaflokki og eru hvergi nærri hætt. Múmíuráðgátan kom út í íslenskri þýðingu fyrir síðustu jól en mér skilst að sú sjötta, Bíóráðgátan, sé nýkomin í bókabúðir hérlendis.

Mér finnst algjör vitleysa að ekki megi flokka barnabækur sem glæpasögur, þessi bókaflokkur þeirra Widmark og Willis er mjög gott dæmi um einmitt bækur sem er kjörnar í þann undirflokk.

Lalli og Maja eru forvitnir og klárir krakkar sem elska góðar ráðgátur og í stað þess að láta sér leiðast í skólafríum hafa þau stofnað spæjarastofu sem sérhæfir sig í að leysa glæpamál og furðulegar ráðgátur. Á listasafninu í Víkurbæ er geymd 3000 ára gömul egypsk múmía og grunur leikur á að eina nóttina hafi þessi múmía vaknað til lífsins og stolið dýrmætasta málverki safnsins. Lögreglan stendur ráðþrota gagnvart þessu máli en Lalli og Maja  fara á stúfana til að komast að því hvað raunverulega hafi átt sér stað á safninu þessa nótt.  Ég ætla ekki að upplýsa meira um söguþráðinn, en plottið er æsispennandi og áhugavert og stendur fullorðins glæpasögum ekkert að baki. Við erum að tala um yfirnáttúrulega hluti, skelkaða safnverði og þaulreynda rannsakendur, einmitt það sem þarf til að gera góða sögu spennandi. Og ég er ansi hrifin af þessum krökkum. Þau gera flotta hluti sem kannski láta ekki mikið yfir sér en eru athyglisverðir þegar að er gáð.

T.d. í byrjun þegar fríið þeirra er að byrja og þau vita ekki alveg hvað þau eiga að taka sér fyrir hendur, þá fer Maja og kaupir dagblaðið til að lesa tíðindi dagsins og sjá hvað sé helst í fréttum. Þetta finnst mér flott. Krakkar eru nefnilega miklu meira meðvitaðir um umræðuefni og dægurmál okkar fullorðna fólksins en við höldum.

Ég er hrifin af þessum bókum og krakkar virðast líka vera hrifnir af þeim. Það má t.d. geta þess að á síðasta ári kom út bíómynd sem gerð er eftir fyrstu bókinni í röðinni. Þessar bækur eru mjög vinsælar á skólabókasafninu og stoppa stutt við. Aldurshópurinn, sem bækurnar eru miðaðar við, eru frá 6 til 10 ára en þau eldri hafa alveg skemmt sér við að lesa þær.

Letrið er stórt, myndirnar eftir Willis er flottar og litríkar og bækurnar eru mátulega langar fyrir yngri lesendur sem eru að byrja að fóta sig í lestrinum. Bækurnar eru ágætlega skrifaðar en höfundar falla ekki í þá gryfju að skrifa of barnalegan texta og gera þar með lítið úr lesandanum.  Og ég held einmitt að meðal annars þess vegna séu þessar bækur vinsælar, ekki bara hjá þeim yngri heldur líka hjá þeim sem aðeins eldri eru.  Og mottó bókarinnar er, ef þér leiðist, gerðu þá eitthvað í því!

 

Lestu þetta næst

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Martraðakennd en stórskemmtileg sorgarvegferð

Sorg og sorgarúrvinnsla, að sættast við dauðann, að sættast við það að vera ófullkomin manneskja með ófullkomin tengsl við aðra. Þetta eru aðalumfjöllunarefni Birnis Jóns Sigurðssonar í nýjasta leikverki hans Sýslumaður dauðans sem er nú í sýningu í Borgarleikhúsinu. 

Góðmæðraskólinn

Góðmæðraskólinn

Varst þú að eignast barn? Ertu bugað heima með ungviðið og langar bara í smá pásu frá serjósi,...

Glöggt er gests augað

Glöggt er gests augað

Fyrir nokkrum árum komst ég að því að finnsk kona að nafni Satu Rämö, sem búsett væri á Ísafirði,...

Jarðsyngdu mig

Jarðsyngdu mig

Ég fékk ljósbláa bók að gjöf. Framan á kápu stendur aðeins titill verksins með smáu, hvítu letri....