Guðbjörg hin mikla í stórkostlegri örlagasögu

Ég vatt mér inn í Mál og menningu á dögunum og kom auðvitað út með mikinn feng, eins og vanalega. Að þessu sinni var endurútgefin saga Þorgríms Þráinssonar, Allt hold er hey, í pokanum. Ég verð bara að segja eins og er; bókin er stórkostleg og persónurnar eru svo raunverulegar í mínum huga að ég var iðullega korteri frá því að kalla á Starkað eða Guðbjörgu til að segja þeim frá sniðugum lausnum sem gætu auðveldað þeim lífið á tímum móðuharðindanna. Ég gjörsamlega gleypti bókina í einum orðabita, svona á milli þess sem ég fór á flakk og svona.

Gjörsamlega ömurleg örlög

Allt hold er hey segir frá Guðbjörgu Guðrúnardóttur, sem örlögin leiða á fremur ömurlegar slóðir en á sama tíma kynnist hún yndislegu fólki og myndar sína eigin fjölskyldu og fetar sínar eigin grasalækningaslóðir. Móðuharðindin eru einnig, að mínu mati, sjálfstæð persóna í bókinni sem stjórnar högum fólksins í landinu afar harðri hendi. Sagan gerist á 18. öldinni þegar allt er í volli, ef svo má segja. Eldgos og ýmsir kvillar, liðin lík á hverju strái og feðraveldið réð öllu, eins og svo oft áður.

Hins vegar, þrátt fyrir hrylling oft á tíðum þá er þetta falleg saga og raunsæ en eins og ég segi, því miður, of raunsæ á köflum; þ.e.a.s. það er hryllilegt að hugsa til þess að þessi saga geti í raun verið sönn. Þorgrímur byggir nefnilega söguna á frásögn miðils sem hafði samband við hann árið 1992 og sagði honum sögu Guðbjargar sem á að hafa verið uppi fyrir rúmlega 200 árum síðan. Hennar ósk var að saga Guðbjargar yrði sögð til að Guðbjörg fengi frið. Sagan er mögnuð og lýsingarnar sitja í lesanda og leita á hann. Þetta var Ísland þess tíma að mörgu leyti; hið holdsveika Ísland þar sem sýslumenn og aðrir háttsettir karlmenn höfðu örlög kvenna í hendi sér og gátu gert það sem þeim sýndist.

Gjörsamlega ömurleg kápa

Sagan er stórvirki að mínu mati og hlýtur að teljast klassík enda afspyrnu vel skrifuð og góð. Ef eitthvað ætti út á hana að setja þá verður að segjast að kápa bókarinnar er að mínu mati algjörlega ómöguleg og í engu samræmi við innihald bókarinnar. Ljósmyndin sjálf er falleg og allt það en hún sýnir engan veginn þá persónu sem Guðbjörg er né hennar stöðu; það hefði verið hægt að vinna svo miklu, miklu meira með innihald bókarinnar og búa til kápu sem væri þess verðug að prýða þessa mögnuðu sögu. Að því sögðu þá fær bókin fjóra og hálfa stjörnu en kápan dregur hálfa stjörnu af. Habbarahannig!

 

Lestu þetta næst

Lygar eða skemmtisögur?

Lygar eða skemmtisögur?

Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann...

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...