PAX-bókaflokkurinn eftir Åsu Larsson (sem er líklega þekktari fyrir krimmana sína) og Ingelu Korsell og myndskreytt af Henrik Jonsson hefur slegið í gegn í upprunalandinu Svíþjóð og nú þegar eru komnar út tíu bækur um baráttu Alríks og Viggó gegn myrkuöflunum í litla þorpinu Mariefred.  PAX-Uppvakningurinn er önnur bókin sem kemur út á íslensku, fyrri bókin, PAX-Níðstöngin, kom út fyrir síðustu jól og von er á þriðju bókinni PAX – Útburðurinn í nóvember. Bækurnar eru snilldarlega þýddar af Sigurði Þóri Salvarssyni.

Fósturbörn með slæmt orðspor

Bækurnar segja frá bræðrunum Alríki og Viggó sem sendir eru í fóstur til Lælu og Anders í smábænum Mariefred, þar sem mamma þeirra glímir við drykkjuvandamál. Strákarnir lenda fljótt upp á kant við eitt helsta hrekkjusvín skólans en fá oftar en ekki skammirnar, enda vandræðagemsar og fósturbörn frá Stokkhólmi. Orðspor þeirra er slæmt fyrir það eitt að vera fósturbörn. Þeir eru sendir til að bæta fyrir brot sín hjá Estrid og Magnari, eldri systkinum sem búa yfir leyndarmáli. Skyndilega eru Alríkur og Viggó farnir að verja aldagamalt bókasafn gegn myrkum öflum og eiga að taka við af Estrid og Magnari sem umsjónarmenn bókasafnsins.

Í Uppvakningnum þurfa Alríkur og Viggó að glíma við óþekkta ógn sem drepur fólk að nóttu til. Þeir kynnast undarlegum persónum og vita ekki hverjum þeir geta treyst. Bókin er nokkuð svipuð í uppbyggingu og Níðstöngin, sama formúlan er notuð. Alríkur og Viggó þurfa að glíma við hrekkjusvínið Símon, sem er ansi ofbeldisfullur hrotti, til hliðar við aðalsöguþráðinn.

Hrollvekja með dass af myndasögu

Þrátt fyrir að vera mikið myndskreyttar, í stíl teiknimyndasagna, þá eru þetta ekki myndasögur. En myndasagnastíll Henriks í teikningunum gefur bókunum einhvern veginn alvarlegra yfirbragð, finnst mér. Bækurnar eru mjög hrollvekjandi og rosalega spennandi og myndu sennilega ekki henta lestrarhestum undir tíu ára aldri. Sjálf gat ég ekki hætt að lesa bókina, sat með hana opinmynnt á meðan mesta spennan stóð yfir. Ég veit að strákar hafa frekar sótt í þessar bækur og þá helst strákar eldri en tíu ára.

PAX-Uppvakningurinn gefur fyrri bókinni ekkert eftir í spennu og sannfærandi söguþræði. Þó verður að vera sá varnagli á bókunum að þaær eru virkilega hrollvekjandi og rosalega spennandi og kannski ekki fyrir mjög viðkvæma krakka. En hrollvekjandi bækur hafa alltaf haft dularfullt aðdráttarafl, eins og mannskepnan þrái að láta hræða sig.

Lestu þetta næst

Tíminn teygir úr sér

Tíminn teygir úr sér

X eftir Alistair McDowall Klukkan er 20:07 og Ray er að fá sér að borða. Gilda orðar áhyggjur...

Hægt og hljótt

Hægt og hljótt

Hvítalogn er fimmtánda skáldsaga Ragnars Jónassonar og önnur bókin í þríleiknum um lögreglumanninn...

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...