Klassísk óreiða á grundfirsku náttborði.

Á náttborðinu mínu úir og grúir af allskyns dóti. Aðallega þó bókum. Það eru ákveðnar bækur sem ég verð að hafa á náttborðinu mínu innan um snýtubréf, hóstameðöl, naglalökk og þessháttar drasl. Bara verð. Stundum byrja ég nefnilega á bók sem er annaðhvort erfið eða bara svo leiðinleg að eg þarf eitthvað sem vekur upp þá vellíðunar tilfinningu sem góð bók gerir.  Frá því að ég var krakki hef ég sankað að mér ákveðnum bókum sem ég bara verð að eiga. Og ég get ekkert endilega fest hendur á hvernig bækur það eru.

Fyrir mér eru þessar bækur klassískar. Þær eru klassískar fyrir mér, því ég les hverja þeirra að einhverju leyti allavega einu sinni á ári. Stundum les ég þær í heilu lagi en stundum gríp ég bara í kafla og kafla. Og sumar les ég þannig að ég les bara ákveðin part af þeim, alltaf sama partinn en aldrei restina af bókinni.

Sumar bækurnar eru þess eðlis að ég eiginlega skil ekki af hverju þær flokkast undir að vera í mínum klassíska hóp. Þær bara eru þar, veita mér gleði og ánægju og eru alltaf til staðar, á náttborðinu mínu, þegar ég þarf á þeim að halda. Sem er ansi oft. Ég ætla að birta hér lista yfir tíu af þessum bókum og opinbera þar með mín undarlegheit þegar kemur að bókasmekk. Röðin er handahófskennd, ég geri ekki upp á milli þessarra bóka.

[hr gap=“30″]

Þar sem Djöflaeyjan rís, eftir Einar Kárason.

Þá bók las ég sem unglingur og les hana part og part eftir því í hvernig skapi ég er. Kaflinn um stofnfund fótboltafélagsins Kára og fyrstu æfinguna er í sérlegu uppáhaldi. Persónunar hver annari betri. Eyjabækurnar eru þó allar ótrúlega góðar en það toppar ekkert þá fyrstu. Karólína spákona með jólaskrautið dinglandi í eyrunum, Tommi, þetta gæðablóð sem barði fyrst í borðið þegar sjónvarpið átti að koma inn á hans heimili því slíkar dillur ætlaði hann nú ekki að fara að eltast við! Þessar persónur eru vinir mínir, ég sé þær fyrir mér og ætla ekki að láta það eftir mér að horfa á bíómyndina, ég vil ekki skemma ímyndina af þessum vinum sem ég ber í kollinum.

[hr gap=“30″]

Bilun eftir Friedrich Dürrenmatt

Er grátbroslega saga um einfeldning sem lendir í undarlegu samkvæmi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessi bók er í sérstöku uppáhaldi hjá mér því þegar ég var ófrísk af fyrsta barninu mínu átti ég ekki sjónvarp en barnsfaðir minn las þessa bók upphátt fyrir mig á kvöldin með tilheyrandi tilbrigðum.  Bókin er áminning um hvaða afleiðingar gjörðir okkar geta haft og endalaust er hægt að sjá eitthvað nýtt í þessari sögu. Tímalaus saga með boðskap sem á alltaf við.

[hr gap=“30″]

Arabahöfðinginn eftir E.M. Hull

Hversu bilað er það í nútímasamfélagi að kona hafi gaman af þessari bók? Bók sem er eiginlega ekkert nema ljótleiki frá A til Ö. Maður rænir konu, misnotar hana á þann versta hátt sem hægt er að ímynda sér og svo enda þau ástfanginn á bleiku skýi. Já eg er skrýtin en svona er þetta samt. Ég var bara unglingur þegar ég las hana fyrst, ég held ég hafi verið 13 ára og gat ekki beðið eftir að komast yfir framhaldið. Ég man að ég hékk fyrir utan bókasafnið á Selfossi í klukkutíma og beið eftir að safnið opnaði til að ná mér í eintak. Til þess eins að verða svo fyrir gríðarlegum vonbrigðum.  En Arabahöfðingann get ég endalaust gripið í og skammast mín líka pínu fyrir. Ég tek það fram að ímyndin af arabahöfðingjanum sem ég á mínu hugarfylgsnum á ekkert skylt við þennan föla og rolulega jólasvein sem prýðir þessa bókakápu.

[hr gap=“30″]

Kattasamsærið eftir Guðmund Brynjólfsson

Les hana reglulega, hnittið málfarið og skemmtilegar frásagnir frá sjónarhóli ferfætlingana sem Guðmundur virðist skilja á einhvern undarlegan hátt. Bókin fjallar um köttinn Petru sem býr við þann stanslausa ótta að verða vísað út af heimilinu og send í „sveit“  Það fylgir því ábyrgð að taka að sér gæludýr og þessi saga minnir okkur á að taka þessum greyjum ekki sem sjálfsögðum hlut sem hægt sé að henda frá sér eftir hentugleika. Fyrst og fremst er bókin þó stútfull að lúmskri fyndni sem fullorðnir einir skilja. Svo er stundum svo gott að lesa barnabækur. Maður sofnar svo vel á eftir.

[hr gap=“30″]

Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness

Æ þarf ég að útskýra hana? Samtal Jóns Hreggviðssonar við Arnas, magnað málfar bókarinnar, Snæfríður Íslandssól, þetta er allt svo fullkomið og yfirgengilega vel skrifað. Ógleymanleg samtöl og persónulýsingar Halldórs, hann kemst svo skemmtilega að orði og málfarið svo gamaldags en samt svo tímalaust. Allar bækur Halldórs eru þrekvirki en þessi stendur þó uppúr að mínu mati.

[hr gap=“30″]

ÓSKASONURINN EFTIR INGIBJÖRGU SIGURÐARDÓTTUR

Mamma á allar bækurnar hennar og á náttborðinu hennar er alltaf ein bók eftir Ingibjörgu. Þær eru svo saklausar, fallegar og ótrúlega sveitó þessar bækur og þá meina eg sveitó í jákvæðri merkingu. Minna mig á bernskuna mína í sveitinni minni, mömmu og Heiðu, systur hennar,  tsem lásu Ingibjörgu aftur og aftur.  Bók sem lætur manni líða vel en er jafnframt svo skondin heimild um gamlan tíðaranda, þegar konur voru metnar eftir hæfileikum í eldhúsinu, þegar svignandi veisluborð og glæsilega skreyttar brauðtertur báru vott um mikinn kvenkost.

[hr gap=“30″]

Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness

Ótrúlega hæðin bók á íslenskan rembing og íslenskt samfélag. Bjartur og hans sjálfstæði endurspeglar þjóðarrembinginn í okkur sem lifir góðu lífi og þess vegna á þessi bók alltaf vel við. Fyrir nokkrum árum, í kringum Icesave umræðuna, fór frasinn hans Bjarts í Sumarhúsum á flug og fólk gargaði í hverju skúmaskoti „Meðan ég sækist ekki eftir annarra manna gróða kæri ég mig ekki um að bera annarra manna skuld“. Sjálfstæðisrembingur Bjarts varð fólki einhver ægilegur innblástur. En bókin er ekki hvatning Halldórs til að hampa eigin ágæti sem þjóð, né er hann að upphefja okkur Íslendinga sem einhverjar sjálfstæðishetjur, hann gerir stólpagrín að þessu og deilir á rembing og þjóðernispopulisa sem á svo sannarlega vel við í dag. Það er því mikill misskilningur fólginn í því að taka Bjart í Sumarhúsum sér til eftirbreytni.

[hr gap=“30″]

Heimskra manna ráð eftir Einar Kárason

Drepfyndin skáldsaga um skrautlegar persónur. Geiri gamli sem er með þráhyggju fyrir danska konungsfólkinu og mamman sem sökkvir sér öðru hvoru í danskar ástarsögur eru dásamleg. Og kaflinn þar sem börnin fara að selja skilirín sem mamman föndraði úr dönsku blöðunum er óborganlegur. Þessi bók er bara eitt hláturskast út í gegn. Persónusköpun Einars er sem aldrei fyrr afskaplega vel úr garði gerð og samtölin ógleymanleg. Ég hef oft lesið þessa bók upphátt fyrir hópa og jafnvel börnin mín. Og það er alveg sama hvað ég les hana oft, ég hlæ alltaf jafn mikið.

[hr gap=“30″]

Maður sem heitir Ove eftir Frederick Backman

Ove stendur mér nær. Ég hafði misst pabba minn nokkrum árum áður en ég las þessa bók og ég sá pabba í Ove. Hún vekur hjá mér söknuð og gleði og allskonar. Ótrúlega velskrifuð og fyndin en jafnframt angurvær, og minnir okkur á að ekki er allt sem sýnist í mannlegum samskiptum. Varasamt getur verið að dæma eftir útlitinu eða framkomunni einni saman, oft býr flagð undir fögru skinni og svo öfugt.

[hr gap=“30″]

Jólavaka, safnrit úr íslenskum bókmenntum sem Jóhannes úr Kötlum tók saman

Já ég veit, ég á bágt. Ég er bara svo ótrúlegt jólabarn. Það kemur yfir mig ákveðinn hátíðleiki við að handfjatla þessa bók. Hún geymir sögur og heimildir frá fyrri jólum og þar sem ég fann hana á fornbókamarkaði þá finnst mér ég finna ilm liðinna jóla langt aftur í tímann. Þessi bók minnir mig á að njóta jólanna en gleyma mér ekki í yfirborðsmennsku og neysluhyggju. Hún er látlaus og falleg. Ég reyni samt að hemja mig og byrja ekki að fletta henni fyrr en á aðventu en bókin er á náttborðinu allt árið um kring samt sem áður.

[hr gap=“30″]

Svona lítur minn klassíski bókalisti út. Ég hefði getað valið fleiri en náttborðið mitt er ekkert rosalega stórt og stundum þarf ég að rótera bókunum, leyfa öðrum bókum að máta borðið mitt í smá tíma. Einhvern veginn rata þessar samt alltaf þangað aftur. Klassík þarf ekki alltaf að vera eitthvað eldgamalt og leiðinlegt, háfleygt og óskiljanlegt, klassík er eitthvað sem er tímalaust og fyrir mér, ómissandi.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...