Dóttir mín er tæplega eins og hálfs árs. Því gefur að skilja að barnabækurnar sem lesnar eru, eða öllu heldur flett er í gegnum, á mínu heimili eru harðspjalda. Ein þeirra er sagan um bangsann Bóbó sem fer í leikskólann. Sagan er ekki stórbrotin en eins og harðspjaldabækur eiga gjarnan sameiginlegt þá er ekki mikill texti og söguþráðurinn er í rauninni sá að einhver vaknaði, fór smá á ról og fór svo heim.

Þannig er nú líka með hann Bóbó. Það var dótadagur á leikskólanum hans, hann tók með apaskottið Kókó, fékk sér morgunmat, fór út að leika og svo komu mamma og pabbi að sækja hann. Endir. Að þessi sögðu þá verð ég að segja að ég elska að lesa Bóbó fyrir Silfá mína og hún elskar Bóbó sinn jafn mikið. Myndirnar eru nefnilega svo fallegar og ljúfar og fullar af allskyns fjöri að maður verður glaður á að fletta í gegnum hana. Aftast í bókinni er svo fullt af myndum af dóti sem maður á að reyna að finna í sögunni; litir, lím, skæri, dótalæknataska, póstkassi og svo framvegis. Skemmtilegt frá því að segja að ég fann allt dótið. Fimma til mín! Silfá fann ekki neitt greyið, en svona er þetta – geta ekki allir verið winners.

En jæja

Harðspjaldabækur eru mjög merkilegar bókmenntir, ekki sögulega séð heldur menningarlega séð. Þær eru fyrstu bækurnar og kenna börnum að umgangast bækur, fletta og hvaða horn er best að naga. Ég lærði til dæmis mjög ung að hægra hornið efst er lang best á bragðið, undantekningalaust. Að öllu gamni slepptu þá eru þessar harðspjaldabækur jafn mismunandi og þær eru margar, en þessi er ein af þeim betri og það gera skemmtilegu myndirnar. Svo verður að viðurkennast að söguþráðurinn er bara ágætur líka.

 

Hits: 98