Við þurfum að tala saman um Röskun.

Röskun er nýleg íslensk spennusaga sem kom út hjá Sölku í vor og er frumraun höfundarins, Írisar Aspar Ingjaldsdóttur. Ég gerði þau mistök að byrja á bókinni seint um kvöld, en fann hér um bil strax að þarna væri á ferðinni bók sem best er að lesa með ljósin kveikt, heimilisfólk á ferli og púða við höndina sem hægt er að grúfa andlitið í þegar ímyndunaraflið leikur lausum hala. Þið gætuð verið að spyrja ykkur hvaða tilgangi púðinn á að gegna og ég verð að viðurkenna að ég veit það varla sjálf. Ég held að ég myndi seint yfirbuga ímyndaðan árásarmann minn í koddaslag, en á meðan púðinn veitir mér þá fölsku öryggistilfinningu sem ég er að sækjast eftir fær hann að vera.

Sagan fylgir í raun tveimur aðalsöguhetjum, Heru og Stellu. Hera er að jafna sig eftir áfall og hefur nýlega fest kaup á lítilli kjallaraíbúð í Þingholtunum, en fljótlega finnur hún fyrir óþægilegri nærveru í íbúðinni. Hún telur sig vera að ímynda sér nærveruna, þar til henni er tjáð að fyrri eigandi hafi verið myrtur í íbúðinni. Eftir það leitar hún svara með því að kynna sér morðmálið betur, á sama tíma og hún reynir að telja sjálfri sér trú um að atburðarrásin sé hreinn og klár hugarburður.

Samhliða því að fylgja Heru eftir, fylgir lesandinn einnig eftir Stellu, fórnarlambinu sem bjó í íbúðinni á undan Heru. Það er ljúfsárt að fylgja henni eftir, því rétt eins og Hera er Stella geðþekk sögupersóna og það er auðvelt fyrir lesandann að halda með henni og vona jafnvel að þetta sé allt saman ein stór flétta sem leysist með allt öðrum og óvæntari hætti en andláti hennar.

Eins og sjá má af stjörnugjöfinni var ég mjög hrifin af bókinni. Íris á ekki í neinum vandræðum með að halda spennunni í gegnum alla söguna og lýsingar eru með þeim hætti að hárin rísa. Írisi tekst líka einstaklega vel upp með að lýsa aðstæðum þar sem sögupersónurnar eru berskjaldaðar. Það er eitthvað við röskun á friðhelgi einkalífsins sem er sérstaklega óþægileg tilhugsun sem ég held að flestir tengi við.

Eitt af því sem ég kunni líka sérstaklega að meta við þessa bók, og er að mínu mati það sem gerir annars klassíska sakamálasögu að sálfræðitrylli, er að aðalsögupersónan er óáreiðanlegur sögumaður sem efast sífellt um eigið mat á aðstæðum, þannig að lesandinn efast með henni.

Mín eina gagnrýni á bókina er örlítið hjákátleg innri einræða aðal skúrksins á lokametrum sögunnar, þar sem skúrkurinn virðist taka sér mínútuþögn í spennuþrungnum aðstæðum til að fara yfir alla þá hluti sem hafa leitt viðkomandi á veg illskunnar. Mér hefði næstum þótt betra ef engin ástæða hefði verið gefin, en fyrir minn smekk hefði í það minnsta mátt einfalda þann hluta og sleppa nokkrum klisjum. Sagan nær sér þó strax aftur á strik og nægir þessi útúrdúr engan vegin til að varpa rýrð á annars frábæra skáldsögu sem ég mæli heilshugar með fyrir aðdáendur spennusagna. Ég bíð allavega spennt eftir næstu bók höfundar!

Hits: 444