„Fyrr eða síðar gerist eitthvað hræðilegt“

Hin hæfileikaríka Samanta Schweblin.

Ég hóf lestur á Bjargfæri eftir Samanta Schweblin eftir að hafa heyrt góða hluti um smásagnasafnið hennar Mouthful of Birds og þessa fyrstu skáldsögu hennar, sem ber nafnið Distancia de rescate á móðurmálinu. Samanta er fædd árið 1978 í Buenos Aires í Argentínu en býr í Berlín í dag. Samtals hefur hún gefið út þrjú smásagnasöfn og tvær skáldsögur og hefur vakið mikla athygli um allan heim.

Bjargfæri er fyrsta bók hennar sem þýdd hefur verið á íslensku en Jón Hallur Stefánsson sá um þýðinguna sem kom út á dögunum hjá Sæmundi. Samanta var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík í apríl og birtust smásögur eftir hana í nýjasta Tímariti Máls og menningar í tilefni þess.

 

„Þetta er eins og ormar“

Á fyrstu blaðsíðu er lesandanum varpað inn í samtal á milli tveggja aðila; Amöndu, sem liggur á dánarbeði sínu, og David, stráks sem spyr hana spurninga og knýr hana áfram við að segja sögu sína. Amanda er að reyna að komast að því hvað kom fyrir hana. Hún sér ekkert, getur ekki hreyft sig en David segir henni að það sé útaf ormunum í líkamanum. Þau þurfa að „komast að því nákvæmlega hvar ormarnir koma til.“ (9)

Það er mikill drungi yfir þessu upphafi, lesandanum er hent út í djúpu laugina og hann þarf að ná áttum á næstu blaðsíðum. Upp hefst frásögn Amöndu af dvöl sinni í sumarleyfi í sveitinni með dóttur sinni Ninu. Þar kynnist hún heillandi rauðhærðri konu, Cörlu, sem á furðulegan dreng, David. Carla segir henni hryllilegar sögur af syni sínum og varpar upp óhugnalegri mynd af sveitaþorpinu sem þær eru staddar í. Það er eitthvað yfirnáttúrulegt í andrúmsloftinu.

Órói liggur yfir allri frásögninni þar sem David reynir að leiða Amöndu að mikilvæga vendipunktinum í sögu hennar. Hann biður hana að gæta allra smáatriða en reynir að hraða frásögninni þegar eitthvað er ekki mikilvægt samkvæmt honum. Allt sem David segir er skáletrað í textanum sem eitt og sér eykur vægi þess sem hann segir og gerir hann draumkenndan og dularfullan.

 

Innan Bjargfæris

Kápa ensku útgáfunnar finnst mér einstaklega flott.

Amöndu er mjög annt um dóttur sína, Ninu, og passar að hún sé ávallt í bjargfæri, þ.e. innan þeirrar vegalengdar sem Amanda getur stokkið til og bjargað henni ef eitthvað kemur upp á. Ég vil minnast á að mér finnst íslenska þýðingin á þessu fyrirbæri einstaklega vel heppnuð en á bæði spænsku og ensku er talað um the rescue distance eða distancia de rescate, sem beinþýtt væri þá björgunarvegalengd. Bjargfæri er miklu fallegra orð og þjálla. Amanda mælir bjargfærið ótal sinnum á dag og fylgist með hættum sem gætu steðjað að. David segir við Amöndu: „Af hverju gera mæður þetta? […] Að reyna að sjá fyrir allt sem gæti gerst, vera alltaf innan þessa bjargfæris?“ (88) Svar Amöndu er óhugnalegur fyrirboði: „Það er af því að fyrr eða síðar gerist eitthvað hræðilegt.“ (88)

Stöðug leit Davids að kjarna frásagnarinnar gerir Amöndu ráðvillta og örvætingafulla er hún rifjar upp hræðilega fortíð Davids og Cörlu, og að lokum atburðina sem leiða til þess að Amanda liggur nær dauða en lífi á heilsugæslunni.

 

Margslungin

Bjargfæri er spennuþrungin bók sem heltekur lesandann á meðan lestri stendur. Hvað gerist þegar Amanda fer úr bjargfæri án þess að átta sig á því? Tengist það ormunum? Hvernig tengjast atburðirnir David? Ég ætla ekki að ljóstra upp meiru um söguna en mæli eindregið með lestri á þessari margslungnu bók.

 

Lestu þetta næst

Sögur til næsta bæjar

Sögur til næsta bæjar

Sagnagerð er lúmsk kúnst sem þarf að rækta. Í janúar kom saman hópur af upprennandi höfundum í...