Játning. Þegar ég var unglingur elskaði ég Twilight bókaseríuna. Ég fékk fyrstu bókina í jólagjöf og tætti hana í mig á örfáum klukkutímum. Ég var svo forfallinn aðdáandi að í janúar 2009, þegar ég var bláfátækur námsmaður á leiðinni heim úr skiptinámi, notaði ég síðustu pundin mín til að kaupa síðustu bókina, en ég hafði ekki þorað að byrja á henni í prófatíðinni. Ég elskaði bækurnar raunar svo mikið að þegar fyrsta bíómyndin kom í bíó plataði ég 17 ára bróður minn til að koma með mér á myndina, undir því yfirskini að bækurnar væru svo frábærar að þetta gæti ekki klikkað. Ég man ennþá hneykslunarsvipinn á andlitinu á honum þegar hann leit á mig í hléi. „Í alvöru, Anna Margrét…?“ Stóra systir missti nokkur rokkstig þetta kvöld.

Nokkrum árum síðar kom kunningi minn í heimsókn til mín og þegar hann tók eftir bókunum í bókaskápnum mínum hélt hann yfir mér ræðu um hvílíkar ruslbókmenntir þetta væru og spurði hvernig mér dytti í hug að hafa þetta uppi við. Ég vildi óska þess að ég gæti sagt að ég hafi verið nægilega örugg með sjálfa mig og það sem ég fílaði til þess að segja honum að ég hefði bara haft mjög gaman af þessum bókum, en mig minnir að ég hafi muldrað eitthvað og skipt síðan um umræðuefni. Almenn upplifun mín á því að það væri ekki kúl að fíla Twilight leiddi síðan til þess nokkrum árum síðar að ég gaf allar bækurnar frá mér.

Ég hef raunar tekið eftir því að þegar ég segi fólki frá því að ég hafi elskað, já elskað, Twilight bókaseríuna, þá afsaka ég mig alltaf að hætti einhverrar sem veit að hún fílar eitthvað sem þykir ekki samfélagslega samþykkt í sumum hópum að fíla. Ég held að flestir kannist við að hafa brúkað þennan frasa í einhverri af fjölmörgum útgáfum hans að minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni. „Ég veit að þetta eru engar heimsbókmenntir, en mér fannst þær skemmtilegar.“ „Ég veit að þetta er langt frá því að vera besta hljómsveit í heimi*, en þeir eiga alveg eitt eða tvö góð lög.“ „Æji, þetta er óttalegt rusl, en stundum langar manni bara í eitthvað léttmeti.“

Þið kannist við þetta. Maður yppir aðeins öxlum um leið og maður segir þetta. Flóttalegt augnaráð.
Örlítill sviti í lófunum. Heldur jafnvel niðri í sér andanum, á meðan maður bíður eftir viðbrögðunum.

Sjaldnast eru viðbrögðin jafn slæm og maður ímyndar sér. Það eiga sér nefnilega flestir einhvers konar sakbitna sælu. Þegar ég viðurkenni ást mína á Twilight, nefna margir 50 gráa skugga. Aðrir byrja að tala um Ísfólkið (sem flokkast varla sem sakbitin sæla, hvílíkar heimsbókmenntir), rauðu seríuna (klassík) eða játa skömmustulega dálæti sitt á heilu bókamenntagreinunum sem þeir upplifa einhvern veginn óæðri öðrum bókmenntum.

„Ég nenni ekki að lesa glæpasögur.” „Er þetta ekki týpísk svona stelpubók?” „Æji, þetta er svona léttmeti til að lesa á ströndinni.” „Er þetta enn ein dystópíska vísindaskáldsagan?” „Það getur nú varla flokkast undir lestur að skoða myndasögur.” „Er þetta ekki unglingabók?” Hugtakið afreyingarbókmenntir verður næstum skammaryrði og afleiðingin verður meðal annars sú að við upphefjum eins slags bókmenntir á kostnað annarra. Það þekkja höfundar og útgefendur barna- og unglingabókmennta til dæmis vel.

Það er svo skrítið með okkur mannfólkið, að við erum gjörn á að skipa okkur í fylkingar. Þegar á botninn er hvolft erum við miklar félagsverur og það vill enginn upplifa að hann passi ekki inn í hópinn. Ég velti þó fyrir mér tilganginum með því að skipa sér í fylkingu á móti einhverjum kima menningar sem maður fílar ekki. Færir það manni einhverja raunverulega hamingju að tilheyra fámennum hópi sem gerir stöðufærslu á Facebook um hvað boltaíþróttir séu leiðinlegar, þegar allir aðrir eru að tapa sér í einhverri landsleiksgleði? Það er miklu skemmtilegra að gleðjast með náunganum yfir því að hann sé búinn að finna eitthvað sem veitir honum gleði, þótt það samræmist kannski ekki alveg okkar eigin hugmyndum um skemmtun. Það er miklu skemmtilegra að finna samheldnina í hóp af fólki sem sameinast um eitthvað sem það elskar, heldur en þegar fólk sameinast um að hata eitthvað. Er lífið ekki bara of stutt til að sóa því í að dreifa neikvæðni?

Efling lesturs er mikið hjartans mál hjá Lestrarklefanum og þegar kemur að því að hvetja fólk til dáða á sviði lesturs skiptir miklu máli að nálgast viðfangsefnið með opnum huga. Við eigum vissulega aldrei að slá af kröfunum um gæði, en okkur er hollt að muna að gæði og skemmtanagildi þurfa ekki alltaf að haldast í hendur. Þar að auki eru gæði og skemmtanagildi fremur afstæð hugtök og huglægt mat þess sem á í hlut hverju sinni.

Fögnum því fjölbreytileikanum í lestrarflórunni og lesum alls konar. Hver er þín sakbitna sæla?

*Hér á ég augljóslega við þá ágætu hljómsveit Nickleback, en mér skilst að það varði við vinaslit í sumum vinahópum að viðurkenna dálæti á þeirri hljómsveit. Ég fíla’na. Ég gerði svo sem ekki ráð fyrir að raka inn rokkstigunum með þessari færslu.

Lestu þetta næst

Barnið er svangt

Barnið er svangt

Sól_Ey, Lokaverk af sviðshöfundabraut við LHÍ eftir Egil Andrason. Stofa L220 er lítil og...

Höfugur ilmur

Höfugur ilmur

Meðan leikhúsgestir streyma inn í Kassann í Þjóðleikhúsinu stendur Unnur Ösp bakvið örþunnt og...

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...