Það er ótrúlega sérstök upplifun að lesa klassíska bók í fyrsta sinn: maður hefur heyrt um bókina svo oft, kannast að hluta til við söguþráðinn, veit hvernig myndirnar úr bókinni líta út, og hefur jafnvel heyrt frasana sem koma þar fyrir. Það var að minnsta kosti upplifun mín við að lesa Lísu í Undralandi í fyrsta sinn. Ég valdi að lesa nýja útgáfu, þýðingu Þórarins Eldjárns á þessu sígilda verki eftir Lewis Carroll (skáldanafn Charles Lutwidge Dodgson), sem kom út fyrir jólin 2017. Það er margt jákvætt sem má segja um þessa útgáfu, í fyrsta lagi er hún gullfallega skreytt af japanska listamanninum Yayoi Kusama og í öðru lagi tekst Þórarni snilldarlega að þýða gríðarlegt magn af orðagríni og rökfræði úr ensku yfir á íslensku (þessi útgáfa byggir á þýðingu Þórarins frá árinu 1996 með einhverjum endurbótum). Söguþráðinn náði ég hins vegar ekki að tengja jafn mikið við.

 

Ofan í kanínuholuna

Lísa í Undralandi eins og flestir vita fjallar um hina ungu Lísu sem leiðist einn daginn og ákveður að elta kanínu í mittisjakka ofan í holu í jörðinni og kemst þannig á vit ævintýranna í Undralandi. Hún kynnist ógrynni af kynjaverum sem eru hver annarri skrítnari – allt frá Hattaranum sem er alltaf í teboði, til Hjartadrottningarinnar sem vill afhausa mann og annann. Það er ekki framhjá því farið að bókin er mjög undarleg; hver kafli ber að geyma einhvern hitting eða uppgötvun Lísu í Undralandi og mjög fjarstæðukenndir hlutir eiga sér stað. Þetta er barnabók en húmorinn, kímninn, orðaleikirnir og rökfræðin (Carroll var heimspekikennari við Oxford háskóla) virðast ekki síður skrifaðir fyrir fullorðna en börn

Bókin kom fyrst út árið 1865 á Englandi, þremur árum eftir að Carroll fór að spinna söguna um Lísu í Undralandi fyrir dætur kunningja síns (þeirra á meðal Alice Liddell) þegar þau voru saman í bátsferð í Oxford. Alice litla bað hann að skrifa söguna niður fyrir sig og þannig hóf hann bókaskrifin. Frá útgáfu hefur bókin aldrei dottið úr tísku og eflaust notið enn meiri vinsælda eftir að samnefnd Disney teiknimynd kom út árið 1951. Þessi útgáfa af bókinni er ein fallegasta barnabók sem ég hef séð, snilldarlega skreytt af Kusama sem segir í lok bókarinnar að hún “Kusama, sé Lísa í Undralandi nútímans.” Fyrir þá sem þekkja eitthvað til sögunnar og hafa séð myndir úr bókinni, eða jafnvel gömlu Disney myndina, er auðvelt að ímynda sér hvernig allt lítur út og því bara gaman að sjá nýjar túlkanir á textanum í myndskreytingaformi.

Ég hafði gaman af því að lesa bókina í fyrsta sinn, hún er auðlesin fyrir fullorðna og ég er ánægð að vita loksins hvað gerist í þessar goðsagnakenndu bók, sem hefur haft ótrúleg áhrif í dægurmenningu og í bókmenntum. Hins vegar átti ég erfitt með hvað söguþráðurinn var mikil steypa, ég þurfti stundum að fletta blaðsíðunum til baka til að staðfesta að það sem ég hélt ég hefði lesið væri raunverulega að eiga sér stað í sögunni. Þetta er allt þó viljandi gert og maður verður bara að sleppa fyrirfram mynduðum skoðunum um hvernig sögur eiga að vera og njóta þessa ævintýris. Ég naut þess engu að síður að fylgjast með Lísu í ævintýrum sínum, hún er aðdáunarverð lítil stelpa sem er óhrædd við hið ókunnuga og er ekkert feimin að svara fyrir sig meira að segja við drottningu sem gæti afhausað hana og því góð fyrirmynd.

 

Lestu þetta næst

Geturðu elskað mig núna?

Geturðu elskað mig núna?

Þegar Hvítfeld, fyrsta skáldsaga Kristínar Eiríksdóttur, var sett fyrir í bókmenntafræðiáfanga sem...

Ögrandi smásagnasafn

Ögrandi smásagnasafn

Bókmenntir Suður-Ameríku hafa alltaf heillað mig. Smásögur eru töluvert virðingaverðara...