Pistillinn sem má ekki skrifa

Jæja. Hér kemur það.

Eins og þeir vita sem fylgjast með Lestrarklefanum þá er þema þessa mánaðar skólabækurnar, hvorki meira né minna. Það er af mörgu að taka enda ófáar bækur sem maður les í grunn- og framhaldsskólum landsins svo ekki sé talað um í háskólanum. Ég hef undanfarið mikið verið að velta því fyrir mér hvernig þessi lestur hafði áhrif á mig sem nemanda og lesanda. Þegar maður er nemandi er maður oft skyldugur til að lesa ákveðnar bókmenntir sem er auðvitað gott og blessað en ég velti því stundum fyrir mér hvort að ég ætti í öðruvísi og jafnvel betra sambandi við nokkrar bókmenntir og höfunda ef ég hefði fengið að velja að lesa þær sjálf í stað þess að lesa þær til að geta fengið góða einkunn á prófi og ná að útskrifast.

 

Játning

Einn af þeim höfundum sem ég á ekki í góðu sambandi við er … allt í lagi og ókei – áður en ég viðurkenni þetta þá verð ég að biðja þig lesandi góður um að bölva mér ekki of harkalega og anda með nefinu því ég er alveg að fara að brjóta allar reglur í íslensku bókmenntalögunum (eru þau til?) með því að viðurkenna hérna fyrir framan alþjóð eða lesendur Lestrarklefans að ég ÞOLI EKKI BÆKUR HALLDÓRS LAXNESS. Þarna –  ég sagði það. Ég bara ræð ekki við þetta. Frá því ég las Íslandsklukkuna og Sjálfstætt fólk í framhaldsskóla þá hef ég ekki getað hugsað mér að lesa meira eftir hann; ég hef sjaldan átt jafn erfitt með að klára bækur á ævinni.

Þessu til marks er mér minnistætt að kennarinn minn í Kvennó spurði mig einu sinni í einum íslensku tímanum þar sem við ræddum klukkuna hvort mér leiddist eitthvað ósakplega þá stundina því ég hafði þagað allan tímann og ekki haft neitt um neitt að segja en það var afar ólíkt mér og minni skólagöngu. Ég hafði alltaf tekið þátt í tímanum en þarna bara gat ég ekki hugsað mér það enda hafði ég ekkert um þetta að segja.

Á seinni árum hef ég ætlað að reyna að endurnýja kynni mín við blessaðan höfundinn og reynt að glugga í Sölku Völku og Vefarann en alltaf gefist upp. Ég velt því fyrir mér hvort það sé vegna þess að ég þurfti að lesa Laxness; honum var þröngvað upp á mig með allar sínar 500 plús blaðsíður af latínu- og dönskuslettum, volæði og ömurð. Ég gleymi því aldrei þegar ég hélt að ég væri búin að lesa Íslandsklukkuna og varð SVO GLÖÐ en þá var eitt heilt bindi eftir. Sjaldan verið jafn buguð get ég sagt ykkur. Ég held að torflegur ritháttur Laxness hafi farið með mig á þessum tíma og eitthvað við það að hann hafi ákveðið að skrifa með sinni eigin stafsetningu.

Sjúklega skilningsrík gella

Að þessu sögðu þá skil ég auðvitað mikilvægi þess að nemendur séu kynntir fyrir þessum bókmenntum enda mikilvægur og órjúfanlegur þáttur af íslenskri bókmennta- og menningarsögu. Það sama má segja um aðrar bækur eins og Animal Farm, Catcher in the Rye, Lord of the Flies og Emmu eftir Austen (sem ég er nýfarin að kunna vel við eftir að hafa verið dregin óviljug með í endalausa göngutúra og teboð á menntaskólaárunum) og fleiri bækur.

Ég veit ekki hvort ég á nokkurn tímann eftir að lesa Laxness en þó veit ég að ég á eftir að lesa margt annað þannig að það er kannski bara ekki svo rosalega slæmt eftir allt saman að vera eina gellan í boðinu sem þegir þegar aðrir dásama. Ojæja og já. Játningu lokið.

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...