Bókakápan er dejlig og lýsandi fyri anda bókarinnar að mínu mati.

Ég skrifaði pistil fyrr í vikunni sem fór misjafnlega vel í marga. Sumir fóru í mann og annan á kaffistofum á meðan aðrir brugðust við með leiðindarkommentum á samfélagsmiðlum. Í pistlinum ræddi ég um áhrif þess að þurfa að lesa bækur fyrir skólann og hvort ég hefði haft aðrar skoðanir á ákveðnum höfundum ef ég hefði fengið að velja að lesa bækurnar eftir þá. Tók ég þá Laxness sem dæmi og sagði einfaldlega, svo ég vitni í sjálfa mig:

„að torflegur ritháttur Laxness hafi farið með mig á þessum tíma og eitthvað við það að hann hafi ákveðið að skrifa með sinni eigin stafsetningu.“

Ég tengdi einfaldlega ekkert við skrif hans á mínum ungdómsárum og hef ekki haft löngun eða eirð í mér til að lesa meira eftir hann. Textinn var bara of mikill. Það er áhugavert í ljósi þeirrar umfjöllunar sem ég ætla að vera með nú.  Því alla malla sko; talandi um torf!

Torfið og lækurinn

Torfið at arna ku vera Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson, höfundur sem einnig er með frekar torflegt nafn og ég á alltaf í stökustu vandræðum með að muna hvað hann heitir blessaður. En þrátt fyrir að ég rugli nafninu hans reglulega fram og til baka þá verður að segjast að hann er eitt besta skáld okkar tíma. Hann er hvað frægastur fyrir að hafa skrifað Svar við bréfi Helgu sem Íslendingar elska svo um munar. Ég hef setið í ófáum matarboðum þar sem vitnað er í þessa bók og lýsingar Bergsveins.

Í þessari nýjustu bók hans sem kom út síðustu jól, Lifandilífslækur, (sem verður einnig að teljast fremur óþjálft nafn) þá flakkar Bergsveinn aftur til 18. aldar, sem er einmitt ein af mínum uppáhalds, og segir sögu háskólamannsins hálf- íslenska Magnúsar Árelíusar. Sá er sendur norður á strandir til að mæla gráðurnar fyrir kortagerð auk þess að gefa skýrslu um aðbúnað fólksins í landinu og sjá hvort að ekki sé hægt að senda vinnufæra Íslendinga yfir hafið til að sjá um verksmiðjurnar í Danmörku. Danir vildu réttlæta að flytja Íslendinga óviljuga úr landi enda væri verið að bjarga þeim frá Skaftáreldum og almennu volæði. Margt kemur á daginn í ferð Magnúsar sem kynnist landi og þjóð, lendir í yfirskilvitlegum ævintýrum og mælir landið hátt og lágt. Ég ætla ekki að fjalla meira um söguþráð bókarinnar því ég vil ekki spennuspilla.

Hinsvegar verð ég að segja að Bergsveinn skilar sögunni prýðis vel af sér og gerir nánast í því að gera textann eins tyrfðan aflesturs og hægt er; lesanda líður hreinlega eins og hann sé að lesa skýrslu eða sögu skrifaða á 18. öldinni sjálfri af hámenntuðum rentukammer.

Bergsveinn hlýtur að vera tímaflakkari

Ég hef aldrei lesið annað eins og var ég nokkra mánuði að koma mér í gegnum hana en almáttugur hvað hún var þess virði. Hér verður þó að segjast að sagan sjálf er víst áhugaverð en áhugaverðast hlýtur þó að teljast rithátturinn og þekkingin sem býr að baki verki sem þessu. Bergsveinn er hér greinilega maður upplýsingarinnar og lifir eins og fluga á vegg á þessum ólgutímum; tímaflakkari jafnvel? Það liggur beinast við. Aldrei vitað annað eins! Sagan er í rauninni í stílnum og án stílsins væri sagan ekki eins áhrifarík. Hérna kemur pistillinn minn, áðurnefndi, einnig við sögu því þar tala ég um að ég hafi átt erfitt með að lesa torfið hans Laxness þegar ég var yngri og er ég viss um að ég hefði ekki getað lesið þessa bók í gegn í framhaldsskóla enda annarsstaðar í huganum; þannig að ég er Guðs lifandi feginn að hún kom út núna og ég las hana hátt í þrítugt og gat þar með notið þess. Jú, maður lifir og lærir gott fólk!

Ég segi þrjár og hálfa á Liffandilífslæk, torfið mitt fallega, ljúfa og lekkera.

 

Lestu þetta næst

Út í geim

Út í geim

Ég er stjörnufræðinörd og hef horft á fleiri heimildarmyndir um fjarlægar plánetur á...

Sumarleg og fjörug sandkaka

Sumarleg og fjörug sandkaka

Nýlega kom út Mamma Sandkaka, lífleg og fallega myndlýst barnabók eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur....

Flugur á sad beige vegg

Flugur á sad beige vegg

Við erum stödd á fyrstu frumsýningunni á stóra sviðinu á leikárinu. Það er verið að fara sýna...