Small Island er ástarsaga, ekki hefðbundin ástarsaga með byrjun, miðju og enda þar sem allt fer vel, heldur er þetta bók um alls konar ást: ást í leynisambandi, óendurgoldna ást, ástríðufulla ást, og ást sem þróast í hjónabandi sem hófst sem einfaldur hagsmunasamningur.
Eftir seinni heimsstyrjöld opnuðu bresk yfirvöld landamæri sín fyrir íbúa fyrrverandi nýlenda breska heimsveldisins vegna gríðarlegs mannskorts á vinnumarkaði. Í kjölfarið fluttu þúsundir íbúa frá Karíbahafi til höfuðborgar Bretlands í von um betri lífskjör. Þessi hópur innflytjenda var nefndur Windrush kynslóðin eftir farþegaskipinu sem flestir komu á og tók þátt í uppbyggingu Bretlands og bresks samfélags eftir stríð. Lítið hafði þó verið fjallað um þennan hóp í breskum bókmenntum þangað til Andrea Levy gaf út bókina Small Island árið 2004. Bókin fjallar um fjóra einstaklinga: Hortense, Queenie, Gilbert og Bernard, og er sögð frá sjónarhorni þeirra allra. Stærsti hluti sögunnar gerist í London árið 1948 þar sem leiðir persónanna liggja saman; Gilbert er frá Jamaíka og leigir herbergi hjá Queenie, breskri konu sem er að bíða eftir að maðurinn hennar, Bernard, komi aftur úr stríðinu. Gilbert hefur nýlega gifst Hortense sem er væntanleg með farþegaskipi frá Jamaíka. Hortense og Gilbert dreymir um betra líf í London en á “litlu eyjunni” eins og þau kalla Jamaíka. Bókin sýnir hins vegar hvernig lífið þar var ekki dans af rósum fyrir innflytjendur sem mættu rasisma og vinnustöðum sem viðurkenndu ekki erlend menntunarskírteini þeirra. Saga Hortense og Gilbert og hvernig þau aðlagast lífinu á Englandi er í brennidepli í bókinni en einnig flettist inn í söguna forboðin ást Queenie og hermannsins Michael, uppeldisbróður Hortense, sem barðist fyrir Breta í seinni heimsstyrjöld.
Eitt fyrsta verkið um Windrush Kynslóðina
Bókin heillaði mig þar sem hún fjallaði um hluta breskrar nútímasögu sem hefur farið lítið fyrir, fólkið sem kom frá allt öðrum heimshluta með vonir sínar og drauma í farteskinu. Þrátt fyrir afbragðs fléttu er sagan mjög raunsæ og mér fannst ég hafa fræðst um þennan tíma sögunnar og kynnst að einhverju leiti lífskjörum Windrush kynslóðarinnar við lestur bókarinnar. Rithöfundurinn Levy, sem lést fyrr á þessu ári, var fædd og uppalin í London en foreldrar hennar komu frá Jamaíka til London (faðir hennar um borð Windrush farþegaskipsins árið 1948). Það er ljóst að hún hafði góðan efnivið þegar hún samdi söguna og mikinn áhuga á að fræðast um uppruna sinn. Small Island var fjórða bókin í smíðum höfundarins en lang vinsælasta bókin hennar á ferlinum. Hún vann til margra verðlauna meðal annars Whitbread Book of the Year, Women’s Prize for Fiction verðlaunin (ein virtustu bókmenntaverðlaun Bretlands) og Commonwealth Writers’ verðlaunin. Árið 2009 var gerð upp úr bókinni sjónvarpsmynd á breska ríkisútvarpinu (BBC) og nýverið var frumsýnt leikrit byggt á verkinu í breska þjóðleikhúsinu í London.
Seinni heimsstyrjöldin með öðrum vinkli
Það tók mig smá tíma að komast almennilega inn í Small Island en um miðbik bókarinnar var ég djúpt sokkinn og hafði mikinn áhuga á örlögum þessara persóna. Levy vandaði til verka í persónusköpuninni: Gilbert, Hortense og Queenie eru öll flóknar persónur og með því að hoppa fram og til baka í tímanum nær rithöfundurinn að gefa manni heildstæða mynd af þeim og sögu þeirra. Bernard fékk hins vegar minnstu umfjöllunina í bókinni og ég náði ekki að tengja jafn vel við hann og hinar persónurnar. Sem fyrr segir gerist bókin að mestu leyti eftir stríð en þar sem Bernard, Michael og Gilbert berjast allir fyrir það sem þeir kalla Móðurland sitt, Bretland, fer mikið fyrir seinni heimsstyrjöldinni í bókinni. Venjulega hef ég ekki sérstakan áhuga á bókum um þann tíma sögunnar en ég naut þess þó að lesa kaflana um stríðið þar sem ég hef aldrei áður lesið bók með sjónarhorni hermanna frá breskum nýlendum.
Small Island er gott bókmenntaverk þar sem hún nær að opna augu manns fyrir hluta sögunnar sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun áður. Auk þess er hún mjög vel skrifuð og mikið lagt í persónusköpun. Umfram allt er hún einfaldlega skemmtileg bók og áhugaverð ástarsaga sem sýnir hvað ástarsambönd geta verið þýðingarmikil óháð tíma sem fólk fær saman. Hún fjallar um alls konar ást og hvað er betra en þannig ástarsaga?