Hér má sjá kápu bókarinnar. Blíðfinnur hlýtur að teljast ein undarlegasta og fallegasta bókmenntavera okkar tíma. Segi ég fullkomlega hlutlaus…..

Árið er 2000. Það eru jól. Ég opna pakkann frá Kertasníki. Í honum er að finna eina skrítnustu bók sem ég hef séð og lesið. Blífðinnur eftir Þorvald Þorsteinsson. Ég vissi ekki á þessum tíma að þarna hélt ég á bókinn sem átti eftir að hafa hvað mest áhrif á mig.

Ég opnaði bókina og byrjaði strax að lesa. Þetta var undarleg bók, fjallaði um stór og mikið málefni, bernskuna, lífið og dauðann. Nú myndu margir kannski halda því fram að dauðinn eigi ekkert með það að birtast sem umræðuefni í barnabókum en ég er ekki sammála. Mér finnst að það megi fjalla um allt í barnabókum svo lengi sem það er vel gert. Það kemur allt börnunum okkar við, líka dauðinn og önnur erfið málefni. Það verður bara að setja það í rétt form sem passar þeim og þeirra þroska.

En já, ég man ekki alveg hvort ég hafi áttað mig strax á innihaldi sögunnar eða hvort að ég hafi skynjað undirölduna síðar þegar ég las hana aftur. Ég man hins vegar að mér fannst sagan mjög sérstök og heillandi og þessi litla vera, Blíðfinnur, var vera sem ég hafði aldrei kynnst áður. Þetta var eitthvað algjörlega nýtt!

Fyrir þá sem ekki þekkja Blíðfinnsbækurnar þá er Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó fyrsta bókin af fjórum og er að mínu mati sú besta í þessum kvartett.

Blíðfinnur á sængurkvennadeild

Ég reyni að lesa þessa bók reglulega, einu sinni á ári, ef vel ber undir og alltaf líður mér jafn vel í sálinni. Það er eitthvað við skrifin hans Þorvaldar, einhver ára og sál sem fyllir andann. Ég man til dæmis eftir því að maðurinn minn las hana fyrir mig þegar ég var komin á steypirinn og þegar við lágum á Sængurkvennadeild með hana Silfá okkar. Þá lásum við Blíðfinn saman og róuðum okkur og nýfædda barnið. Væmið en fallegt. Maður má alveg stundum vera væminn.

Þetta er í rauninni hin fullkomna barnabók, því eins og við hér í Lestrarklefanum höfum hamrað á undanfarið þá eru barnabækur ekki aðeins fyrir börn. Þær eru líka fyrir okkur fullorðna fólkið. Í rauninni mætti meira að segja halda því fram að barnabækur þurfi að vera skrifaðar með fullorðna fólkið sérstaklega í huga þar sem það eru jú við sem setjumst niður með börnunum okkar og lesum fyrir þau og með þeim. Börn eru nefnilega klár. Þau skynja strax hvort að fullorðnu manneskjunni finnst bókin skemmtilega eða ekki og þar með móta þau skoðun sína á bókinni í kjölfarið á því.

Smá innskot

(Svo er náttúrulega efni í annan pistil, hugtakið að vera fullorðin. Erum við ekki bara öll börn inn við beinið sem elskum að láta lesa fyrir okkur og knúsa okkur, fara í tívolí, horfa á Aladdin og hlæja að Hæ Sám. Önnur saga og önnur pæling sem einhver hlutlausari penni Lestrarklefans verður að taka fyrir þar sem ég hef mjög sterkar skoðanir á þessu.)

Á vit mæðra og feðra

Blíðfinnur. Ég elska þessa bók enn þann dag í dag og mun líklega alltaf gera. Þetta er ein besta bók sem ég hef lesið og Þorvaldur Þorsteinsson heitinn, hlýtur að mínu mati að vera einn besti barnabókahöfundur okkar tíma. Það er bara þannig. Ég segi það og skrifa.  Hann er nú farinn á vit feðra og mæðra sinna blessaður og ég er viss um, að ef við látum sem himnaríki eða eitthvað slíkt sé til, að þá situr hann fyrir framan ritvélina sína og skrifar sögur í tonnatali fyrir aldnar sem smáar og ungar sálir.

Okei ég veit að þetta er smá væminn pistil en ég bara ræð ekki við mig hérna. Þessi bók hafði bara svona mikil áhrif á mig og ég segi það einlæglega að án hennar væri ég ekki sú kona sem ég er í dag.

Köttur út í mýri, sett’upp á sig stýri. Úti er ævintýri.

 

 

 

 

Lestu þetta næst

Aðferðir til að lifa af

Aðferðir til að lifa af

Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er...

Verur sem þjást

Verur sem þjást

Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja...

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar

Aldingarðurinn okkar Eden í Tjarnarbíó.  Í Tjarnarbíó hefur salnum verið breytt í náið rými....

Falskur léttleiki

Falskur léttleiki

Eyja er ung kona sem vinnur á fréttamiðli. Hún hefur verið í sambandi síðustu átta árin og býr...

Refarím og kanínukvæði

Refarím og kanínukvæði

Barnabækurnar Sokkarnir hans Rebba og Kanínan vill kúra eru nýlega komnar út í íslenskri þýðingu. Um er að ræða harðspjalda bækur með flipamyndum eftir breska höfundinn Julia Donaldson og hinn þýska myndhöfund Axel Scheffler.